Sögur sem enda vel

Sögur sem enda vel

Páskasögur eru ekki happíendingsögur. Þær enda vel. En í þeim mætum við líka ranglæti og reiði og sársauka. Lífinu og heiminum eins og hann er.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
24. apríl 2011
Flokkar

Páskaliljur

[audio:https://s3-eu-west-1.amazonaws.com/hladvarp/2011-04-24-sogur-sem-enda-vel.mp3]

Kæri söfnuður. Á föstudaginn langa söfnuðumst við saman hér í kirkjunni og íhuguðum krossinn og sögur sem enda illa. Þá flutti ég fyrri hluta þessarar prédikunar. Nú kemur framhaldið. Og því að þessi prédikun er í tveimur hlutum, eins og sjónvarpsþættir, sem stundum eru sýndir í Ríkissjónvarpinu um páska, þá er við hæfi að byrja hana á upprifjun.

Á föstudaginn heyrðum við þrjár sögur, um Jenny sem var misnotuð af föður sínum, af unga piltinum sem varð vitni af því þegar allir karlmennirnir og drengirnir í þorpinu hans voru myrtir og af Páli, ungum dreng sem varð vitni að því þegar móðir hans lést í hryllilegu bílslysi.

Þrjár krosssögur. Þrjár sögur sem enduðu illa.

Og við kynntumst því hvernig krossinn – og föstudagurinn langi – er ljótur og ranglátur, tilgangslaus og sár.

Nú höldum við áfram.

Framhaldssögur Kæri söfnuður. Ég ætla semsagt að segja framhald af sögunum í dag. Og það er rétt að hefja þessa prédikun á ábendingu. Þetta eru engar Hollívúddsögur. En þetta eru ekki sögur sem enda illa.

Þetta eru sannar sögur og fallegar sögur. Þetta eru raunverulegar sögur. Páskasögur.

Þetta eru sögur sem enda vel.

Kæri söfnuður. Þessi prédikun er við hæfi barna. Eins og páskarnir.

Tvær konur

Jenny var misnotuð sem barn af föður sínum. Hún var beitt ofbeldi af manninum sínum. Á endanum sagði hún stopp og hún myrti hann. Og það var réttað yfir henni og hún var fundin sek og dæmd til fangavistar. Og henni var stungið bak við lás og slá.

Hún ólgaði af reiði.

Í fangelsinu kynntist hún Traude. Hún var aldraður píanókennara og hafði starfað þarna í fangelsinu í áratugi. Og þær náðu saman í tónlistinni því Jenny var ekki bara fórnarlamb, hún var líka undrabarn í tónlist.

Traude var, eins og Jenny, fangi fortíðarinnar. Hún var samkynhneigð. Og hún hafði, á stríðsárunum, séð ástkonu sína tekna af lífi, fyrir það eitt að elska konur en ekki karla. Og hún hafði aldrei þorað að segja frá þessu.

Aldrei.

Svo kynntust Jenny og Traude. Og vináttan leiddi þær á nýjan stað. Þetta var ekki auðvelt ferðalag. En það leiddi þær á stað þar sem þær upplifðu traust og virðingu. Þar sem þær gátu staðið með reisn. Og sagt söguna sína. Saman.

Jenny losnaði ekki úr fangelsinu, hún þurfti að afplána sinn dóm En var ekki lengur fangi fortíðarinnar. Ekki fangi reiðinnar. Og hún var ekki lengur fórnarlamb. Og Traude var ekki lengur fangi sektarkenndar yfir því hver hún var. Þær voru manneskjur.

Páskarnir eru reisn. Páskarnir eru réttlæti. Páskarnir eru frelsi.

Þetta var fyrsta sagan.

Heilt þorp

Önnur sagan fjallar um strák.

Hann var barn að aldri þegar hermennirnir komu. Þeir svívirtu konurnar í þorpinu. Þeir myrtu karlmennina. Þeir myrtu drengina.

Alla nema hann.

Og hann varð vitni að þessu og þetta bjó með honum og mótaði hann. Og svarta hárið hans varð hrímhvítt. Og hann talaði aldrei framar.

En lífið hélt áfram.

Konurnar voru eftir. Og trúarleiðtoginn, sem var hniginn að aldri. Og þau stóðu saman.

Þau gengu til verkanna sem tilheyrðu hverjum degi, og hverri árstíð.

Þau rifjuðu upp og sögðu sögur af góðum dögum. Héldu utan um hvert annað.

Og lífið gekk sinn vanagang. Það var ekki sama lífið og áður, en það var gott.

Þetta var líf í samhjálp og samstöðu í litla þorpinu sem var þorpið þeirra.

Og smátt og smátt var eins og það fenndi yfir erfiðu minningarnar. Nýjar komu í þeirra stað. Minningar sem endurspegluðu lífið. Hér og nú.

Pilturinn talaði aldrei framar. En hann brosti. Og hann var öruggur. Með þeim. Þrátt fyrir allt sem hafði gerst.

Páskarnir eru samstaða. Páskarnir eru friður. Páskarnir eru öryggi.

Þetta var önnur sagan.

Feðgar

Páll var bara barn þegar mamma dó. Þetta var slys. Á hraðbrautinni. Hann og pabbi sátu í bílnum, mamma fór út. Og flutningabíllinn kom alltíeinu og hrifsaði hana frá þeim. Hún dó samstundis.

Og í einni svipan var allt breytt.

Og framtíðin sem hafði verið svo örugg, var horfin. Og það var Bara sárt.

Og svo, eins og til að bæta salti í sárin, horfði hann upp á pabba brotna saman. Pabba. Sem hafði verið eins og klettur í huga hans.

Pabbi varð einrænn og fjarlægur. Vildi ekki fara að gröfinni. Vildi ekki muna. Ýtti öllum frá sér. Vildi ekki tala. Hann vildi bara deyja.

Og Páll fann sig einan. Hvernig gat hann borið þessa byrði?

Að lokum sagði hann. Hingað. Og. Ekki. Lengra.

Og horfðist í augu við pabba og sagði: Nú þurfum að standa saman. Því þú þarft að lifa. Og ég þarf að lifa. Og við þurfum að ganga saman. Nú erum við Tveir.

Og lífið breyttist aftur. Ekki á augabragði heldur smátt og smátt. Þeir stóðu saman. Horfðust í augu við fortíðina og gengu til móts við framtíðina. Og báðir öxluðu ábyrgðina. Sonur og faðir. Lifðu. Saman.

Páskarnir eru sátt. Páskarnir eru líf. Páskarnir eru von.

Þetta var þriðja sagan.

Kristur

Þeir krossfestu Krist. Hann dó. Og öllu var lokið.

Og á föstudaginn langa var sagan hans krosssaga. Saga sem endar illa.

En.

Hann reis upp. Og á páskadegi. Frá og með páskadegi er sagan hans páskasaga.

Páskasögur eru ekki happíendingsögur. Þær enda vel. En í þeim mætum við líka ranglæti og reiði og sársauka. Lífinu og heiminum eins og hann er.

En þær leyfa föstudeginum langa ekki að vera lokadegi.

Og þetta er upprisuboðskapurinn:

Að dauðinn og sársaukinn og vonleysið og ranglætið og tilgangsleysið Að fjarlægðin og illskan.

Eru ekki lokasvarið.

Hann er ekki hér sagði engillinn. Hann var hér á föstudaginn langa. En núna er hann ekki hér.

Því hann er upprisinn.

Krossinn er ekki lokasvarið.

Heldur páskarnir. Lífið. Vonin. Réttlætið. Friðurinn. Samfélagið.

Ekki dauði heldur líf.

Ekki vonleysi heldur von.

Ekki einmanaleiki heldur samfélag.

Það er boðskapur, það er loforð páskanna.

Það er páskasagan.

Það er saga sem endar vel.

Guðspjallið

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.Matt. 28. 1-8