Stundum er ærið tilefni til að líta inn á við, sem einstaklingar og samfélag, skoða hvar skórinn kreppir og hvaða leiðir liggja til lausnar. Kynferðisofbeldi og allar þess ömurlegu afleiðingar eru okkur hugleiknar þessa dagana, þegar kirkjuþing þjóðkirkjunnar hefur nýlega sett starfsreglur og skipað rannsóknarnefnd sem fara á yfir ásakanir um vanrækslu og þöggun þegar Ólafur Skúlason biskup var borinn sökum um kynferðislegt ofbeldi.
Síðustu helgi komum við nokkur saman í Langholtskirkju í nafni ljóssins Guðs sem er andstaða ofbeldis í öllum þess myndum. Í messunni voru flutt orð úr ritningunni sem tala gegn ranglæti, misnotkun og ofbeldi. Þar voru líka fluttar bænir sem settu orð á erfiðar og ruglingslegar aðstæður sem skapast þegar kynferðisofbeldi er beitt. Við hugsuðum til allra þeirra sem verða fyrir afleiðingum þess.
Orð gegn kynferðisofbeldi eru máttug vegna þess að þau staðfesta andstöðu okkar og fordæmingu okkar á ofbeldisverkinu. Við tökum okkur stöðu gegn ofbeldinu og með þeim sem líða vegna þess. Orð í bæn og tilbeiðslu eru líka máttug vegna þess að við beinum ákalli okkar og sársauka til Guðs sem tekur sér stöðu með manneskjunni sem þjáist.
Stundum er það þannig að við meikum ekki að segja orðin sem þarf að segja upphátt. Við meikum varla að hugsa þau með okkur sjálfum. En við trúum því að þá heyri Guð líka í hjartanu okkar – að Guð finni til eins og við finnum til.
Þegar við getum ekki orðað tilfinningar okkar og hugsanir, er hægt að grípa til verka. Í Langholtskirkju um helgina notuðum við biblíulega aðferð við að tjá tilfinningar okkar með því að skrifa í sand sem hafði verið komið fyrir á gólfinu fyrir miðju altarisins. Sandurinn tók við orðum, táknum, hugsunum, reiði, sársauka, spurningum, hræðslu og von.
Jesús skrifaði einu sinni í sandinn líka og enginn veit lengur hvað þar stóð. En af öllu því sem við vitum og lærum og trúum um Jesú, getum við tekið til okkar að hann stendur með réttlætinu og því sem reisir manneskjuna við. Sem kirkja viljum við koma þar inn í myndina, vera öruggur staður þar sem allir fá að vera sitt besta.