Eitt sinn er Jesús var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum spurði hann þá: „Hvern segir fólkið mig vera?“ Þeir svöruðu: „Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp.“ Og Jesús sagði við þá: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Pétur svaraði: „Krist Guðs.“ Lúk 9.18-20
Stafurinn söguna sýnir, launsögnin hverju skal trúa siðferði hvað beri að gera, andleg merking hvert stefnir.
Kæri söfnuður, þetta stutta minnisvers - sem er upphaflega ort á latínu - dregur saman aðferð til að túlka Biblíuna sem var notuð á miðöldum. Hún kallaðist á frummálinu quadriga og gekk út á að leita ferns konar merkingar í einstökum textum Biblíunnar.
Fyrst var textinn lesinn af sjónarhóli sögunnar - bókstafsins: frá hverju greinir þessi texti úr Biblíunni? Um hvað fjallar hann? Hvað gerðist? Svo var kastljósinu beint að trúarsannindunum. Hvað kennir textinn okkur um trúna, um hin andlega veruleika? Þá að siðferðinu: Hvað lærum við af þessum texta um viðhorf okkar og hegðun gagnvart náunganum og sköpun Guðs? Og síðast að voninni. Hvað kennir textinn okkur um það sem koma skal? Um efsta dag. Hvers konar von miðlar hann?
Stafur. Launsögn. Siðferði. Andleg merking.
Þetta skema má heimfæra upp á morgunlestur þessa miðvikudags. Í nokkrum spurningum:
Stafurinn söguna sýnir Hver var þessi Jesús sem kallaðist Kristur?
launsögnin hverju skal trúa Hver er þessi Jesús Kristur? Hver er hann í dag? Hver er hann fyrir mér?
siðferði hvað beri að gera, Hvernig kom Jesús fram við aðra? Hvernig feta ég í fótspor hans? Hvernig vitna ég um hann með lífi mínu?
andleg merking hvert stefnir. Lifi ég í hinni kristnu von um endurkomu Krists? Með hvaða hætti mótar hún mig og líf mitt? Og þegar Kristur kemur aftur, að dæma lifendur og dauða, hvernig tek ég á móti honum?
Við skulum leyfa þessum spurningum að búa með okkur í dag og næstu daga föstunnar.
Guð gefi okkur rétta þekkingu á sögunni, líf í fullvissu trúarinnar, vilja og getu til að breyta rétt og Guð gefi okkur vonina um eilíft líf þegar þessu lífi lýkur.