Í heiminum er ég ljós heimsins

Í heiminum er ég ljós heimsins

Það er gott að geta horfst í augu við sjálfan sig, skoðað líf sitt og metið það upp á nýtt. Sumir gera slíka skoðun á trúarlegum forsendum og bera líf sitt saman við boðorðin. Enn aðrir nota 12 sporin. Útkoman er líf í kærleika og sátt við Guð og menn.

Flutt 25. október 2017 · Magnús Björn Björnsson

Prédikun flutt í útvarpsguðsþjónustu 22. október 2017 í Digraneskirkju

„Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“
Lærisveinarnir eru að velta fyrir sér þjáningu og sjúkdómum og orsökum þeirra. Það er sístæð spurning og glíma hvar sem við búum í heiminum. Er áföll henda er spurt: Hvers vegna ég? Er eitthvað að, sem veldur því að ég verð fyrir þessu? Heimsmynd fólks og trú hjálpa til við að finna svör. Á tímum Jesú skildu menn það svo, að fólk kallaði yfir sig sjúkdóma og ólán með syndum sínum og illu framferði. Álitið var að ríkidæmi, heilbrigði, niðjafjöld og gott líf væri yfirlýsing um blessun Guðs. Sjúkdómar, slys, fátækt og ólán var staðfesting þess að blessun Guðs væri fjarri. Þessa skoðun sjáum við ljóslega í sögunni um Job í Gamla testamentinu, þar sem vinir hans keppast við að fullvissa hann um, að hann sé syndugur og eigi þess vegna skilið ólán sitt. Job veit að svo er ekki og heldur fram réttlæti sínu. Blindi maðurinn fæddist sjónlaus. Hvaðan kom syndin þá? Frá foreldrum hans? Varla frá honum sjálfum því ekki gat fóstur syndgað í móðurkviði? – Jesús hafnar hvoru tveggja. Hvorki barnið né foreldrarnir hafa syndgað. Fötlunin hefur ekkert með synduga framgöngu þeirra að gera. Jesús gengur gegn ríkjandi hugmyndum samtíðar sinnar. Af lífi hans og orðum hafa kristnir menn dregið nýjar ályktanir.

Dagur heilbrigðisþjónustunnar
Kristin trú lítur ekki á sjúkdóma, ólán eða óáran sem refsingu fyrir syndir. Samt sem áður vitum við vel, að óheilbrigt líferni kallar á afleiðingar. T.d. auka langvarandi reykingar líkur á sjúkdómum síðar á æfinni. Að sama skapi eykur heilbrigt líf lífsgæði. Á sama hátt og allir aðrir glímir kristið fólk við sjúkdóma, ólán og hamfarir. Veröldin öll er undirorpin fallvaltleika, sem allir glíma við. Náttúruhamfarir eins og jarðskjálftar og eldgos eru ekki af mannavöldum. En afleiðingunum þeirra má mæta á ýmsan hátt. Svar kristinnar trúar er hvatning og kall til samábyrgðar og samhjálpar. Við erum hvött til að elska náungann eins og okkur sjálf og koma honum til hjálpar.
Fallvaltleika lífsins mæta kristnir menn í ljósi þess að sonur Guðs hefur risið upp frá dauðum. Hinn lifandi Guð kallar menn til fylgdar við sig í baráttu við sjúkdóma og eyðingaröfl þar sem þau birtast. Kallið er að sinna sjúkum, deyjandi og þurfandi hvar sem þau er að finna í kærleika Krists.
Kristin trú lítur á manninn í ljósi þess að hann er skapaður í Guðs mynd. Það gefur honum gildi og helgi, sem gerir líf hans dýrmætt. Það veldur því að sérhverja manneskju ber að virða og koma fram við af virðingu. Jesús Kristur sagði: „Allt sem þið gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér.“ Þannig samsamar hann sig manneskjunni og þjónustunni við hinn minnsta bróður og systur. Og í dæmisögunni um miskunnsama samverjann er komin fyrimynd þeirra, sem þjóna þeim sem eiga undir högg að sækja, sama hver á í hlut. Á þessu hvílir kristinn mannskilningur. Margir heilbrigðisstarfsmenn byggja þjónustu sína á þessum mannskilningi.
Þjóðkirkjan vill helga einn sunnudag í október ár hvert heilbrigðisþjónustunni. Á degi heilbrigðisþjónustunnar gefum við sértaklega gaum að heilbrigðisstarfsmönnum og því góða og gefandi starfi sem þeir vinna. Vitnisburðir sjúklinga eru lang oftast aðdáun á starfsfólki og innilegt þakklæti fyrir hjálp og umönnun. Við getum verið þakklát fyrir öflugt og gott heilbrigðiskerfi. Við biðjum þeim blessunar sem starfa við rannsóknir, lækningar, umönnun og hjúkrun. Vegna hins góða og kærleiksríka starfsfólks er tilveran miklu betri. Í hinni almennu kirkjubæn eftir prédikunina leggjum við þau fram fyrir Guð og biðjum þeim blessunar.

Sendur
Framundan eru kosningar. Áheyrendur þurfa ekki að óttast að ég ætli að fjalla um þær eða gerast pólitískur í prédikuninni. Það aflærði ég ungur prestur á Seyðisfirði. Stutt var til kosninga og ég gerði mitt besta og reyndi að fjalla um þær. Eftir messuna kom sóknarnefndarformaðurinn, sem einnig var meðhjálpari, til mín og sagði brúnaþungur en hlýr: „Þegar ég kem til kirkju vil ég ekki þurfa að hlusta á pólitík. Hún glymur alla vikuna í eyrum mínum. Hér vil ég geta hvílt mig frá þeim“ Þessi orð voru mér dýrmæt lexía.
Ég ætla aðeins að segja frá því að í vikunni fór ég og kaus utan kjörstaða. Er ég kom á kjörstað var ég beðinn um vegabréf eða ökuskírteini til að sanna með óyggjandi hætti hver ég var. Ég sýndi ökuskýrteinið og fékk að kjósa. Það var öruggt tákn um hver ég er og gaf mér leyfi til að nýta kosningarréttinn. Hefði ég ekki getað sýnt fram á hver ég var, hefði mér verið vísað frá.

Þau þrjú ár sem Jesús starfaði hér á jörð nýtti hann til að sýna fram á hver hefði sent hann og í nafni hvers hann starfaði. Hann notaði ýmsar líkingar um sjálfan sig s.s. að hann væri brauð lífsins. Til að undirstrika þá líkingu mettaði hann þúsundir með fimm brauðum og tveim fiskum.
Í guðspjalli dagisns læknar hann blindan mann. Áður en hann gerir það segir hann svo allir heyri: „Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.“ Að því loknu gerir hann leðju sem hann smyr í augu mannsins. Síðan sendir hann manninn frá sér og segir honum að þvo sér í laug sem heitir Sílóam. Maðurinn fékk sjónina. Það er tekið fram að nafn laugarinnar merki „sendur“. Þegar hann hafði þvegið sér úr lauginni „sendur“, varð hann heill. Nafn laugarinnar gefur til kynna hver opnaði augu hins blinda. Jesús, ljós heimsins, var sendur til okkar af föðurnum á himnum. Um það stóð baráttan við gyðinga. Þeir börðust af alefli gegn Jesú, því hann ögraði þeim ítrekað með verkum sínum og orðum. Þeir voru ekki tilbúnir til að viðurkenna að hann væri Kristur, sem spámennirnir höfðu sagt fyrir um að Guð myndi senda. Þrátt fyrir táknin sem hann gerði, og bentu á Krist, höfnuðu þeir honum. Jesús opnaði augu hins blinda til að undirstrika með kraftaverki, að hann væri ljós heimsins. Hann kaus að gera það, til þess að sýna hver hefði sent hann og að vald sitt hefði hann frá Guði.
Enn í dag er tekist á um hvort Jesús hafi haft gilt vegabréf. Var hann á eigin vegum eða Guðs vegum?

Ég trúi
Ef við lesum framhaldið af guðspjallinu sjáum við hvernig gyðingarnir verða stöðugt reiðari og harðari í afstöðu sinni gegn Jesú, uns þeir afneita honum algjörlega og segja hann syndara og ekki frá Guði. Ljósið dofnar meir og meir í þeirra huga. Eyru þeirra lokast einnig. Því er algjörlega á annan veg farið með blinda manninn. Hann neitar að láta undan þrýstingi í yfirheyrslum gyðinga og taka undir kröfur þeirra. Hann sér ljósið æ skærar. Fyrst segir hann mann að nafni Jesú hafi læknað sig. Því næst segir hann Jesú vera spámann. Síðan fer hann í vörn fyrir Jesú og bendir á, að Guð heyri ekki bænir syndara, heldur aðeins þeirra sem fari að Guðs vilja. Í lok kaflans hittir hann Jesú. Þá eru ekki aðeins ytri augu hans opin heldur einnig augu trúarinnar. Hann sér ljós heimsins með ytri og innri augum. Er Jesús segir honum að hann sé Mannssonurinn, fellur hann fram fyrir honum og játar: „Ég trúi.“

Margir eru ofsóttir fyrir þessa játningu í dag. Í sumum löndum eru ofsóknir á hendur kristnu fólki daglegt brauð. Samtökin Open Doors fylgjast vel með og halda til haga lista yfir þau lönd sem harðast ganga fram í ofsóknum. Íslendingar hafa skuldbundið sig til að virða mannréttindasáttmála sem kveða á um að ekki megi mismuna fólki á grundvelli trúar, kynhneigðar eða litarháttar. Mannréttindasáttmálar eru samviska þjóðanna.

Mikilvægt er að líta ekki framhjá þeirri staðreynd, að kristnir menn eru víða ofsóttur minnihluti, þegar velja á hvaða flóttamenn eiga að koma til landsins. Þjóðkirkjan vill taka vel á móti öllum sem til hennar leita. Flóttamenn og hælisleitendur fá stuðning og styrk á samverum og helgistundum. Þetta er þakklát þjónusta, en oft afar erfið þegar ekki fer eins og vonast hafði verið til og einstaklingar sem sótt hafa um hæli fá ekki landvistarleyfi.
Hin hliðin er sú að margir innflytjendur og flóttamenn eignast trú á Jesú Krist og eru skírðir. Sumir verða að greiða kostnaðinn dýru verði, ef þeir koma frá löndum þar sem trúskipti valda ofsóknum. Frá finnsku þjóðkirkjunni fáum við fréttir af því, að nokkrir þeirra sem tekið hafa kristna trú reikna ekki með að geta ferðast aftur til heimalands síns vegna þess. Trúfrelsi og tjáningarfrelsi eru mannréttindi sem okkur Íslendingum þykja sjálfsögð en eru ekki virt í sumum samfélögum. Það er því miður sorgleg staðreynd.

Barnatrú
Ég hitti stundum fólk sem segir: „Ég á mína barnatrú.“ Það er falleg trúarjátning. Það er nú svo að trú verður ekki mæld. En hún er stundum prófuð í eldi reynslunnar. Barnatrú er ein tegund trúar. Hún gerir ráð fyrir trausti og trú eins og í barnæsku, þrátt fyrir að manneskjan sé kominn á fullorðinsár. Barnatrú fer ekki í skarpar rökræður um guðfræðileg atriði. Hún hallar sér að Jesú, bróðurnum besta og góðum Guði. Hún veit að hún þarfnast hjálpar.

Ég finn að trúarþel mitt er breytilegt. Ef ég rækta trúna, les Guðs orð og bið reglulega, er ég rólegri og yfirvegaðri. Ég lít fram á við bjartsýnni, því ég treysti því að Guð muni vel fyrir sjá. Þannig er trúin jákvætt afl í lífi mínu, því ég ber traust til Guðs sem er kærleikur. Samt veit ég sem er, að ég er ekki fullkominn sem manneskja, öðru nær. Ég finn að ég þarfnast Guðs í daglegu lífi og starfi. Einnig veit ég af reynslu, að í gæsku sinni bætir hann upp það sem á vantar.

Jesús tók börnin sér í faðm og blessaði þau. Hann benti lærisveinum sínum á að aðeins með því að verða eins og börnin gætu þeir komist inn í Guðs ríki. Það dásamlega við börnin er að þau treysta foreldrum sínum og eru fús að læra af hinum eldri. Börn vita að þau þarfnast aðstoðar því þau hafa ekki lært allt enn. Þau eru ekki komin með farangur mannvirðinga og metorða, sem hindra þau í auðmýktinni. Það eru forréttindi kristins manns að vita, að hann þarf ekki að vera fullkominn frekar en lítið barn.

Við erum breiskar manneskjur sem hafa syndgað og skortir Guðs dýrð. En við eigum fyrirgefningu og hjálp Guðs vísa. Það gefur okkur einstakt tækifæri og möguleika á að rannsaka líf okkar á jákvæðan hátt og leggja mat á það. Það er gott að geta horfst í augu við sjálfan sig, skoðað líf sitt og metið það upp á nýtt. Sumir gera slíka skoðun á trúarlegum forsendum og bera líf sitt saman við boðorðin. Enn aðrir nota 12 sporin. Útkoman er líf í kærleika og sátt við Guð og menn.

Í pistlinum stóð: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ Jesús er ljósið sem skín okkur og leiðir okkur. Við leitumst við að ná fullkomnun en vitum sem er, að það verður ekki.
Gleðitíðindin eru þau að Guð faðirinn og Jesús bróðirinn, gefa okkur það sem á vantar. Fyrirgefning Guðs og náð hans uppfylla allan okkar skort. Við meigum vera eins og börn sem þiggja hjálp í auðmýkt. Það er mikill léttir að uppgötva það, að við getum alltaf komið til Guðs í bæn og beðið hann um að hjálp og að bæta upp það sem á vantar. Það gerir hann í kærleika sínum.

Jesús sagði: Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins. Við megum fylgja honum og þjóna honum fagnandi hér á jörð. Og vegna þess að við eigum góðan Guð og ennþá yndislegri bróður, Jesú Krist, megum við alltaf koma til þeirra í bæn með hvað sem liggur á hjarta okkar. Þetta eru okkar forréttindi sem börn Guðs.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.