Biðjum saman í Jesú nafni: Drottinn minn og Guð minn, þú dóst fyrir mig. Lát mig lifa fyrir þig. Í Jesú nafni. Amen.
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.
Í dag minnumst við þjáningar og dauða Drottins okkar og frelsara Jesú Krists. Á föstudeginum langa fylgjum við frelsara okkar í huga og hjarta þjáningarveginn sem liggur upp á hauskúpuhæðina þar sem krossinn bíður. Við stöndum álengdar nær og fylgjumst með þegar Kristur er píndur og sleginn, atyrtur og hæddur. Við hlustum á angistarhrópinn þegar naglarnir þrýstast inn í í gegnum hendur og fætur. Við horfum á þar sem Kristur hangir á krosinnum, blóði drifinn, örmagna og þjáður. Við lútum höfði í huga og hjarta er hann gefur upp andann og segjum í hljóði: Drottinn minn og Guð minn.
Hjá sumum vekur föstudagurinn langi aðrar hugsanir. Fyrir mörgum er föstudagurinn langi lítið annað en frídagur í besta falli. Í hugum annarra tengist hann fyrst og fremst leiðindum og aðgerðaleysi. Einn bloggari orðað þá tilfinningu svona:
„Þessi tilfinning sem er einhvernveginn svona: Enginn-heima-ekkert-gerast-allt-lokað hellist ennþá yfir mig. Í útvarpinu hljómuðu sálmar og sorgarlög á milli þess sem menn ofan úr afdölum sögðu frá háttum fyrri tíma, titrandi röddu, enda komnir miðja vegu hinum megin, örugglega búið að taka þeim gröf og svona. Það mátti ekki hoppa og hía, einkum var föstudagurinn langi endlaus martröð, upp og niður Golgata í huga barnsins. Fullorðna fólkið gekk um hvíslandi, fjárinn hafi það. Matvörubúðir lokuðu á miðvikudaginn fyrir skírdag og opnuðu á þriðjudag eftir páska, það var örugglega meitlað í steintöflur spámannanna á tímum Jesús ásamt öllum hinum boðunum og bönnunum sem troðið var upp á mann sárasaklausan. Sjoppur, lokaðar, ekki hægt að kaupa sér ópalpakka þó líf lægi við. Jafnvel sem fullorðin manneskja er ég á taugum yfir opnunartíma verslana um páskana þó mig vanti ekkert.“
Þeir sem tala svona spyrja sig hvað krossinn hafi að segja fólki í dag? Er þjáning Krists og dauði hans á krossi ekki dæmi um fullkominn ósigur. Sýnir hann ekki einmitt Guð í sínu réttu ljósi, vanmáttugan og fjarlægan? Höfum við nokkuð við slíkan Guð að gera? Er hann yfirleitt til? Er krossinn ekki enn eitt dæmið um fánýti lífsins og þá illsku og þjáningu sem virðist hlutskipti mannsins á öllum tímum.
Þannig hafa margir hugsað og hugsa enn. Í þeirra huga er krossinn hneyksli og heimska. Krossinn er ekki til marks um nálægð Guðs í neinum skilningi. Ef krossinn sýnir eitthvað þá sýnir hann í besta falli fjarlægan og vamáttugan Guð sem er ekki í nokkrum tengslum við líf okkar í dag.
En það er þvert á móti. Þegar við hugsum um krossinn og sjáum hann í réttu ljósi – í ljósi upprisunnar – þá áttum við okkur á því, eins þversagnakennt og öfugsnúið og það hljómar, að Guð hefur aldrei verið okkur nærri en einmitt á krossinum.
Árið 1873 óskaði prestur að nafni Damien eftir því að vera settur til þjónustu á Molokai eyju í Hawai. Á þessari eyju hafði verið komið á fót samfélagi fyrir holdsveikt fólk. Enginn læknir var til staðar á eyjunni né nokkur annar sem gat hlúð að eða sinnt hinu veika fólki. Enginn vildi það.
Ástæðan fyrir því að presturinn vildi láta flytja sig í eyjuna var einföld. Hann gat ekki hugsað til þess að fólk eyddi síðustu dögum lífs síns á afskekktri eyju, þjáð og afskipt, án nokkurs sem hlúði að því og lét sig það varða.
Presturinn lifði sig inn í aðstæður fólksins og gerði allt sem hann gat fyrir hið holdsveika samfélag. Hann baðaði fólkið, hreinsaði og bjó um sár þess, sat yfir því, bað fyrir því. Hann smíðaði líkkistur og tók grafir fólksins, fór fyrir helgihaldi þess og tilbeiðslu. Þegar yfir lauk fylgdi hann fólki til grafar sinnar. Hann þjónaði hinu holdsveika samfélagi í tólf ár.
Einn sunnudag breyttist allt. Damien stóð frammi fyrir hinum holdsveika söfnuði, leysti frá kyrtli sínum og sýndi fólkinu fyrstu sárin sín, fyrstu ummerki um eigin holdsveiki. Því næst hóf hann prédikun sína á þessum orðum: „Við, sem holdsveik erum“.
Þessi sanna saga minnir okkur á það sem krossinn sýnir umfram allt: Guð er einn af okkur. Hann er ekki langt í burtu. Hann er ekki fjarlægur. Hann er eins nálægur og raunverulegur og hann getur verið. Hann steig inn á vettvang sögunnar og lífs okkar. Hann steig niður úr eilífðinni inn í þetta líf. Hann gekk inn í aðstæður okkar og tók á sig þá þjáningu sem fólgin eru í lífinu. Hann veit því hvað það er að vera maður, hvað það er að þjást. Hann þekkir þig og líf þitt og þar tekur hann sér stöðu. Með þér og fyrir þig.
Átakanleg frásögn Elie Wiesels, sem lifði af dvöl í Auschwitz fangabúðunum, minnir á það sama.
Wiesel segir frá því þegar hann og samfangar hans komu frá vinnu dag nokkurn og sáu þrjá gálga standa á samkomustaðnum, þrjár svartar krákur, eins og hann kallar þá. SS-hermenn voru allt um kring og vélbyssur drundu með hefðbundinni viðhöfn. Þrjú fórnarlömb í hlekkjum voru leidd fram. Eitt þeirra, segir Wiesel, var barn, litli þjónninn, eins og hann kallar hann, sorgmæddi engillinn. Augu allra voru á barninu. Hann var fölleitur, segir Wiesel, nánast rólegur og beit í varirnar á sér. Gálgarnir vörpuðu skugga sínum á hann, Fórnarlömbin þrjú stigu saman upp á stólana og hálsarnir þrír voru settir í snörurnar á sama augnablikinu. „Lengi lifi frelsið!“ hrópuðu fullorðnu mennirnir tveir. En barnið var hljótt. „Hvar er Guð? Hvar er hann?“ spurði einhver bak við mig. Og ég heyrði röddu innra með mér sem svaraði: Hvar er hann? Hér er hann – hann hangir hér á þessum gálga.
Krossarnir eru víða. Þjáning lífsins getur verið mikil og oft ógnvænleg og óskiljanleg. Vissulega er krossinn til marks um það. Hann minnir okkur á að lífið er þjáningarvegur. Við upplifum það öll með einum eða öðrum hætti. Allir þurfa að bera sinn kross. Við eigum okkur öll stundir þar sem við spyrjum og hrópum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig“. Hvað sem trú líður kemst enginn hjá því.
En svar trúarinnar blasir við. Mitt í erfiðleikunum og þjáningunni er Guð. Við erum ekki afskipt og yfirgefin í erfiðleikum okkar, efasemdum og þjáningu. Guð er þar líka. Hann hefur alltaf verið þar. Hann er ekki fjarlægur og afskiptalaus. Hann er nálægur. Hann veit og skilur hvað það er að vera maður og hvað það er að þjást. Hann hefur reynt það sjálfur. Ef krossinn segir okkur eitthvað þá segir hann það.
Og þess vegna er krossinn fagnaðarerindi þrátt fyrir allt. Jesús er mannleg ásjóna sjálfs Guðs, skapara himins og jarðar. Í honum sjáum við Guð sem kemur til okkar, til þín og mín, og gengur inn í líf okkar til þess að leiða okkur fyrir sjónir það líf sem hann ætlar okkur. Frelsandi og nálægan Guð sem veit og skilur af eigin raun hvað það er að vera maður, hvað það er að líða og þjást. Guð sem kallar okkur með nafni. Guð sem elskar okkur og er tilbúinn til að fórna sjálfum sér fyrir þá elsku. Guð sem er einn af okkur og vill að við séum eitt í sér.
Spurningin sem krossinn ætti að vekja í huga okkar er ekki „Hvar er Guð?“ eða „Hvers vegna hefur Guð yfirgefið okkur?“ Spurningin ætti fremur að vera „Hvar er ég? Hef ég yfirgefið Guð?“ Það er íhugunarefni.
Felum okkur umfram allt Guði. Leggjum líf okkar í hans hendur. Göngum með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn og náð.
Já, dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.