Hún er ánægjuleg yfirlýsing fyrirliða allra liða í Landsbankadeild karla og kvenna í knattspyrnu. Yfirskrift yfirlýsingarinnar er ,,Fótbolti án fordóma!“ Knattspyrnumenn vilja nota athyglina í sumar og koma góðum boðskap á framfæri út í samfélagið.
Leikmenn heita því að sýna gott fordæmi í leikjum sumarsins. Það vilja þeir gera með því að koma fram af heiðarleika, níða ekki andstæðinginn og koma í veg fyrir hvers kyns fordóma og dónaskap sem rýrir álit á íþróttinni.
Leikmenn hvetja einnig stuðningsmenn og aðra áhorfendur til að fjölmenna á völlinn í sumar og taka þátt í heiðarlegum og skemmtilegum leik og sýna einnig börnum og unglingum gott fordæmi með framkomu sinni, eins og segir í yfirlýsingunni: ,,Við hvetjum þá til að sýna gott fordæmi, ekki síst börnum og unglingum, með því að styðja sitt lið með jákvæðum og uppbyggjandi hætti og taka ekki þátt í að níða leikmenn eða sýna þeim fordóma á nokkurn hátt.“
Fótbolti er ein vinsælusta íþrótt landsins og heimsins. Það er gleðilegt þegar leikmenn sýna slíkt frumkvæði eins og fyrirliðar liðanna gera með þessum hætti. Knattspyrnan getur verið spennandi og fjölskylduvæn skemmtun sem sameinar kynslóðir og skapar góðar minningar.
Boltinn brúar einnig menningarheima, þjóðir og trúarbrögð, allir geta verið með og fylgst með. Knattspyrnan er ekki bara keppnisgrein heldur einnig uppeldistæki. Unga kynslóðin fylgist með framgöngu þeirra eldri, ekki aðeins inn á vellinum heldur einnig utan hans. Þegar vel er staðið að málum gerir boltinn samfélagið betra.
Í þeim anda er síðan gaman að mæta á völlinn og hvetja sína menn.
Áfram Breiðablik!