Guðsgjafir

Guðsgjafir

Undanfarna viku hefur biskup Íslands fengið ákúrur fyrir að sitja þegjandi undir umdeildum bænum á samkirkjulegri samkomu. Hún er sökuð um að hafa með því lýst kirkjuna samþykka sumum bænanna en efni þeirra fór fyrir brjóstið á mörgum.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
05. október 2014
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Undanfarna viku hefur biskup Íslands fengið ákúrur fyrir að sitja þegjandi undir umdeildum bænum á samkirkjulegri samkomu. Hún er sökuð um að hafa með því lýst kirkjuna samþykka sumum bænanna en efni þeirra fór fyrir brjóstið á mörgum. Þegar á daginn kom, að bænirnar hneykslanlegu voru aldrei fluttar á samkomunni heldur að sögn forsvarsmanna birtar fyrir mistök á heimasíðu hennar, var biskup gagnrýndur fyrir að hafa mætt á samkomuna vitandi um listann. Þó að fram hafi komið að biskup hafi ekki heldur vitað um listann hafa menn engu að síður haldið áfram að áfellast hana fyrir að samsinna þessum bænarefnum - sem hún hafði hvorki heyrt né séð. Það er því óneitanlega að mörgu leyti vandlifað fyrir biskupinn okkar. Bænir lýsa vilja og fólk vill alls ekki alltaf það sama. Þess vegna er mikil kúnst að setja saman bænir fyrir stóran hóp fólks með allskonar skoðanir. Bænir má misnota eins og aðrar guðsgjafir. Bænamálið er hægt að nota til að vanvirða fólk og koma á það höggi. Það ekki síst við í viðkvæmum málum. Fóstureyðingar eru eitt af þessum viðkvæmu og siðferðilegu álitamálum. Hverskonar opinber umfjöllun um þær verður því að vera vönduð. Vilji einhver biðja fyrir breyttum viðhorfum til fóstureyðinga þyrfti t. d. að skýra það nánar. Hvaða viðhorfum á að breyta? Í hvaða átt eiga þau að breytast? Umfjöllun um svona viðkvæm mál má ekki vera það óskýr, að hana sé auðvelt að misskilja sem árás á fólk. Kirkjan verður að gæta sín og fara varlega þegar hún leggur nafn sitt við umfjöllun um viðkvæm mál. Þó eru viðkvæmu málin þannig að um þau þarf að fjalla. Í kirkjunni og samfélaginu hefur verið reynt þegja um það sem viðkvæmt er. Það hefur sjaldnast gefið góða raun. Ég er þeirrar skoðunar að kona sem kemst að því að hún sé þunguð eigi að hafa rétt til þess að stöðva það ferli með fóstureyðingu á fyrstu vikum meðgöngunnar. Á þeim tíma segja vísindin mér að fóstrið sé aðeins frumuklasi sem ekki geti fundið neitt. Að því leyti er samhljómur með læknavísindunum og heilögum Tómasi frá Akvínó sem var þeirrar skoðunar að fóstrið hefði ekki sál fyrr en eftir nokkurra vikna meðgöngu. Ég geri mér grein fyrir því að ekki eru allir sammála mér um þetta. Sumir vilja ganga lengra í frjálsræðisátt, aðrir skemmra. Og síðan eru til skoðanir úti á báðum jöðrunum. Fyrir skömmu komst einn helsti forvígismaður breskra trúleysingja í fréttir þegar hann fullyrti að það væri siðleysi að eyða ekki fóstrum sem greinst hefðu með Downs-heilkennið. Úti á hinum jaðrinum eru síðan þau sem eru alfarið á móti fóstureyðingum. Flestir eru þó held ég einhvers staðar þarna á milli. Ekkert bendir til annars en að þannig sé því líka háttað meðal meðlima Þjóðkirkjunnar og Þjóðkirkjan hefur til þessa ekki gert kröfur um að fólk hafi eina rétta skoðun á þessu máli. Sömu helgi og fólk á Íslandi tókst á um bænalesturinn sem aldrei átti sér stað birtist grein um fóstureyðingar í einu víðlesnasta vikuriti Þýskalands, Die Zeit. Höfundur hennar er kona sem kveðst hafa svipaðar skoðanir á fóstureyðingum og meirihluti Þjóðverja en finnst engu að síður ástæða til að taka fóstureyðingar til umræðu. Hún bendir á, að samkvæmt þýskum lögum séu fóstureyðingar leyfilegar á fyrstu 12 vikum meðgöngu en komi í ljós að fóstur sé alvarlega vanskapað eða með litningargalla heimili þýsk lög að því sé eytt jafnvel eftir 22. viku meðgöngunnar. Greinarhöfundi finnst fóstureyðing svo seint á meðgöngu mikið siðferðilegt álitamál. Spurningin er sú hvenær fóstur sé orðið að ófæddu barni og höfundur greinarinnar bendir á, að eftir 24 vikur geti fóstur lifað af utan líkama móðurinnar með hjálp lækna. Það er greinarhöfundi líka áhyggjuefni að á síðustu árum hefur þessum síðfóstureyðingum fjölgað mjög í Þýskalandi eða um heil 307,1 prósent. Nú er svo komið í Þýskalandi að 90% fóstra sem greinast með Downs-heilkennið er eytt. Í grein sem sr. Ingileif Malmberg, sjúkrahúsprestur, ritaði í Læknablaðið árið 2001 segir hún, að nær öllum fóstrum með sama heilkenni sé eytt á Íslandi en íslensk fóstureyðingalöggjöf sýnist mér ekki ósvipuð þeirri þýsku. Tölur um síðfóstureyðingar hér hef ég ekki. Ég legg áherslu á að frá þessu er ekki sagt hér til að áfellast þau sem tekið hafa ákvörðun um að eyða fóstrum með Downs-heilkenni. Hvað hefðum við gert í þeirra sporum? Þetta er sagt til að vekja okkur til umhugsunar og hvetja til umræðu. Enginn veit hver stendur næst frammi fyrir slíkri ákvörðun. Og þetta snýst heldur ekki einungis um fóstur með Downs-heilkenni. Í þýsku greininni kemur fram, að miklum fjölda fóstra með annarskonar litningagalla sé eytt, meðan annars 70% prósentum fóstra með svokallað Klinefelter-heilkenni. Þar er um að ræða litningagalla sem hefur þær afleiðingar, að viðkomandi getur ekki fjölgað sér og hjá sumum geta komið upp erfiðleikar með munnlega tjáningu. Efalítið eru framfarir í fósturgreiningu veigamesta ástæða þessarar gríðarlegu fjölgunar á þessari gerð fóstureyðinga. Höfundur þýsku greinarinnar nefnir þó tvær aðrar: Annarsvegar óttann við fatlað fólk og þau sem eru öðruvísi en fólk er flest. Sjálfur er höfundurinn með einhverfu sem er allavega ekki ennþá greinanleg í fóstrum. Hina ástæðu fjölgunarinnar segir höfundur vera þá þróun, að sífellt fleiri Þjóðverjar eignist bara eitt barn. Þá geti fólki fundist að barnið þurfi helst að vera fullkomið. Foreldrar sem standa frammi því að taka ákvörðun um fóstureyðingu vegna alvarlegs fósturgalla þurfa að takast á við erfiðar spurningar. Dauðinn er ekki alltaf versti kosturinn. Það er heldur ekki sjálfgefið að verið sé að brjóta regluna um helgi lífsins með því að koma í veg fyrir fæðingu. Hvert tilfelli er sérstakt og einstakt og hver sem ákvörðun foreldranna verður eiga þeir rétt á stuðningi samfélagsins og kirkjunnar. Hér á ekki að kveða upp siðferðilega dóma. Við erum á hinn bóginn ekki á góðri leið sem samfélag ef við forðumst umræðu um þessi mál með þeim rökum, að þau séu of viðkvæm. Og hér erum við ekki bara að fást við spurningarnar um helgi lífsins og sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Viðhorf okkar til fatlaðra, þeirra sem eru öðruvísi en þeir sem telja sig heilbrigða, blandast inn í þessa umræðu. Í Læknablaðsgreininni eftir sr. Ingileif segir: ,,Þótt kostirnir við aukna og betri tækni séu ótvíræðir, þá megum við ekki líta á það sem sjálfsagðan hlut, sjálfsögð mannréttindi að öll séum við steypt í sama mót og dæma allt annað líf sem ekki þess virði að því sé lifað.“ Í dag heyrum við sögu af konu sem hefur orðið fyrir þeirri miklu sorg að missa einkason sinn. Og ekki nóg með það. Konan er ekkja. Hún er líka búin að missa manninn sinn. Í sögunni fær hún son sinn aftur. ,,Jesús gaf hann móður hans,“ segir í guðspjallinu. Þarna er á ferðinni það sem birtist í mannsnafninu Theódór. Það þýðir ,,guðsgjöf“. Nathanael hefur sömu merkingu. Ágústínus kirkjufaðir nefndi sinn son Adeodat sem þýðir líka ,,guðsgjöf“. Í þessum nafngiftum kemur fram sú trú, að börn séu gjafir Guðs. Þannig hefur verið litið á börnin og lífið í kristinni trú. Þetta eru guðsgjafir og ekki sjálfsagðir hlutir. Hvort tveggja er heilagt. Þegar við fjöllum um siðferðileg álitmál við upphaf lífs megum við ekki gleyma þessari meginreglu kristninnar: Lífið er heilagt og allir menn eru guðsgjafir, óháð kyni, þjóðerni, stétt kynhneigð, trúarskoðunum eða atgervi, líkamlegu sem andlegu. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.