Umræðan um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi í tengslum við íslenskt tungumál hefur verið alltíð. „Íslensk tunga er lykillinn að aðlögun innflytjenda á Íslandi.“ Þessi fullyrðing hefur verið ríkjandi á meðal Íslendinga og raunar byggist stefna um innflytjendamál á þessari forsendu. Afleiðing þess er að innflytjendum sem náð hafa góðum tökum á íslenskunni og skilja hana vel þykir hafa tekist vel upp í aðlöguninni en hinum aftur á móti mistekist.
En um þessar mundir heyrum við eins og oft áður að margir innflytjendur vilja ekki læra íslensku og kjósa að búa meðal samlanda sinna fremur en að blandast íslenska þjóðfélaginu. Það er einnig staðreynd að innflytjendur sem ekki kunna íslensku hafa hingað til tekið þátt í íslensku þjóðfélagi. Það er því nauðsynlegt að endurskoða aðlögun innflytjenda og hlutverk íslenskrar tungu í henni.
„Málamiðlun“ sem hin minnsta aðlögun
Aðlögun er mjög óskýrt hugtak að mínu mati. Ef ég skilgreini aðlögun með mínum eigin orðum er hún fyrst og fremst „málamiðlun“. Þegar innflytjandi flytur hingað til lands og hann ákveður að búa á Íslandi og er sáttur við að vera, er það fyrsta skref aðlögunar. Ef innflytjandi hins vegar kvartar stöðugt yfir lífinu á Íslandi og honum líður illa, þá hefur hann ekki aðlagast þó að hann hafi búið hér í tíu ár.
„Ég bý hér þó að ekki sé allt eftir ósk minni.“ Slík málamiðlun er nauðsynleg og hún er jafnframt lægsta stig aðlögunar. Auðvitað segir málamiðlun ekki allt um aðlögun innflytjenda. Það eru hærri stig, eins og kunnátta í íslensku, virk þátttaka í samfélaginu og svo framvegis.
Báðir aðilar, innflytjendur og samfélagið, hafa sinn skilning og sínar væntingar til málamiðlunarinnar. Innflytjendur geta talið upp atriði eins og: Mér finnst í lagi að búa á Íslandi og líður mér vel! En ég þarf ekki að læra íslensku. Ég er sátt/ur að takmarka einkalíf mitt við samlanda mína. Ég vil ekki taka virkan þátt í samfélaginu.
Hins vegar geta væntingar samfélagsins til innflytjenda verið eins og: Innflytjendur eiga að læra íslensku og taka þátt í samfélaginu. Þeir eiga að virða menningu Íslendinga og hlýða siðum Íslendinga. Þetta er bara dæmi en hvort og hvenær ólíkur skilningur og væntingar eru réttmætar er annað mál.
En málið er að það gæti skilnings- og væntingarmunur. Það má benda á umræðuna um hvort innflytjendur eigi að fá túlk á kostnað hins opinbera í heilbrigðsþjónustu eða ekki sem dæmi um slíkan mun. Kjarni þeirrar umræðu varðar einmitt mun á milli væntinga Íslendinga til innflytjenda um íslenskukunnáttu og raunveruleikans hjá innflytjendum.
Er íslenskan ómissandi?
Í raun þekki ég nokkra innflytjendur sem kunna lítið í íslensku en þeim líður samt vel hér á landi og njóta lífs síns. Þeir eru í vinnu og sumir leggja mikið til íslensks samfélags, t.d. í ferðaþjónustu og tungumálakennslu í skólum. Eigum við að stimpla þá sem misheppnaða innflytjendur sjálfkrafa vegna íslenskukunnáttu þeirra?
Ég þekki einnig marga innflytjendur sem hafa flutt af landi brott, aðallega vegna þess að þeim leið illa hér og gáfust upp á Íslandi. Í flestum tilfellum tókst þeim ekki að gera málamiðlun og mistókst í aðlögun sinni. Ég er nú á þeirri skoðun að í aðlögun innflytjenda eigi líðan þeirra fyrst og fremst að vera metin. Ef innflytjendum líður vel og þeir eru sáttir við líf sitt hér þá hefur þeim tekist í aðlögun, a.m.k. á lægsta stigi, óháð því hvort þeir kunna mikið í íslensku eða lítið.
Tillaga mín er sú að við hættum að tengja íslenskuna sjálfkrafa við mat á aðlögun innflytjenda. Við skulum viðurkenna að innflytjendur geti aðlagast þó að þeir kunni lítið í íslensku. Líðan þeirra á að vera grunmælikvarðinn á aðlögun, en ekki íslenskukunnátta. Þetta þýðir þó alls ekki að við eigum að draga úr mikilvægi íslenskunnar fyrir innflytjendur. Íslenskukunnáttan skiptir okkur raunverulega máli. Einnig skiptir það miklu fyrir framtíð samfélagsins að innflytjendur skilji og tali íslensku.
Hver er kostur þess að setja líðan innflytjenda sem grunn aðlögunar þeirra en ekki íslenskuna? Ef við festumst í þeirri hugmynd að íslenska sé ómissandi í aðlögun innflytjenda, þá halda innflytjendur sem geta ekki skilið íslensku áfram að birtast sem neikvæð tilvist í augum Íslendinga. En ef við metum líðan innflytjenda á undan íslenskukunnáttu þeirra, þá forðumst við slíkan einhliða dóm og getum horft á þá sem kunna lítið í íslensku með jákvæðara viðhorfi. Ég tel að það skipti miklu hvort grunnviðhorf samfélagsins við ákveðna innflytjendur sé jákvætt eða neikvætt.
Lokaorð
Ég ætla ekki að fullyrða að tillaga mín sé eina rétta nálgunin að aðlögun innflytjenda. En ég vona að virkri umræðu verði haldið áfram um aðlögun innflytjenda í jákvæðum og skapandi tóni, og vonandi með þátttöku innflytjenda sjálfra í umræðunni!