Enn er náðartíð

Enn er náðartíð

Á þessum áramótum megum við einnig biðja. „herra lát það standa enn þetta ár“. Þurfum við ef til vill á því að halda að skoða okkar fíkjutré nú í kvöld, hvers konar ávexti ber það? Er kannski eitthvað í okkar lífi sem er ógert eða jafnvel óuppgert sem við þurfum að fá tækifæri til að hreinsa, bæta eða framkvæma. Þá er gott að minnast þessarar bænar Jesú um að enn er náðartíð.
fullname - andlitsmynd Jón D Hróbjartsson
31. desember 2013
Flokkar

Kynslóðir koma Kynslóðir fara, Allar sömu ævigöng Gleymist þó aldrei eilífa lagið við pílagrímsins gleðisöng
Matthías Jochumsson þýddi þennan fallega sálm sem við vorum að syngja en upphaflegi textinn er eftir Ingemann, eitt frægasta sálamskáld Dana. Sálmurinn hefur öðlast miklar vinsældir á Norðurlöndunum og er í hugum margra jólasálmurinn með stóru S.

Um áramót erum við sterklega minnt á þetta sem við öll þurfum að horfast í augu við, að tíminn líður, og það sem að baki er, kemur ekki aftur En þó það sé svo, þá getum við ávallt lært af því sem liðið er, lagað það sem aflaga fór og glaðst yfir því sem vel gekk og hefur dugað í aldanna rás. En sálmaskáldið minnir einmitt svo vel á það, er hann segir: Gleymist þó aldrei, eilífa lagið, við pílagrímsins gleðisöng. Hin kristna mynd af pílagrími er sú að hann hefur sett sér markmið, hann veit hvert ferðinni er heitið, hann á trú á Guð og treystir leiðsögn hans og blessun á hverju sem gengur. Gleðisöngur pílagrímsins snýst um fagnaðarerindi jólanna, snýst um gleðina yfir nálægð Guðs og blessun, sem aldrei bregst.

Lexía kvöldsins slær á sömu strengi er sálmaskáldið syngur:

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns, áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
En yfirskrift þessa sálms er : Bæn Guðsmannsins Móse. Þetta er trúarjátning sem lifað hefur í árþúsundir af því að hún er svo sönn, hún stemmir svo vel við Guðstrúna sem lifað hefur kynslóð eftir kynslóð á landinu okkar allt frá landnámi og hún stemmir við trúarreynslu milljóna og aftur milljóna manna á þessari jörð. Það má með sanni segja að Matthías Jochumsson hafi verið undir áhrifum þessa sálms þegar hann orti þjóðsönginn okkar fallega, en hann er einnig trúarjátning, sem dugað hefur þjóðinni okkar vel og við sannarlega elskum, flestir Íslendingar.

Síðustu daga hefur stór hluti heimsbyggðarinnar hlustað á jólaguðspjallið, rifjað upp Biblíusögurnar um jólaatburðinn. Ein af þeim sögum er um ungu stúlkuna, María Guðsmóðir, hún er dæmi um ungling, sem örugglega lærði bænirnar sínar frá blautu barnsbeini, Davíðssálmarnir voru grópaðir í hjarta hennar. Þetta kom best í ljós, þegar hún fór til að hitta frænku sína Elísabetu, eflaust til að fá styrk og sálgæslu eftir að hún vissi að hún átti von á barni,- guðssyni. Elísabet vissi um leið og hún sá hana, hvað hafði gerst, næmni hennar var slík, Guðs heilagi andi gaf henni þá sannfæringu og þær frænkur skiftust á bænarorðum og María hóf upp raust sína og söng lofsönginn, Magnificat, sem síðan hefur hljómað í kristninni ár eftir ár:

Önd mín lofar Drottinn og andi minn gleðst í Guði frelsara mínum.
Og svo notar hún setningar úr Davíðs sálmum, og öðrum Biblíuljóðum, kunnugleg hverju sinni, samanber versið: Miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns. Þetta bænavers, átti María innra með sér, og gaf heimsbyggðinni með sér í þessum dýrlega söng.

Þessi reynsla, trúarreynsla hefur endurtekið sig í sögu kirkjunnar, eins og dæmin sanna, fólk sem hefur lært bænirnara sínar, úr Davíðssálmum, úr sálmabókinni, passíusálmunum, úr bænakverum eða numið af vörum foreldra eða annarra ástvina. Þessi fjársjóður hefur síðan nýst í hringiðu lífsins, gefið styrk og blessun í blíðu og stríðu. Vitnisburði um þetta heyrum við oft og iðulega.

Eitt dæmi um þetta kemur oft upp í huga mér, því ég var beðinn um að vitja eldriborgara, konu sem bjó hér í austurborginni. Hún sagði mér sína sögu, en hún var frá Vestfjörðum, hafði alist þar upp, eignast fjölskyldu og mörg börn. Sum barnanna dóu ung og einhver úr sjúkdómum síðar, þannig að hún hafði misst mörg börn, sorgin hafði níst hjarta hennar aftur og aftur, en nú var hún kominn suður til Reykjavíkur, nálægt dóttur sinni og barnabörnum. En svo horfði hún á mig með tárvot augu og sagði: Prestur minn, en það get ég sagt þér, ef ég hefði ekki átt trú á Guð, hefði ég ekki komist í gegnum lífið. Fallegur trúarvitnisburður sem ég hef síðan geymt í hjarta mér.

Víngarðseigandinn í dæmisögu Jesú, sem er guðspjall þessa kvölds, leitaði að fallegum ávöxtum, skoðaði uppskeruna, sérstaklega athugaði hann fíkjutréð, sem ekki hafði borið ávöxt s.l. þrjú ár. - “Högg það upp, það er engum til gagns”, sagði hann við víngarðsmanninn, en sá andmælti og bað: Herra, lát það standa enn þetta ár. Þessa örsögu sagði Jesús um sjálfan sig, í hlutverki víngarðsmannsins. „Herra, lát það standa enn þetta ár“. Þessa bæn gjörði Jesús þá. Enn í dag er hún í fullu gildi. Á þessum áramótum megum við einnig biðja. „herra lát það standa enn þetta ár“. Þurfum við ef til vill á því að halda að skoða okkar fíkjutré nú í kvöld, hvers konar ávexti ber það? Er kannski eitthvað í okkar lífi sem er ógert eða jafnvel óuppgert sem við þurfum að fá tækifæri til að hreinsa, bæta eða framkvæma. Þá er gott að minnast þessarar bænar Jesú um að enn er náðartíð. Enn er okkur gefið tækifæri til að skoða líf okkar og taka til þar sem okkur finnst ástæða til. Hreinsa í kringum tréð okkar, þannig að það beri góða ávexti.

Áramót eru gjarnan tími uppgjörs í lífi og starfi. Fjölmiðlar komast í mikinn ham, draga saman annál ársins í máli og myndum. Fyrirtæki bæði stór og smá svo og ýmsar stofnanir þjóðfélagsins skoða ávexti starfsins. Í kvöld og á morgun heyrum við ráðamenn þjóðarinnar segja sitt álit á stöðu mála í árlegum áramótaræðum sínum. Sannarlega er nauðsynlegt að staldra við, líta um öxl, gleðjast yfir sigrunum, góðu ávöxtunum, gá að mistökunum, og þá vonandi læra af þeim, því enn er tækifæri til að gera betur.

“Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá”.
Jesús segir í Fjallræðunni í þessu samhengi: blockquote>Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.

Páll postuli er einnig með fallegan lista yfir ávexti andans, ávexti trúarinnar: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Þetta vill postulinn sjá í fari hins kristna safnaðar. Og ekki síst að við séum vakandi í bæninni, biðjum fyrir þjóðinni, biðjum fyrir fjölskyldunum í landinu, biðjum fyrir menningunni, stjórnvöldum, kirkjunni, biðjum fyrir öllum mönnum og öllu lífi í margbreytileika sínum.

“Herra, gef oss enn eitt náðarár”,
Hin kristna menning felst í því að nema hin góðu gildi trúar, vonar og kærleika, að nýjar og nýjar kynslóðir fái tækifæri á að heyra og læra, gegnsýrast af boðskapnum, Biblíusögunum, bænunum. Þetta er eitt af því sem við þurfum að huga sérstaklega vel að nú þegar við stöldrum við á tímamótum og skoðum ávextina. Heimilin, kirkjan og skólinn þurfa að taka höndum saman um að styrkja þessa menningu sem óumdeilanlega hefur gefið kynslóðunum lífskraft, gleði og frið.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni í þjóðfélaginu síðastu misserin, þegar vegið hefur verið að kirkjunni úr ýmsum áttum. Viðbrögð fjölda fólks í landinu hafa verið uppövandi. Fólk, sem eflaust hefur lært bænirnar sínar, fólk sem hefur alist upp við guðstrú og kristna menningu lét heyra frá sér, skrifaði í blöð, hringdi í útvarpsstöðvar, hringdi í prestana sína, tók til máls á foreldrafundum til að þakka fyrir arfinn, þakka fyrir allt það góða sem kristnin hefur gefið, - þrátt fyrir breyskar og ófullkomnar manneskjur sem þjónað hafa kirkjunni sinni á öllum öldum.

Þessi jákvæðu viðbrögð höfum við séð eiga sér stað hér í Hallgrímskirkju nú um jólin, kirkjusóknin hefur verið meiri en mörg undanfarin ár, á aðfangadag, jóladag og á annan í jólum hafa um 2300 manns sótt helgihaldið. Þá hefur þátttakan og jákvæðnin sýnt sig í gjöfum og samskotum sem við höfum tekið á móti í almennum messum og í líknarsjóð kirkjunnar, sem styður við bakið á þeim sem minnst mega sín. Hallgrímskirkjusöfnuður getur nú skilað um 3 milljónum til ýmissa líknarmála. Þetta litla dæmi sýnir samtakamátt og fórnfýsi kirkjugesta, sem við gleðjumst yfir þökkum af hjarta hér í kvöld. En þegar við í kvöld horfum um öxl, þá vekur það vissulega upp mjög misjafnar tilfinningar. Sumir eiga fyrst og fremst góðar minningar um liðið ár, en aðrir mjög erfiðar og þungar minningar. Þetta vekur hjá okkur bæði gleði og sorg. Hvorutveggja megum við koma með fram fyrir Guð í bæn um miskunn og náð. Styðjum hvert annað, göngum fram í trú, von og kærleika. Biðjum og vonum, að Drottinn gefi okkur a.m.k. eitt náðarár enn.

Drottinn vakir, Drottinn vakir daga´og nætur yfir þér. Blíðlynd eins og besta móðir ber hann þig í faðmi sér. Allir þótt þér aðrir bregðist, aldrei hann á burtu fer. Drottinn elskar, Drottinn vakir daga og nætur yfir þér.
Með þessum orðum óska ég söfnuðinum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.