Óttinn við upprisuna og lífið

Óttinn við upprisuna og lífið

Kristur var eitt sinn blóraböggull fyrir vanlíðan mannkyns eins og allir þolendur ofbeldis eru
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
02. október 2011
Flokkar

Samstaðan býr ekki í dauðanum, hún býr í lífinu. Það má bara ekki tala um það, að Kristur hafi risið upp og sigrað dauðann. Og síst af öllu má tala um það við börn, af því að við eigum ekki að vera að halda einhverju að börnum sem er ekki skynsamlegt og raunsætt, eigum ekki að vera að halda að ómótuðum sálum einhverjum hindurvitnum sem fá ekki staðist, þú deyrð, rotnar, búið bless. Við búum í gáfumannasamfélagi, við erum menntuð þjóð sem trúum umfram allt á gagnrýna hugsun. Sannleikurinn er handan við hornið af því að við erum orðin svo þróuð í allri hugsun, framsýnin ræður för, svo brátt verður sannleikurinn orðinn að leir í höndunum á okkur. En þá verður einhver harmleikur af því að þjáningin er lífinu samferða, harmleikur sem slær öll vopn úr höndum okkar og við sitjum eftir í örvæntingu og angist, netheimar loga af umfjöllun, skoðunum, spurningum, skýringum, sleggjudómum, samúð, hvatningu og sorg.

Og þá gerist það einu sinni sem oftar að samstaðan birtist í dauðanum og þjáningunni, sem er mikilvægt og gott og mannlegt og fallegt en vekur okkur um leið til umhugsunar hvers vegna hún birtist ekki skýrar í lífinu. „Ég er upprisan og lífið“ sagði Kristur og beindi þar með sjónum okkar að aðal atriði málsins, lífinu og mætti þess. Samt má ekki tala um upprisuna, hún er feimnismál, eins og smokkurinn var í gamla daga eða kynlíf miðaldra fólks, kirkjan á það meira að segja til að roðna, upprisa! Þetta fær ekki staðist, það rís enginn upp frá dauðum, við vitum hvað gerist þegar fólk deyr, hjartað hættir að slá, blóðið nemur staðar, líkaminn kólnar og stirðnar. Við þekkjum þetta ferli, það er marg rannsakað og þekkt, fólk deyr og það er dáið.

Og svo er þessi geðþekki vel gefni spámaður frá Nasaret að rugga bátnum með slíkri endemis vitleysu um sigur lífsins og upprisu frá dauðum, guðspjöllin væru án efa orðin að költbókmenntum unga fólksins ef þau enduðu ekki á þessari fjarstæðu. Nei samstaðan býr í erfiðleikunum og þjáningunni, upprisa og líf er fyrir þá sem eru í besta falli barnalegir og hafa ekki enn fundið til tevatnsins í þessari svellköldu veröld.

En þá skulum við líka prófa að snúa dæminu við, hvers vegna erum við alltaf að rekast á veggi og meiða okkur? Hvers vegna erum við alltaf að glíma við óuppgerð mál og tilfinningar þeim tengdum? Hvers vegna eru börnin okkar, æska Íslands og framtíð á flótta undan erfiðleikum og einsemd. Hve oft sjáum við ekki lýst eftir týndum börnum í fjölmiðlum landsins? Það er ekki við einn að sakast, ég get aðeins ímyndað mér þá angist og sorg sem foreldrar þessara barna ganga í gegnum og einsemdina sem þau lifa í öllum ósvöruðu spurningunum.

Vandinn liggur ekki hjá einum skóla eða ákveðnu samfélagi heldur í samfélagsgerð þjóðarinnar og kannski hins vestræna heims, í hroka nútímans gagnvart tilfinningum og óáþreifanlegum gildum. Og hann birtist svo víða, ekki bara gagnvart fólki heldur líka gagnvart náttúrunni og dýrunum, nú heyrum við reglulega fréttir af illri meðferð á dýrum, hvað er það? Og svo er það hrokinn gagnvart kvenfólki og börnum, og samstaðan með valdinu sem veit að það á alltaf síðasta orðið. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því veit að þetta er gömul saga og ný, hér hvílir engin fortíðarþrá, fortíðin er alltaf barn síns tíma. En hvers vegna getum við ekki höndlað hamingjuna og skapað farsælla þjóðfélag? Ekki erum við stríðshrjáð þjóð, ekki líðum við vatns eða matarskort, hér geysa ekki farsóttir né flóð eða gegndarlausir þurrkar, það er að vísu myrkur stóran hluta ársins og oft býsna kalt en við búum við rafmagn og hita svo það verður okkur ekki til tjóns. Hvers vegna er þetta ójafnvægi að hrjá okkur og af hverju erum við ekki betri gæfusmiðir? Og hvers vegna í ósköpunum hefur þetta blessaða efnahagshrun ekki kennt okkur meira?

Ég held að það sé vegna þess að við skjótum alltaf yfir markið, við nemum ekki staðar við lífslindina þar sem við getum svalað þorstanum eftir tilgangi lífsins. Hamingja manneskjunnar er fólgin í því að finna sig hafa tilgang og hlutverk í lífinu og það þarf ekki að fela í sér völd af því að völd eru hvort eð er svo afstæð, nei það sem þú þiggur í lífslindinni er ekki afstætt, það eru gildin sem veita þér hamingju og hugarró og rjúfa einangrun þína tilfinningalega og félagslega. Trúin er þessi lind, Jesús Kristur er þessi lind, hann sagði það skýrum orðum en hann væri það ekki ef hann hefði bara dáið, hann er það vegna þess að hann reis upp frá dauðum vegna þess að hann gerði lífið að samstöðusvæði og krossinn er tákn þess, krossinn er ekki tákn dauðans heldur lífsins, fyrst var hann dauðatákn en Kristur gerði hann að lífstákni.

Kristur var eitt sinn blóraböggull fyrir vanlíðan mannkyns eins og allir þolendur ofbeldis eru en hann reis upp sem sigurvegari, konungur og frelsari, þess vegna er svo mikilvægt að tala um upprisuna við börn og unglinga. Það er svo mikilvægt að tala um hlutdeild þeirra í sigri Jesú Krists og það er af því að upprisan er ekki hvað síst félagsleg og tilfinningaleg, við þurfum ekki að leggja skynsemi okkar né menntun til hliðar áður en við þiggjum hlutdeild í frelsi trúarinnar. En þá megum við heldur ekki falla í þá gryfju að skilgreina upprisuna með óskiljanlegum guðfræðilegum hugtökum, eins og friðþægingu, hjálpræði eða öðrum trúfræðiklisjum heldur með því að beina sjónum barnanna okkar að upprisugæðum. Kristur þekkti einelti betur en nokkur annar og hann stofnaði meira að segja einhver stærstu starfandi samtök sem til eru gegn einelti, þau heita kirkja og byggja á tvíþætta borðorðinu um að elska Guð sem er kærleikur og náungann eins og sjálfan sig. Hvað heldurðu að Kristur hafi verið að segja með upprisunni, hvaða afstöðu hefur hann til þín fyrst hann gekk í dauðann í gegndarlausri þjáningu og sigraði hann fyrir þig? Og ekki halda að hann hafi ekki verið hræddur, af því hann var það og þóttist ekki vera annað. Hann er að segja að þú sért mikilvægari en allt heimsins prjál, mikilvægari en öll heimsins völd, frægð, viðurkennt útlit eða kjörþyngd, hann er að segja að þú sért óendanlega dýrmætur og veröldin megi ekki við því að missa þig.

En nei við skulum ekki tala um upprisuna eða heilagan anda, við getum ekkert sannað tilvist þessa veruleika og við vitum allt best af því að við erum menn, vestræn menningarþjóð, þess vegna megum við líka fara illa með dýr og náttúru af því að við erum drottnarar og höfum höndlað sannleikann.

En þá skulum við heldur ekki tala um ástina og rómantíkina, gleðina og tilhlökkunina, af því að það eru allt óáþreifanleg gæði og ósýnileg með öllu og þess vegna líka óskynsamleg og stangast á við það sem við kunnum að stjórna.

En nú er ég farin að vera svolítið háðsk, ég skal hætta því, það er ekki fallegt en stundum nauðsynlegt. Þá óska ég þess líka að við stöldrum við sem samfélag og skoðum hvaða gildi eru börnum okkar lífsnauðsynleg svo að þau læri að þykja vænt um sig sjálf og hvert annað, svo þau læri að meta fjölbreytileikann eins og Jesús gerði þegar hann lagði sig fram um að skilja hann og þykja vænt um hann, já fjölbreytileikann í konum, útlendingum, börnum og öðru fólki sem var ýtt út á jaðarinn og er raunar enn ýtt út á jaðarinn.

Kannski væri ráð að fara að vinna saman að því að hlúa að börnunum okkar í stað þess að beita miðstýrðu valdi við að banna samvinnu skóla og kirkju, þessara tveggja stofnanna sem hafa frá öndverðu lagt sig fram um að fræða og styrkja ungmenni landsins sem best. Hvað heldur fólk að kirkjan sé að gera í samstarfi við skólana? Stunda heilaþvott og særingar. Getur verið að pólitískur rétttrúnaður stjórnkerfisins sé farin að gera heiðarleg lífsgildi tortryggileg, er það vond forvörn gegn einelti að segja börnum söguna um Miskunnsama samverjann eða týnda soninn eða kenna tvíþætta kærleiksboðorðið um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig, já eða gullnu regluna sem fjallar um sanngirni í samskiptum. Er ekki betra að kirkjan fái rými fyrir þennan boðskap í stað þess að vera bara kölluð til þegar illa fer? Kirkjan hefur engan áhuga á því að vera bara sorgarhús þó hún vilji svo gjarnan vera til staðar þegar á reynir, kirkjan vill vera lífslind þar sem fólk getur kropið eða staðnæmst og teygað gildi Krists sem hann gerði raunveruleg með upprisu sinni, þau gildi hefðu í besta falli orðið að góðri prédikun hefði hann bara dáið en urðu þess í stað að lifandi veruleika með upprisunni, jafn lifandi og þegar þú finnur ástina, gleðina, tilhlökkun og spenning, enginn penni ekki einu sinni Nóbelsverðlaunahafi getur lýst því jafn vel og hjarta þitt þegar það nemur þessar tilfinningar. Þannig er líka hægt að lifa með Kristi en þá verðum við líka að þekkja hann, eins og manneskjuna sem þú elskar og vilt deila lífi þínu með. Við verðum að fá að segja frá, „ því orð eru ekki frímerki“ eins og skáldið Jón Dan segir í eftirfarandi ljóðparti

Hægt safna ég saman orðum af mikilli varúð, hægt safna ég saman orðum af mikilli gætni, því orð eru engin frímerki sem liggja grafkyrr í bókum og ekki þurrkaðar jurtir, sem sofa vært undir fargi. Nei orð eru glaðir fuglar og sóleyjar í skógi og börn sem hjala og hundar og lævísir refir og glefsandi rándýr, kettir og blóðþyrst villidýr.

Já orð eru lifandi, þau eru falleg og þau eru ljót og þau eru vopn sem geta snúist í höndum okkar, þessa vegna er best að safna þeim einmitt hægt saman og af mikilli varúð svo við sviptum ekki náunga okkar frelsi mennskunnar. Stöndum saman um að brúka fallegu orðin og stöndum saman um að kenna börnunum okkar þau, svo að þau viti að upprisan er lifandi veruleiki og þess vegna er alltaf von, í öllum mögulegum aðstæðum, vonin er máttur upprisunnar og þann mátt megum við ekki ræna hvert öðru með því að þykjast vita allt. Af því að við vitum ekkert allt og okkar mesta gæfa er raunar að viðurkenna það.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen