Siðbótarkonur fyrr og nú: Siðbótakonurnar í fortíð og nútíð. Söfnuðurinn í breyttum heimi

Siðbótarkonur fyrr og nú: Siðbótakonurnar í fortíð og nútíð. Söfnuðurinn í breyttum heimi

Margt er í farvatninu eins og útkoma á verkum Lúthers og barna- og unglingaefni, sem hægt er að nálgast á efnisveitunni. Málþing og ráðstefnur hafa verið haldnar og fljótlega birtist tillaga að dagskrá til að halda í kirkjum landsins í kringum 31. október. Leikritið um Lúther og Katharinu verður frumsýnt í Grafarvogskirkju n.k. laugardag og verður vonandi sýnt í öllum söfnuðum landsins áður en veturinn er úti.
fullname - andlitsmynd Solveig Lára Guðmundsdóttir
25. október 2017

Undirbúningshópur þessara fræðslukvölda beindu til mín eftirfarandi spurningum: Höfðu konur eitthvert hlutverk í siðbótinni og hver er staða þeirra í söfnuðunum í dag?

Hvernig hefur kirkjan breyst frá siðbót og til dagsins í dag í takt við samfélagsbreytingar?
Er evangelisk lútherska kirkjan sveiganlegri varðandi mannréttindabaráttu en aðrar kirkjur?
Hvernig endurspeglast það í kvennabaráttu frá hlutverki kvenna í siðbót til stöðu þeirra í söfnuðunum í dag?

Í erindi mínu mun ég leitast við að svara einhverjum af þessum spurningum, þó ekki öllum, en það getum við rætt í umræðum á eftir.

Siðbót Marteins Lúthers hófst í borgunum. Hún var í upphafi smá en stækkaði fljótt. Eftir nákvæmlega 20 daga eru 500 ár frá því Marteinn Lúther hengdi tesur sínar upp á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg.
Verk Lúters Frelsi kristins manns hafði mikil áhrif á konur og karla. Boðskapurinn var sá að hægt var að lifa frjálsu lífi í anda guðpjallanna. Sannfæring Lúthers um hinn almenna prestdóm allra skírðra hvatti konur og karla til að taka þátt í guðfræðilegri umræðu.
Margt var að breytast á 16. öld, ekki aðeins í trúarlegum efnum, heldur var lífstíll fólks að breytast.

Konur unnu í iðngreinum, verslun og á sveitaheimilum, sem eiginkonur og vinnukonur. Eftir að konur gengu í hjónaband fengu þær vísa stöðu innan heimilisins og fjölskyldunnar.
Hjónaband í þá daga þýddi samfélag tveggja eiginmanns og eiginkonu, en konan var undirgefin karlinum.
Við siðbótina fengu prestar að ganga í hjónaband og við það urðu til stofnanir, sem hafa viðgengist enn þann dag í dag sums staðar sem er prestsheimilið. Þar var frá upphafi konan undirgefin og vitnað var frekar í ritningarstaði eins og Kol. 3:18-4:1 Konur, verið undirgefnar eiginmönnum ykkar eins og sómir þeim er Drottni heyra til.
19Karlar, elskið eiginkonur ykkar og verið ekki beiskir við þær.
20Börn, verið hlýðin foreldrum ykkar í öllu því að það er Drottni þóknanlegt.
Og í Ef. 5:22-6:9 Sýnið Kristi lotningu og hvert öðru auðsveipni: 22konurnar eiginmönnum sínum eins og Drottni. 23Því að maðurinn er höfuð konunnar eins og Kristur er höfuð og frelsari kirkjunnar, líkama síns. 24En eins og kirkjan lýtur Kristi, þannig lúti og konurnar eiginmönnum sínum í öllu.

Þetta var vitnað til í stað Gal. 3:27f 27Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. 28Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, [3]
Orðrétt: grískur.
þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.

Staðreyndin var sú á siðbótartímanum að nunnur flýðu klaustrin í hópum, en klaustrin höfðu boðið ógiftum stúlkum öruggt lifibrauð og möguleika á læra og jafnvel verða leiðtogar í kirkjunni í hlutverkum abbadísa. Í klaustrunum voru einnig skólar og spítalar þar sem nunnrnar störfuðu.

Nú urðu þessar menntuðu stúlkur, sem yfirgáfu klaustrin oft eiginkonur presta og gengu inn í hið nýja hlutverk prestkonunnar.
Frægastar þeirra eru Katharina frá Bora og Wibrandis Rosenblatt.
Margt hefur verið ritað og rætt um það hvort konur högnuðust eða töpuðu á siðbótinni. Marteinn Lúther leit á konuna sem húsmóður og móður, en hann barðist fyrir menntun allra, bæði kvenna og karla. Kenning hans um hinn almenna prestdóm varð hvatning fyrir konur til að skoða sjálfar boðskap trúarinnar. Eiginkona Lúthers, Katharina passar vel inn í mynd hans um konur, en hún bar mikla virðingu fyrir honum og þurfti ekki að fela sig á bak við hinn mikla mann.

Faðir Katharinu var fátækur og við hvert barn sem fæddist varð örbyrgð hans meiri. Móðir hennar lést líklega fyrir árið 1505 því það ár kvæntist faðir hennar aftur.
Faðir Katharinu treysti nunnunum í Ágústínusarnunnuklaustrinu best fyrir menntun hennar, en þangað fór hún aðeins fimm ára að aldri. Árið 1509 gekk hún í Marienthron nunnuklaustrið í Nimbschen nálægt Grimma, sem var Cisterianusarklaustur. Hún hlaut góða menntun og fór með heitin sín –eins snemma og leyfilegt var- sex árum síðar.
Boðskapur siðbótarinnar fór ekki framhjá nunnunum í klaustrinu, því nú var prentlistin komin til sögunnar og siðbótarfólkið notaði sér hana óspart og prentaði flugurit og bæklinga sem fóru víða.
Vorið 1523 flýðu 12 nunnur í yfirbyggðum vagni úr klaustrinu í Nimbchen. Þjóðsagan segir að þær hafi falið sig í tómum síldartunnum. Níu þeirra náðu til Wittenberg í gegnum Torgau, þar á meðal Katharina. Árið 1536 dó síðasta abbadísin og nunnuklaustrið var lagt niður. Þar er nú Hótel Kloster Nimbschen. Kapella í gotneskum stíl var reist þar til minningar um klaustrið og hina frægu íbúa þar.

Katharina von Bora gat ekki vænst neinnar hjálpar af stjúpmóður sinni og bræðrum. Hún fann sér skjól í Wittenberg, en ekki neinn eiginmann – strax!
Það kom því öllum á óvart að Marteinn Lúther, sjálfur forsprakki siðbótarinnar kvæntist Katharinu þann 13. júní árið 1525.

Giftingarhringuri hennar, sem var gjöf frá danska kónginum er nú í Borgarsögusafninu í Leipzig. Brúðkaupsveislan fór fram tveimur vikum síðar og er enn haldin minningarveisla um brúðkaup Martins og Katharinu. Fljótt kom í ljós hversu myndarleg húsmóðir og bústýra Katharina var og naut hún virðingar allra. Hjónin settust að í húsi því í Wittenberg sem nú er nefnt “Hús Lúthers”. Þar fæddust þeim sex börn. Katharina hét nú Katharina Luther, en hann kallaði hana ævinlega “herra Kötu”.

Árið 1540 keypti Marteinn búgarðinn Zöllsdorf nálægt Borna þar sem hún gat verið nokkrar vikur á ári. Ferðin þangað tók tvo daga með hestvagni. Þar var hún í sínu ríki og framleiddi allt sumarið mikið af grænmeti og alls kyns mat sem hún þurfti til að að halda uppi hinu stóra heimili sínu í Wittenberg og fyrir hina mörgu gesti, sem heimsóttu þau.
Þegar Marteinn Lúther lést árið 1546 var erfðaskrá hans ekki viðurkennd. Katharina var þar nefnd sem eini erfinginn, en það samræmdist ekki “Sachsenspigel”, lögbók þess tíma.
En hún naut hjálpar góðra vina. Hún flúði frá Wittenberg, en komst aftur síðar í góðar álnir. Vegna uppskerubrests neyddist hún aftur til að flýja haustið 1552. Rétt utan við Torgau lenti hún í slysi og mjaðamagrindarbrotnaði. Þremur vikum síðar lést hún í húsi í miðbæ Torgau. Í þessu húsi er núna Katharina Luther safnið sem er til minningar um hana.

Katharina von Bora er jarðsett í Maríukirkjunni í Torgau.
Wibrandis Rosenblatt var gift Jóhannesi Oecolampad í Basel í Sviss, síðar Wolfgang Capito í Strassburg og loks Martin Bucer, svo hún var gift þremur siðbótarmönnum. Hún átti í afar mikilvægum bréfaskriftum við siðbótarkonur, átti 11 börn og stóð fyrir afar gestkvæmum prestsheimilum.
Prestsheimili þessara kvenna urðu að stofnun sem hefur lifað í 500 ár, staður þar sem guðfræðilegar umræður eiga sér stað. Prestskonurnar urðu að sjá um fjárhag heimilisins, daglegar nauðþurftir, stunda gestrisni og hjálpa fólki í neyð.
Prestskonurnar unnu á heimilunum undirgefnar eiginmönnum sínum sem ólaunaður starfsmaður safnaðarins. Þessi fyrirmynd hefur verið fastur liður í menningu okkar allt fram á þessa öld.
En siðbótarkonurnar voru ekki allar prestskonur. Það voru líka sjálfstæðar siðbótarkonur eins og t.d. Katharina Zell, sem predikaði og hélt varnarræður fyrir siðbótina og skrifaði nokkrar bækur. Hún skrifaði um guðfræði og um prestsstarfið. Í bókum sínum skrifar hún um hugsanlegar djáknastöður fyrir konur. Hún kom að mikilli félagslegri hjálp í menntastofnunum, hún kom á fót fátækrahjálp, vann að boðun meðal fanga og kom upp húsi fyrir flóttafólk. –merkilegt!
Konur sem unnu að siðbótinni skrifuðu margar bæklinga og áróðursbréf sem bárust hratt meðal fólks með hinni nýju prenttækni.

Þær fundu fyrirmyndir í Biblíunni hjá konum eins og Judith, Ester og Susönnu og fengu innblástur frá ritningargreinum eins og Gal. 3:28.
Argula frá Grumbach var ein þessara kvenna. Hún var af aðalsættum frá Bæjaralandi og var fyrsta konan sem þorði að skrifa og gefa út siðbótarbækling. Hún skrifaði bréf til Háskólans í Inglostadt, sem hefur verið marg útgefið. Hún skrifaðist á við Lúther, Spalatin og fleiri siðbótarmenn. Í bréfi sínu til Háskólans í Inglostadt ræðir hún um muninn á Guðs orði og mannlegri visku og vildi að kennivald Biblíunnar væri skilgreint sem afstætt kennivald. Hún varð fyrir miklu aðkasti vegna varna sinna fyrir siðbótina. Hinn kaþólski eiginmaður hennar missti vinnuna og fjölskyldan snerist gegn henni.
Í bréfi til frænda síns Adam frá Thering sem vildi láta banna henni að koma fram opinberlega, gagnrýnir hún aðalinn sterklega. Hún boðaði fagnaðarerindið óhrædd og hélt áfram að skrifa greinar og bréf.

Ursula Weyda var líka af aðalsættum. Hún var gift hertoganum Johanni af Saxlandi (1489-1537)
Þegar hún var um tvítugt gaf hún út bækling sem hún ritar gegn ábótanum í Pegau og munkum hans. Ábótinn hafði í útgefnu riti ásakað Lúther og fylgismenn hans um að vera ábyrgir fyrir öllu því sem miður hefði farið í landinu, fyrir hruni klaustra og kirkna og hefði orsakað upplausn og óreglu. Ursula svaraði með guðfræði- siðfræðilegu riti þar sem hún skrifar um eðli Guðs orðs og kirkjunnar þar sem hún ræðir um skírlífi og hjónaband.

Rit hennar er skírt dæmi um góða þekkingu hennar á Biblíunni og hæfileika hennar og kunnáttu til að færa biblíuleg rök fyrir máli sínu. Hún var drifin áfram af spámannlegri meðvitund og af fordæmi Argulu frá Grumbach. Rit hennar komu út í nokkrum bæklingum.
Þó nokkrar konur af aðalsættum tóku þátt í siðbótinni og tóku þar með þátt í guðfræðilegum og pólitískum deilum á siðbótartímanum. Meðal þeirra voru hertogaynjan Elísabeth frá Bruanschweig-Luneburg, prinsessan af Calenberg-Göttingen, Elísabeth frá Hassia eða Rochlitz, sem var hertogaynja af Saxlandi, systir Philips hertoga frá Hassia.

Hertogaynjan Elisabeth frá Braunschweig-Luneborg snerist á sveif með siðbótinni árið 1538 og kom siðbótinni á í sínu léni. Hún var ein af afkastamestu rithöfundum úr hópi kvenna, samdi andleg ljóð og skrifaði rit um uppeldisfræði. En hún er líka þekkt fyrir að hafa ásakað hjákonu eiginmanns síns um galdra og notaði hið pólitíska vald sitt til að dæma hana til dauða.

Elisabeth frá Hassia eða Rochlitz var gift Jóhanni hertoga af Saxlandi. Sagt er að hún hafi þrýst á tengdaföður sinn, Georg af Saxlandi til að koma á fundi í Leipzig milli Marteins Luther og Jóhannesar Eck árið 1519. Árið 1537-38 kom hún siðbótinni á í sínu ríki eftir að hún var orðin ekkja. Hún varð meðlimur í Schmalcalden bandalaginu árið 1538 og gerði allt sem hún gat til að koma í veg fyrir stríð.

Olympia Fulvia Morata f. 1526 í Ferrara á Ítalíu d. 1555 í Heidelberg var ítölsk og varð næstum fyrsti kvenprófessorinn við háskólann í Heidelberg. Hún var dóttir ítalsks humanista. Frá barnsaldri hafði hún áhuga á vísindum, latínu, grísku og hinum fornu skáldum. Vinur fjölskyldunnar kveikti áhuga hennar á siðbótinni. Frá 1540 hafði hún starfað sem kennari við hirðina í Ferrara. Hertogaynjan Renata dÉste, dóttir Loðvíks 12 hafði kynnst siðbótinni í Frakklandi og hafði komið henni að í menntun barna sinna. Hertogaynjan hélt líka hlífiskildi yfir trúrlegu flóttafólki í Ferrara með Olympiu. Árið 1549 giftist Olympia þýska lækninum Andreas Grundler, yfirgaf Ítalíu og settist að í Schweinfurt.
Árið 1554 glataði hún bókasafni sínu og handritum í stríði um Schweinfurt. Þegar eiginmaður hennar var kallaður til háskólans í Heidelberg, varð Olympia lektor í forngrísku, en lést skömmu síðar úr berklum. Eftir dauða hennar komu út 50 bréf og nokkur minni rit eftir hana.

En hvað með listakonur?
Komið hefur í ljós að margar konur á siðbótartímanum hafa skrifað söngva og ljóð. Líklegt er að meira eigi eftir að koma í ljós með frekari rannsóknum. Prestsheimilið varð fljótlega tónlistarmiðstöð þar sem prestskonurnar leiddu söng bæði andlegan og veraldlegan. Sú hefð hefur lifað allt fram á okkar öld.

Hægt er að kalla Elisabeth Cruciger fyrstu konuna sem var siðbótar sálmaskáld. Sálmur eftir hana var í fyrstu sálmabók Lúthers og í fyrstu sálmabók Guðbrands Þorlákssonar á Hólum. “Herr Christ, der einig Gottes Sohn” .

Á íslensku hljómar hann svona:

Kristur, Guðs sonur sanni,
signaður Drottinn hár,
af hjarta Guðs föður fæddur
fyrir öll tímans ár,
sú morgunstjarna mæta
skal meinin heimsins bæta
og græða sérhvert sár.

Mjög líklegt er talið að Elísabeth hafi skrifað fleiri sálma, en það er þó ekki vitað með vissu.
Elisabeth var fædd Elisabeth frá Meseritz í Pomeraniu og gekk ung í klaustur. Jóhannes Bugenhagen (1485-1585) sem síðar stóð að skipulagi á evangelísk-lúthersku kirkjunni í Norður-Þýskalandi og Skandinavíu heimsótti klaustur Elísabetar sem var í Treptow í Pomerania-héraðinu í Póllandi og predikaði þar út frá kenningum Marteins Lúthers. Elísabet varð svo snortin af boðskapnum að hún ákvað að flýja úr klaustrinu. Árið 1522 var hún tekin inn í hús Jóhannesar Bugenhagen í Wittenberg. Í Wittenberg komst Elísabet í kynni við Martein Lúther og konu hans Katharinu von Bóra, en Elísabeth og Katharina urðu góðar vinkonur.

Þar kynntist hún lærisveini og aðstoðarmanni Lúthers, Caspar Cruciger, sem var guðfræðingur og rektor Háskólans í Wittenberg. Þau gengu í hjónaband árið 1524 og eignuðust tvö börn, Caspar yngri, sem síðar tók við af Melanchton einum nánasta samstarfsmanni Lúthers og Elísabethu yngri, sem giftist síðar Jóhannesi syni Marteins Lúthers og Katharinu.
Samband Caspars og Elísabethar var náið og til er áhrifamikil frásögn af brúðkaupi þeirra sem var ein af fyrstu hjónavígslum samkvæmt hinum nýja sið sem vitað er um. Haldin var fjölmenn veisla og mörgum gestum boðið. Var það gert fyrir Elísabethu því fjölskylda hennar hafði snúið við henni baki þegar hún snerist til lútherssiðar og var fyrirséð að fólkið hennar myndi ekki koma og vera við brúðkaupið. Einnig er til saga af því þegar Elísabethu dreymdi að hún væri að predika en eins og kunnugt er predikuðu konur ekki á þessum tíma.
Eiginmaður hennar Caspar réð drauðunn þannig að sálmurinn sem hún hafi ort, Herr Christ der einig Gottes Sohn, væri predikun hennar sem myndi hljóma um ókomna tíð. Elísabeth orti þennan sálm rétt eftir 1520 og var hún meðal fyrstu sálmaskálda siðbótarinnar. Lúther hreifst af sálminum og var hann birtur í fyrstu sálmabók hans sem var gefin út 1524. Sálmurinn var þýddur á mörg tungumál og birtist fyrst í þýðingu Marteins Einarssonar biskups (d. 1576) í sálmabók hans árið 1555. Sálmurinn var endurkveðinn og birtur í sálmabók Guðbrands Þorlákssonar 1589, en varð svo fyrsti sálmurinn í messusöngbók Guðbrands 1594.

Ástæðan fyrir því að hann er hafður fremstur þar er sú að hann var upphafssálmur messu á fyrsta sunnudegi í aðventu. Aðventusálmar voru hafðir fremstir í lútherskum sálmabókum af því aðventan er fyrsta tímabil kirkjuársins. Sálmurinn var í sálmabókum á Íslandi allt til ársins 1801 en var aftur tekinn inn í sálmabók 2013 í þýðingu Sigurbjörns Einarssonar, sálmur nr. 809. Elísabeth var í bréfasambandi við Jóakim frá Stettin og skiptist á guðfræðilegum hugmyndum við hann. Elísabeth lést í Wittenberg árið 1535.

Elísabeth frá Braunschweig – Luneburg var prinsessa í Calenberg-Göttingen. Hún var einn hugmyndaríkasti rithöfundur siðbótarinnar, skrifaði sálma, og bæði ljóð og prósa. Hún skrifaði handbók fyrir son sinn árið 1545 sem innihélt trúarlega og pólitíska hvatningu. Hún skrifaði hjónabandsbók fyrir dóttur sína Önnu Maríu árið 1550 og huggunarbók fyrir ekkjur árið 1556. Árin 1553 og 1555 var hún svift öllu lífsviðurværi sínu vegna innbyrðis deilna í ríkinu. Þá leitaði hún skjóls í Hannover. Hún skrifaði 15 sálma sem hún samdi við þekkt lög. Söngvar hennar tjá erfiða stöðu hennar og hún ver þátttöku sína í siðbótinni. Í þeim kemur fram hversu vel hún var heima í hugmyndum Marteins Lúthers. Sálmarnir voru ekki aðeins hugsaðir til einkanota heldur til almenningsbrúks.

Fleiri sálmaskáld eru þekkt, en aðeins af nöfnum þeirra. Þeirra á meðal eru hertogaynjan Amilie Juliane von Schwarzburg-Rudolstadt (1637-1706) og Magdalena Sibylla Rieger 1707-1786, Henriette Cathrine baronessa von Gerddorff 1648-1726/28 og Anna Ovena Hoyers 1584-1655.

En konur voru líka prentarar.
Meðal þeirra voru Kunigunde Hergott d. 1539 frá Nurnberg. Eiginmaður hennar Hans var tekinn af lífi í Leipzig fyrir að dreifa siðbótarritum. Hún var að öllum líkindum fyrsta konan til að prenta tónlistarverk. Síðar giftist hún Georg Wachter, sem var prentari og saman unnu þau að því að prenta efni fyrir siðbótina. Katharina Gerlach 1520-1592 var yfirmanneskja Berg og Neuber prenthússins, en frá þessum tíma eru til heimildir um að konur hafi starfað sem prentarar í 35 borgum í þýskumælandi hluta Evrópu. Mikið samband var á milli prentarafjölskyldnanna.

Stúlkum var ekki kennd tónlist nema í klaustrunum. Magdalena Heymair 1560-1590 var ein af fyrstu konunum til að þróa eigin kennsluefni og skrifaði fimm bækur sem innihéldu biblíusöngva, sem hún prentaði. Milli 1566 og 1578 skrifaði hún þó nokkrar bækur þar sem hún var búin að setja lög við ritningartexta úr Biblíunni. Hún lagði sérstaka áherslu á konur í Biblíunni og hlutverk þeirra í Nýja Testamentinu og þá sérstaklega í Postulasögunni.

——

En tóku íslenskar konur þátt í siðbótinni hér á landi?
Um það eru ekki miklar heimildir, og hef ég hvatt íslenska sagnfræðinga til að feta í fótspor Þjóðverja sem hafa verið að dusta rykið af siðbótarkonunum þar og draga þær fram í dagsljósið. Ef til vill eigum við eftir að finna heimildir um konur sem unnu á svipaðan hátt og hinar þýsku.
Mér hefur þótt Halldóra Guðbrandsdóttir sem var dóttir Guðbrands Þorlákssonar, biskups á Hólum bera keim af anda siðbótarinnar. Einnig Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti, dóttir Brynjólfs biskups Sveinssonar, en þessar tvær konur voru dætur fyrstu stóru biskupanna eftir siðbót.
Halldóra Guðbrandsdóttir var elsta barn Guðbrands Þorlákssonar (1541-1627) biskups á Hólum og eiginkonu hans Halldóru Árnadóttur (1547-1585). Guðbrandur var einn ötulasti siðbótarmaður Íslendinga og átti ríkan þátt í að festa lútherskan sið í sessi hér á landi. Til þess keypti hann prentsmiðju og stóð fyrir umfangsmikilli prentun á trúarlegu efni en þar ber hæst Guðbrandsbiblíuna sem kom út árið 1584. Guðbrandur stóð fyrir útgáfu á messusöngbók sem fyrst var gefin út árið 1594 og var við lýði hér á landi allt til ársins 1801.
Halldóra Árnadóttir móðir Halldóru var af íslenskum höfðingjaættum og alin upp við veraldlegt og menningarlegt ríkidæmi. Í árbókum Jóns Espólín segir að hún hafi verið “ merkileg að öllu, fríð sýnum og að því að kostum”. Biskupshjónin sem sögð voru samhent eignuðust mörg börn en urðu fyrir þeirri sorg eins og flest hjón á þessum tímum að nokkur þeirra létust í frumbernsku.

Það hefur verið mikið áfall fyrir fjölskylduna þegar húsmóðirin lést af barnsförum árið 1585, en þá var Halldóra aðeins 11 ára gömul. Guðbrandur tók fráfall konu sinnar nærri sér og giftist ekki aftur.
Búast má við að Halldóra Guðbrandsdóttir hafi snemma fundið til ábyrgðar gagnvart fjölskyldunni og þá sérstaklega þremur yngri systkinum sínum. Hún giftist aldrei og var alla tíð stoð og stytta föður síns. Allt bendir til þess að Halldóra hafi ung að árum tekið við því mikilvæga starfi að sinna húsmóðurhlutverki Hólastaðar, sem í fólst öll stjórn innanstokks. Minnir þetta mjög á hlutverk fyrstu siðbótarkvennanna í Þýskalandi. Halldóra tók nokkur börn skyldmenna sinna í fóstur á Hólum og hafði umsjón með menntun þeirra og uppeldi. Þeirra á meðal var Þorlákur Skúlason (1597-1656) systursonur Halldóru sem seinna varð biskup á Hólum þegar Guðbrandur féll frá árið 1627 og Hallgrímur Pétursson (1614-1674) sálmaskáld, en feðgarnir Pétur og Hallgrímur bjuggu á Hólum á uppvaxtarárum Hallgríms.

Í bréfabók Guðbrands er greint frá því að á launaskrá á Hólum árið 1572 voru á fimmta tug manna auk skólapilta sem oftast voru 20 talsins. Af þessu má dæma að húsmóðurhlutverk Hólastaðar var stórt í sniðum og ærin ábyrgð og vinna fyrir unga konu. Halldóra var orðlögð fyrir gjafmildi og miskunnsemi gagnvart minni máttar og eitt af hlutverkum húsfreyjunnar á Hólum var að taka á móti fátæku fólki í harðindum sem dundu yfir landið í tíð Guðbrands t.d. fyrstu árin eftir aldamótin 1600.

Á þessum tíma voru aðeins tveir skólar á Íslandi á Hólum og í Skálholti, en þar var ekki gert ráð fyrir konum á skólabekk. Fáar heimildir eru til um menntun kvenna á Íslandi því fræðslan fór að mestu fram innan veggja heimilisins þar sem engin opinber stofnun hafði yfirumsjón með náminu og erfitt að geta sér til um hvers var krafist af nemendum. Þó er vitað að meginuppistaða heimilisuppfræðslu fyrri alda var kennsla í kristindómi. Skýr stéttaskipting ríkti á Íslandi á þessum tíma og líklegt er að aðeins heldri manna dætur hafi hlotið bóklega menntun. Á Hólum voru kjöraðstæður til bóknáms og til eru heimildir um að Halldóra hafi verið vel menntuð kona og faðir hennar hafi lagt áherslu á að hún hlyti staðgóða menntun auk þess að vera í miklum samskiptum og samstarfi við föður sinn og ýmsa þá menn sem best voru upplýstir á Íslandi þess tíma. Í bréfi frá Páli Jónssyni á Staðarhóli samkvæmt Árbók Jóns Espólíns stendur ritað: “Mér er sagt að þær báðar, Halldóra og Kristín kunni að skrifa og skilja þýsku”. Gaman er að ímynda sér að Halldóra hafi komist í handrit föður sins, rekist á sálm Elísabethar Cruciger, lesið hann á frummálinu og hrifist af andagift kvensálmaskáldsins.
Halldóru er lýst sem sterkum persónuleika og það sem gerir hana sérstæða konu á þessum tíma var að hún fékk tækifæri til þess að þroska og nota ríka stjórnunarhæfileika sína. Valdsvið hennar var ekki aðeins takmarkað við hússtjórn eins og samfélagið viðurkenndi að væri í verkahring kvenna, heldur seildist hún einnig inn á vígvöll karlmanna og sýndi ráðkænsku í störfum sínum.

Þessu til staðfestingar eru viðskipti hennar við mág sinn Ara í Ögri (1571-1652) sýslumann. Hann ásældist völd og eignir á Hólum þegar Guðbrandur veiktist alvarlega vorið 1624. Halldóra beitti sér fyrir því að mágur hennar fengi ekki að ráðskast með eigur fjölskyldunnar og biskupsstólsins og skrifaði konungi bréf dagsett þann 29. ágúst árið 1625 þar sem hún fer þess á leit við hann að hún fái að stýra búi á Hólastað í forföllum föður sins og að mági hennar Ara í Ögri, verði meinaður allur aðgangur að eignum og mannaforráðum á Hólastað. Beiðni hennar var svarað ári síðar og hún fékk hlutverk sitt sem yfirmaður á Hólum staðfest með leyfisbréfi frá Holgeir Rosenkrantz höfuðsmanni og umboðsmanni konungs. Halldóra hafði því staðarforráð á Hólum síðustu æviár föður sins 1624-1627. Hinn 16. nóvember árið 1624 fauk kirkjan á Hólum í aftakaveðri og Halldóra stóð fyrir endurbyggingu kirkjunnar. Smíði nýrrar kirkju lauk árið 1627 og var sú kirkja ávallt kölluð Halldórukirkja.

En þá til nútímans:

Það var í september árið 1974. Ég var að byrja í skólanum, Menntaskólanum í Reykjavík í fimmta bekk. Þetta haust byrjaði ný stelpa í bekknum okkar.
Hún var að flytja til Íslands með foreldrum sínum, en fjölskyldan hafði búið í Strassburg í nokkur ár.
Nokkrum dögum eftir að skólinn byrjaði fengum við að heyra að það ætti að vígja mömmu hennar til prests í Dómkirkjunni í Reykjavík, fyrsta prestsvígsla konu á Íslandi. Mér fannst þetta stórkostlegt! Ég vildi alls ekki missa af þessum sögulega viðburði þó ég væri nú ekki sérlega kirkjurækin á þessum tíma. Til að gera langa sögu stutta, þá hafði þessi viðburður djúpstæð áhrif á mig.
Kona gat orðið prestur!
Það þýddi að konur gátu allt!
Þessi prestsvígsla breytti lífi mínu!
Tveimur árum seinna innrituðust ég og dóttir fyrsta kvenprestsins í guðfræðideildina.
Árin liðu og fjórum árum seinna eða haustið 1980 þegar sr. Auður Eir var enn eini kvenpresturinn á Íslandi bauð hún okkur konunum úr guðfræðideildinni heim til sín. Hún vildi kynna fyrir okkur hvað kvennaskrifstofur Lútherska Heimssambandsins og Alkirkjuráðsins væru að gera í höfuðstöðvum sínum í Genf. Hún kynnti fyrir okkur ýmislegt útgefið efni sem hún hafði fengið í Genf og spurði okkur hvort við værum til að mynda og vera með í kvennaguðfræðihóp eða áhugahóp um kvennaguðfræði eins og við kölluðum okkur.

Fyrir mér var þetta eins og draumur sem var að rætast.
Ég gat sameinað áhuga minn á guðfræði og áhuga minn á jafnréttismálum. Sr. Auður sagði okkur frá þessum sterku konum sem höfðu haft áhrif á líf hennar eins og Conney Parway og Evu Zabolai-Csekme sem voru yfir kvennaskrifstofunum í Genf.
Á þessum árum voru kvennaskrifstofurnar að senda út efni handa konum til að lesa og íhuga og þessu efni fylgdu spurningar um hver staðan væri í okkar kirkju. Sr. Auður sýndi okkur þetta efni og spurði hvort við hefðum áhuga. Margar okkar sýndu áhuga á að vera með, sumar voru í vafa, aðrar komu aldrei aftur. Næstu árin hittumst við einu sinni í mánuði. Við lásum kvennaguðfræði saman, við skrifuðum nýja helgisiði, við ferðuðumst saman og buðum til okkar fólki. En á þessum fyrstu árum fór mestur tími í að lesa efnið frá Genf, sem allt var byggt á að skoða ákveðna ritningarstaði, sérstaklega um konur og skoða hlutverk okkar í því samhengi.

Constance Parvey var amerískur guðfræðingur, sem vann fyrir Alkirkjuráðið 1978-1982 að verkefni sem bar yfirskriftina The Community of Women and Men in the Church eða Samfélag karla og kvenna í kirkjunni. Bók með sama titli kom út árið 1983. Við konurnar í áhugahópi um kvennaguðfræði þýddum spurningarnar úr bókinni og gáfum út árið 1991. Í þeirri bók var líka efni úr bókinni No longer strangers sem kom út árið 1983 og var gefin út af Lútherska Heimssambandinu og Alkirkjuráðinu.

Ýmsar nýjar tillögur að helgihaldi úr þeirri bók hafa verið notaðar í Kvennakirkjunni, sem stofnuð var árið 1993 sem vettvangur fyrir kvennaguðfræði.
Kvennakirkjan er sjálfstæð stofnun innan Þjóðkirkjunnar. Þar eru guðsþjónustur einu sinni í mánuði í hinum ýmsu kirkjum á höfuðborgarsvæðinu, en auk þess er Kvennakirkjan með námskeið og umræðuhópa. Kvennakirkjan var stofnuð af okkur í áhugahópi um kvennaguðfræði og öðrum umræðuhópi sem sr. Auður hafði myndað fyrir óvígðar konur sem áhuga höfðu á því að lesa kvennaguðfræði.
Sr. Auður Eir er siðbótarkona.
Kvennaskrifstofa LWF var stofnuð árið 1970 á fimmta Heimsþinginu sem haldið var í Evian í Frakklandi. Árið 1975 var fyrsta ráðgjafanefndin stofnuð við kvennaskrifstofuna og árið 1984 á Heimsþinginu í Budapest var kvótakerfið sett á um þáttöku 40% kvenna og 40% karla í ráðum og nefndum Heimssambandsins og aðildarkirkjum þess. Vilji Lútherska Heimssambandsins var skír. Það vildi stuðla að jafnrétti kynjanna, en “vandinn” var sá að margar kirkjurnar sögðu að þær ættu ekki nógu “hæfar konur”. Að mínu viti var þetta að sjálfsögðu afsökun hjá kirkjunum. Karlmenn vildu halda halda í völd sín og höfðu ekki hugrekki til að deila þeim með konum að svo miklu marki sem 40% er. Svo LWF ákvað: Við skulum gera þær hæfar! Let´s qualify them!

Svo Kristniboðs og þróunardeildin DMD, Skrifstofa æskulýðsmála, Youth desk og kvennaskrifstofan ákváðu að koma á fót leiðtoga vinnu fyrir ungar konur frá öllum heimshornum: The LWF International Young Women´s Leadership Program.

Þarna gafst konum á aldrinum 20 til 40 ára tækifæri til að fá þjálfun á alveg nýjan hátt.
Þau buðu 10 konum frá hverri heimsálfu, Afríku, Asíu, Suður-Ameríku og Norður-Ameríku og síðan Evrópu, alls 50 ungum konum.
Hver heimsálfa gat tilnefnt 10 konur og þær urðu að uppfylla ákveðin skilyrði.
Þetta þriggja ára prógram var byggt upp þannig að það átti að þjálfa ungar konur í leiðtogafærni bæði fyrir sínar kirkjur á heimavelli og fyrir Lútherska Heimssambandið.
Musimbi Kanyoro var þá yfir kvennaskrifstofu LWF. Hún er mjög sterkur persónuleiki, er frá Kenya og vinnur nú sem sérstakur sendiherra fyrir heilsu og mannréttindum kvenna og stúlkna. Einnig er hún framkvæmdastjóri Global Fund for Women. Hún er siðbótarkona sem hefur gefið fjölda kvenna innblástur til að nýta krafta sína til fulls. Hún hefur skrifað fjölda bóka og greina sem birst hafa í virtum tímaritum.
Musimbi var heilinn á bak við þetta einstaka verkefni, sem ég var svo lánsöm að taka þátt í. Þetta var þriggja ára prógram sem hófst með ráðstefnu í Bossey í Frakklandi í júní 1994. Ég man sérstaklega eftir fyrstu nóttinni í Bossey.

Ég var komin upp í rúm, en herbergisfélagi minn frá Nairobi var ekki enn komin á staðinn. Þegar hún kom var hún þreytt og syfjuð eftir langa ferð og í smámenningarsjokki, enda var þetta í fyrsta skipti sem hún ferðaðist utan Afríku. Hún sagði ekki mikið, við heilsuðumst og svo sagði hún: “Let us pray!” “Við skulum biðja”!

Við Margaret Obaga báðum saman og fórum að sofa. Við erum vinkonur enn þann dag í dag. Ég hef heimsótt hana í Nairobi og verið gestur á heimili hennar. Ég hef fylgst með baráttu hennar fyrir prestsvígslu kvenna í Kenya og var yfir mig hamingjusöm þegar hún fékk prestsvígslu sama sumarið og ég fékk biskupsvígslu fyrir fimm árum.
Margaret Obaga er siðbótarkona.

En hvað lærðum við?
Þó við værum konur með mjög mismunandi bakgrunn, þá skorti okkur allar leiðtogafærni. Við þurftum á hjálp að halda við að læra mismunandi leiðtoga aðferðir og við bjuggum allar til það sem kallað var Action plan eða Lífs- og starfsáætlun.
Eftir ráðstefnuna í Bossey hittist hvert svæði fyrir sig árið 1995. Við Evrópukonurnar hittumst í Berlín. Síðan var aftur alþjóðleg ráðstefna vorið 1996.
Allt þetta breytti lífi mínu á óútskýranlega hátt.

Eins og ég hef farið nú yfir þá hafa konur verið mjög ötular að vinna að siðbótinni síðustu áratugi með hjálp kvennaskrifstofanna í Genf.

Þó við höfum nú haft konur í hinni vígðu þjónustu kirkjunnar í yfir 40 ár, þá þurftum við að bíða í langan tíma eftir því að konur yrðu biskupar, en það varð að veruleika árið 2012, þegar við frú Agnes M. Sigurðardóttir vorum vígðar biskupar sama sumarið. Við komum báðar úr gamla kvennaguðfræðihópi sr. Auðar Eir og erum því báðar undir sterkum áhrifum frá kvennavettvangi Lútherska Heimssambandsins. Við reynum að siðbæta kirkjuna, en við erum ekki einráðar. Sterk íhaldsöfl innan kirkjunnar vilja ekki sjá miklar breytingar, en við reynum að hafa áhrif.
Við höfum reynt eftir fremsta megni að bregðast fljótt við vandamálum og erfiðleikum innan kirkjunnar. Við höfum báðar unnið leynt og ljóst fyrir hælisleitendur á Íslandi eins og fyrstu síðbótarkonurnar gerðu. Við höfum lagt okkar að mörkum við að kirkjan mæti þörfum nútímans. En betur má ef duga skal! Hér þurfa allir að leggjast á eitt til að efla kirkjuna og styrkja.
Eins og hjá lútherskum kirkjum um allan heim er í gangi dagskrá í tilefni af 500 ára afmæli siðbótarinnar. Margt er í farvatninu eins og útkoma á verkum Lúthers og barna- og unglingaefni, sem hægt er að nálgast á efnisveitunni. Málþing og ráðstefnur hafa verið haldnar og fljótlega birtist tillaga að dagskrá til að halda í kirkjum landsins í kringum 31. október. Leikritið um Lúther og Katharinu verður frumsýnt í Grafarvogskirkju n.k. laugardag og verður vonandi sýnt í öllum söfnuðum landsins áður en veturinn er úti.

Tónleikhús þar sem Elisabeth Cruciger og Halldóra Guðbrandsdóttir kallast á var frumsýnt í upphafi árs, endurtekið á Hólahátið og verður síðan sýnt í þriðja sinn í tengslum við siðbótardaginn í Hallgrímakirkju.
Þar er gerð tilraun til að sýna fram á hin beinu tengsl milli upphafsfólks siðbótarinnar og þess sem var að gerast hér á Íslandi í upphafi hennar hér á landi. Tónleikhúsið er eftir Guðnýju Einarsdóttur og Diljá Sigursveinsdóttur. Þær eru siðbótarkonur.
Einn áhrifamesti viðburðurinn í tengslum við siðbótarafmælið er hugmynd sem kom frá Félagi prestsvígðra kvenna. Var það þáttökugjörningur sem fór fram á Hólahátíð og mun verða endurtekinn í Hallgrímskirkju í haust. Þar gefst fólki kostur á að festa sína eigin tesu á hurð með hugmyndum sínum um hvernig bæta megi kirkjuna eða hvernig fólk upplifir Guð.
Þáttökugjörningurinn er höfundarverk listakvennanna Guðrúnar Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal. Þær eru siðbótarkonur!
Af þessu öllu má sjá að konur hafa haft áhrif á kirkjuna í meira mæli en skráð hefur verið á spjöld sögunnar. Konur halda áfram að hafa áhrif á kirkjuna og það má sjá mjög víða í þeim kirkjum þar sem konur starfa sem prestar. Verið er að vinna að nýjungum í kirkjustarfi mjög víða um landið, en ég leyfi mér að halda því fram að þar sem konur starfa sem prestar hafa þær verið óhræddari við að fara nýjar leiðir.
En umfram allt skulum við halda áfram að bæta kirkjuna því kjörorð Marteins Lúthers var semper reformanda, kirkjan verður að vera í sífelldri siðbót.
Takk fyrir!

Erindi flutt í Glerárkirkju 11. október 2017