Verum!

Verum!

Þau voru kölluð til skrásetningar, til að fá kennitölu þess tíma, svo hægt væri að leggja á þau skatta. Fátækt fólk sem kallað var til að bera byrðar samfélagsins, greiða keisaranum skatt svo hægt væri að halda uppi innviðum samfélagsins, yfirbyggingu, skrauti og skarti ...
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
24. desember 2008
Flokkar

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Lúk 2.1-14

Gleðileg jól!

Yndislegt að sjá ykkur svo mörg hér í Neskirkju við þessa helgu athöfn. Já, það er jafnan margt í Neskirkju. Um þriðjungur og allt að helmingi þess fjölda sem hér er saman kominn í dag kemur í hverja messu yfir veturinn. Við höfum margt að þakka fyrir sem hér þjónum. Við fögnum ykkur innilega!

Hvað varð til þess að þú lagðir leið þína í Neskirkju í kvöld? Hvaða hvöt býr þar að baki? Var það kannski innri rödd sem hvatti þig til að vitja Jesúbarnsins? Eða var það ef til vill engill sem birtist þér án þess að þú hafir skynjað hann sem slíkan?! Englar birtast og flytja boð.

Við erum vegbúar, sagði söngvaskáldið. Og annað skáld orti: Tilvera okkar er undarlegt ferðalag, við erum gestir og hótel okkar er jörðin. Við eigum okkur stað. Það er þakkarefni.

Okkur þykir dýrt að lifa um þessar mundir en það er nú ýmislegt innifalið í þessu jarðlífi sem ekki liggur ávallt í augum uppi sagði maður nokkur í pollýönnuleik: Lífinu á jörðu fylgir nefnilega stór vinningur, ókeypis ferðalag, sem er miklu meira og lengra en sigling um Karabískahafið eða ferð umhverfis jörðina, því jörðin sjálf ferðast með okkur umhverfis sólina á hverju ári! Sjálfur hef ég farið umhverfis sólin á hverju ári í 59 ár - ókeypis!

Lífið er undur. Að hugsa sér að við skulum lifa hér á þessari litlu jörð sem þeytist um geiminn á ógnarhraða umhverfis sólu og snýst þar að auki um sjálfa sig dag hvern. Og við erum hér, ég og þú, jarðarbúa, vegbúar, sem staldra við í Neskirkju, við jötu Jesúbarnsins á jólum eins og hirðarnir forðum.

Í fornum kínverskum texta eftir Weh-Tu-Gao frá Ping Pong keisaratímanum eru níföld fyrirmæli handa vitrum ferðalöngum sem hljóða svo:

Farið burt. Farið hægt. Farið frjáls.

Verið gagntekinn. Verið glöð. Verið vakandi.

Verið róleg. Verið varkár. Verið þar.

Já, verið þar.

Og við erum einmitt þar - sem nú heitir - hér.

Við erum komin hingað á vegferð okkar um lífsins veg, á vegi allrar veraldar, sem liggur frá fæðingu til dauða, á leiðinni til eilífs lífs. Himneskt ljós og engill Drottins hefur leitt okkur hingað eins og hirðana og vitringana forðum að jötu lausnarans í Betlehem.

Gleðileg jól! Gleðileg jól í Jesú nafni!

Á vefsíðu breska útvarpsins eru dagbókarfærslur fréttamannsins, Aleem Maqbool, sem fór ríðandi á asna frá Nasaret til Betlehem nú fyrir jólin. Leiðin er um 150 km - eins og frá Reykjavík til Búðardals eða frá borgarmörkum að Brú í Hrútafirði - og hann var strax á öðrum degi kominn með þriðja asnann til reiðar. Sá fyrsti stóð staður strax í Nasaret og vildi ekki lengra, næsti komst ekki í gegnum landamærastöð þar sem Ísraelsmenn stóðu vörð og kröfðust skilríkja. Aleem komst í gegn en asninn var ekki með réttu pappírana! Ferðin var farin um þekktar slóðir í landinu helga, sem kristið fólk þekkir í gegnum jólaguðspjallið, í landi sem er í kreppu vegna átaka andstæðra hópa og sumir asnar hafa ekki rétt vegabréf. Já, hver er asni og hver ekki í slíkum aðstæðum? Og fjórði asninn var gæfur en hæggengur og svo fékkst ekki leyfi til að kvikmynda hann í Jerúsalem. Lífið er á margan hátt undarlegt og broslegt í fáránleika sínum. Ferðalangurinn komst þó á leiðarenda á fimmta asnanum og skrifar: „Ég er í þorpinu Beit Sahour (þar sem engill Drottins birtist hirðunum skv. Lúkasi) spölkorn frá Fjárhústorginu í Betlehem“ eins og það heitir nú. (http://news.bbc.co.uk/2/hi/middle_east/7795809.stm)

Já, sagan um Jesú Krist gerðist þar sem fréttamaðurinn er nú í kvöld. Hún gerðist í tíma og rúmi enda raunatburður en ekki ævintýri sem byrja jafnan á orðunum „einu sinni var“. Nei, þessi saga gerðist á dögum Ágústusar keisara þegar Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Og fleira nafngreint fólk kemur þar við sögu (Lk 2). Kristin trú byggir á persónu Jesú Krists en ekki flóknum kenningakerfum. Kjarni hennar er elska Guðs til okkar. Og andsvar okkar er vinátta við Jesú.

Líf Maríu og Jósefs var líklega einfaldara en fólksins í Palestínu nú á dögum sem býr við kúgun og ofbeldi hins sterka ríkis Ísraels. Þau höfðu það betra en margur í dag, samt var nú ekki mulið undir þau á neinn hátt. Aðstæður þeirra voru ekki beysnar, þau áttu fátt nema sig sjálf og svo barnið sem var í vændum. Ein á ferð með asna fóru þau þessa 150 km leið til að gangast undir ok stjórnvalda. Þau voru kölluð til skrásetningar, til að fá kennitölu þess tíma, svo hægt væri að leggja á þau skatta. Fátækt fólk sem kallað var til að bera byrðar samfélagsins, greiða keisaranum skatt svo hægt væri að halda uppi innviðum samfélagsins, yfirbyggingu, skrauti og skarti.

Og spyrja má: Hvað hefur breyst á tvö þúsund árum?

Svarið er einfalt: Sárafátt, því aðstæður fólks í dag eru á svo marga lund áþekkar því sem áður var enda þótt fararskjótar séu í flestum tilfellum aðrir en forðum.

Við erum fólk á ferð sem leitast við að mæta þeim skyldum sem lífið og samfélagið krefst. Við höfum öll verið kölluð til skrásetningar eins og María og Jósef forðum, kölluð til að axla byrðar og halda áfram að lifa. Við eigum ekkert val fremur en þau. Að vísu er ekki setið um líf okkar eins og barnsins forðum sem þau flýðu með til Egyptalands undan brjáluðum valdhafa. Nei, aðstæður okkar eru miklu betri. En samt erum við sem þjóð í erfiðum sporum. En á meðan við höfum líf og heilsu, fæðu og húsaskjól, er okkur ekkert að vanbúnaði til að takast á við framtíðina því veröldin er ekki glötuð, hún nýtur velþóknunar Guðs, eins og englarnir sögðu hirðunum hin fyrstu jól. Guð elskar alla menn, alla jarðarbúa. Hér í heimi eru engin „við og þau“ heldur bara „við“. Við erum eitt mannkyn og þurfum að læra að lifa í kærleika og sátt. Jólin boða þessa elsku og sátt, milli Guðs og manna og manna á meðal. En eigum við þá bara að breiða yfir óréttinn og kyngja hverju sem er? Er trúin (religion) slævandi ópíum fyrir fólkið, eins og Karl Marx hélt fram? Nei, heilbrigð trú lætur ekki deyfa sig og blinda gagnvart neyð náungans og skorti á réttlæti. Öðru nær. Við eigum að kalla eftir réttlæti og sannleika. Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls, sagði Jesús (Jh 8.32) og hann sagði okkur líka sæl þegar okkur hungrar og þyrstir eftir réttlæti (Mt 5.6). Barnið sem fæddist í Betlehem forðum daga óx úr grasi og varð rödd sem vakti athygli fyrir óvenjulegt sjónarhorn á lífið og tilveruna, næman skilning á því sem var réttlátt og sannleikanum samkvæmt. Undanfari hans, Jóhannes skírari, var líka sterk rödd. Framkoma hans vakti mönnum í senn iðrun og yfirbót en líka hneykslun því hann var svo róttækur í háttu og hegðun allri. Jóhannes gagnrýndi valdhafa þess tíma og galt fyrir með lífi sínu. Hann mótmælti spillingu og siðleysi. Jesús gerði hið sama. Hann mótmælti ríkjandi viðhorfum og skeytingarleysi um hagi þeirra sem fóru halloka í lífinu. Hann mætti öllum og elskaði alla menn. Hann var aldrei harður í horn að taka við heiðarlegt fólk en gat verið beittur gagnvart þeim sem voru ráðandi, spilltir og hrokafullir. Og þessum manni varð að víkja úr vegi. Við þekkjum örlög hans sem var Guð á meðal manna, Guð á krossi.

En saga hans endaði ekki á krossi og þaðan af síður í kaldri gröf. Hann lifir og þess vegna munum við lifa! Líf hans er okkur uppspretta í baráttunni fyrir friði, réttlæti og sannleika. Mannkynið á sér ekki aðra og betri fyrirmynd, sannari eða fegurri.

Vegbúar. Lífið er ferðalag þar sem við mætum fólki sem er eins og við, fólki sem hefur álíka kenndir og þrár, fólki sem elskar og gleðst, saknar og syrgir. Guð blessi þig sem ert í þeim sporum nú á jólum.

Eitt sinn var þreyttur ferðalangur á ferð á dimmum og hættulegum vegi. Allt í einu birtist fyrir augum hans skínandi bjartur kastali með áletrun yfir innganginum sem fagnaði honum. Og þar sem honum fannst hann hafa fundið skjól og öryggi fylltist hann gleði.

Þegar hann nálgaðist opið hliðið blasti við honum undarleg sýn. Villuráfandi vegfarendur eigruðu um fyrir utan hliðið eins og kastalinn væri ekki þar.

Ferðalangurinn spurði hliðvörðinn um þetta undarlega háttarlag og fékk þetta svar: „Jú, sjáðu til, þetta er töfrakastali, sem þeir einir sjá sem gera sér grein fyrir því og viðurkenna að þeir hafa villst af leið. Þessi kastali getur ekki birst þeim sem halda að þeir viti hvert þeir eru að fara, þeim sem fara bara sína leið. Heiðarleiki þinn gagnvart sjálfum þér gerði það að verkum að kastalinn birtist þér. Gjörðu svo vel og gakktu inn því allt sem þar er að finna er þitt.“

Teljum við okkur vita hvert við erum að fara? Eða erum við villt? Viðurkennum að við þörfnumst leiðsagnar. Þá mun undrið birtast okkur.

Förum burt, sagði kínverski spekingurinn. Förum hægt. Förum frjáls.

Verum gagntekin. Verum glöð. Verum vakandi.

Verum róleg. Verum varkár. Verum þar.

Verum þar sem Guð er, þar sem hann veitir leiðsögn og opnar augu okkar fyrir undri lífsins. Verum í hinu rétta samhengi. Þá þurfum við aldrei að óttast því ekkert getur gert okkur viðskila við elsku Guðs sem birtist í Jesú Kristi (Rm 8.39).

Verum! Verum hjá honum sem fæddist á jólum. Verum!