Lofsöngur hjartans

Lofsöngur hjartans

Ekki láta dag líða án þess að lesa í biblíunni, hlýða á orð hennar, hugleiða orð Krists. Hugleiðið orðið bæði í einrúmi og í samfélagi við aðra. Hlustið eftir því hvaða skilning aðrir hafa á orðinu. Gott er að rökræða um orð krists og nauðsynlegt. Setja orðin í samhengi, spyrja spurninga, skilja þau.
fullname - andlitsmynd Ingólfur Hartvigsson
21. maí 2003
Flokkar

„Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki. Fræðið og áminnið hvert annað með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar.“ Kól 3.16

Látið orð Krists búa ríkulega hjá ykkur.

Ekki láta dag líða án þess að lesa í biblíunni, hlýða á orð hennar, hugleiða orð Krists. Hugleiðið orðið bæði í einrúmi og í samfélagi við aðra. Hlustið eftir því hvaða skilning aðrir hafa á orðinu. Gott er að rökræða um orð krists og nauðsynlegt. Setja orðin í samhengi, spyrja spurninga, skilja þau.

Lesið bækur sem skrifaðar hafa verið um texta biblíunnar og kynnið ykkur hvaða skilning fólk hefur haft á orðinu í gegnum aldirnar. Gott er að lesa þessar bækur ásamt því að lesa biblíuna. Gott er að vita hvað liggur að baki þeim orðum sem við lesum þar.

Leyfið ykkur að vera gagnrýnin á texta biblíunnar og lesa textana með kærleiksboðskap Krists í huga. Lærið þannig að þekkja trú ykkar og láta hana þroskast í samfélagi við annað fólk.

Fræðið og áminnið hvert annað með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum.

Lifið það sem þið trúið. Trúin kallar á samfélag þar sem fólk kemur saman og lifir sína trú í tilbeiðslu. Því að trúin lifir ekki á fræðunum einum saman. Sumu fólki er gefið að setja trú sína fram í fallegum tónverkum, sálmum og ljóðum.

Trúin væri fátæk án þeirrar listar sem hefur vaxið samhliða henni. Listin áminnir og fræðir okkur um það orð sem gaf listamanninum innblásturinn til þess að skapa. Guð hefur gefið okkur öllum mismunandi eiginleika.

Ekki er öllum gefið að syngja eða semja sálma eða falleg tónverk. En það þýðir ekki að það fólk sem ekki getur sungið eða lesið geti ekki tekið þátt í kirkjulegu starfi eða aðstoðað við guðþjónustu. Öll eigum við að geta fundið okkur stað í kirkju Krists á jörðu.

Syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar.

Lofið Guð í hjarta ykkar hvar og hvenær sem er. Opnið hjarta ykkar fyrir Kristi og búið honum þar stað. Lofið Krist ekki bara með kunnáttu hugans heldur einnig hjartans. Það þarf ekki aðeins lofsöng og andleg ljóð til þess að lofa Guð. Það er einnig nauðsynlegt að eiga stund með Kristi í einrúmi.

Leyfið textum biblíunnar að ná til hjartans hafa áhrif á tilfinningar ykkar. Finnið hvernig boðskapur biblíunnar hefur áhrif á ykkur. Það er ekki nóg að hugsa um orð Krists eða syngja fallegan sálm. Söngurinn verður að koma frá hjartanu. Hin fegursta lofgjörð hættir að vera sæt ef hjartað fylgir ekki með.

Ingólfur Hartvigsson er guðfræðingur og framkvæmdastjóri í Hallgrímskirkju. Flutt í Árdegismessu í Hallgrímskirkju þann 21. maí 2003.