-Svona, svona. Hættu nú að gráta kona. Þetta verður allt í lagi.-
-Barnið þitt sem var dáið er nú lifandi. Sérðu það ekki! Hann er lifandi! Drengurinn þinn er kominn til þín aftur. Nú verður allt eins og áður.-
-Svona, svona. Hættu nú að gráta kona. Þetta er allt í lagi núna.-
-Hann er lifandi.-
Að missa
Mér þykir líklegt að þú hafir einhvern tíma orðið fyrir því að missa. Það þarf ekki endilega að hafa verið eitthvað mikið eða merkilegt, en ég er nokkuð viss um að þú hafir misst einhvern eða eitthvað sem skipti þig máli. Kannski var það dýr, eða vinur. Mögulega hefur þú misst vinnu eða heilsuna. Kannski gerðir þú afgerandi mistök sem urðu til þess að þú misstir vini þína og jafnvel æruna. Já, eða kannski hefur þú misst maka þinn vegna andláts eða við skilnað. Kannski hefur þú misst barnið þitt eða foreldra þína.
Þetta er ekki tæmandi upptalning en ég er að reyna að sýna að missir getur verið svo margvíslegur. Við vitum öll að það er skelfilega sárt þegar einhver sem okkur þykir vænt um, deyr frá okkur. En það er líka skelfilega sárt að skilja, missa heilsuna, vinnuna, dýrið sitt eða æruna.
Ég tel að við getum ekki borið saman sársauka því hann er alltaf jafn mikill fyrir þeim sem fyrir honum verður. Þó held ég að eitt það versta sem geti komið fyrir nokkra manneskju, sé að missa barnið sitt. Þetta segi ég án þess að hafa orðið fyrir því sjálf, sem betur fer, en móðurástin segir mér þetta. Mér nægir ástin til barnanna minna til þess að geta ímyndað mér þann sársauka og skelfingu sem fylgir því að þurfa að lifa barnið sitt. Ég hef gengið leið sorgarinnar og sársaukans með foreldrum sem hafa þurft að kveðja barnið sitt eða jafnvel börnin sín. Og sú leið er sár.
Í dag heyrum við um konu sem þurfti að upplifa barnsmissi. Og ekki nóg með það, hún hafði áður misst manninn sinn og er því algjörlega ein á báti þegar sonur hennar deyr líka. Konur á þessum tíma voru ekki erfingjar, hvorki maka sinna né foreldra. Ef kona í þessum menningarheimi missti maka sinn þá bar bróður makans (ef einhver var) að giftast henni og sjá fyrir henni og börnum hennar. Þetta hljómar framandi í eyrum okkar hér uppi á Íslandi árið 2014 en svona leit öryggisnetið og félagslega kerfið út á þessum stað, á þessum tíma. Það er líklegt að konan hafi ekki verið búin að gifta sig aftur þar sem enn er talað um hana sem ekkju.
Og þegar sonur hennar deyr þá missir hún bæði barnið sitt og jafnvel sína einu von um afkomu. Hún var þegar búin að missa ákveðna stöðu í samfélaginu, sem eiginkona og nú var hún að missa aðra stöðu í samfélaginu, stöðuna sem móðir drengs. Það þótti nefnilega mun mikilvægara að eiga drengi en stúlkur þar sem þeim bar skylda til þess að sjá fyrir foreldrum sínum í ellinni og þeir voru lögerfingjar foreldra sinna (feðra) og báru því áfram nafn fjölskyldunnar og héldu eigum fjölskyldunnar (ef einhverjar voru) áfram innan sömu fjölskyldu. Þessi kona var því búin að missa allt.
Við sem vitum eitthvað um sorgina, um úrvinnslu hennar og ferli, þekkjum hversu mikilvægur gráturinn er. Það heilbrigðasta og besta sem við gerum þegar við verðum fyrir sorg er að gráta. Að leyfa tárunum að streyma. Gráturinn er losandi. Hann losar örlítið um þyngslin fyrir brjóstinu og það er eins og hann geti stráð örlítilli lækningu í opið sár sorgarinnar.
Við eigum þó misjafnlega auðvelt með að gráta. Sum okkar gráta með hljóðum og ekka, önnur leyfa tárunum bara að renna hljóðlaust niður hvarmana og enn önnur gráta aðeins inni í sér. Sumum finnst ekkert tiltökumál að fella tár fyrir framan fólk á meðan önnur okkar myndu aldrei láta nokkra manneskju sjá sig gráta.
Við erum ólík og það er allt í lagi.
Fjöldi táranna eða lengd ekkans segir ekkert um dýpt sorgarinnar. En ég held að við ættum öll að reyna að gráta þegar við verðum fyrir missi og sorg, hvort sem það er í einrúmi eða með öðru fólki.
Þegar ég mæti fólki sem hefur orðið fyrir sorg og grætur, þá segi ég því ekki að hætta að gráta. Ég segi því ekki að þetta verði allt í lagi og tíminn lækni öll sár. Það er nefnilega ekki rétt. Tíminn breytir mörgu. Með tímanum dofnar sársaukinn yfirleitt svolítið ef sorgarferlið hefur fengið að hafa sinn gang en hann hverfur ekki. Við venjumst því að lifa með honum. Hann verður hluti af lífinu.
Hættu að gráta
-Svona, svona, hættu nú að gráta kona. Þetta verður allt í lagi.-
-Grát þú eigi.-
Segir Jesús við ekkjuna sem er nýbúinn að missa barnið sitt. Þetta hljómar heldur klaufalega hjá honum. Það kemur fram í frásögunni að hann kenndi í brjóst um hana og þá hafi hann gengið hann til hennar og sagt henni að hætta að gráta. Hann hafði augljóslega ekki tekið grunnnámskeið í sálgæslufræðum.
Hann er reyndar um það bil að fara að gefa barninu hennar líf og færa allt í samt lag á ný. En hún veit ekkert um það þegar hann gengur til hennar og biður hana að hætta að gráta.
Það sem er reyndar enn stærri vandi við þennan texta en klaufaskapur Jesú, þegar hann biður móðurina að hætta að gráta, er að Jesús lífgar drenginn við. Þetta er ekkert sem Jesús gerir fyrir okkur þegar við missum. Í það minnsta ekki fyrr en eftir þetta líf. Hann mætir ekki í sorgarhús, biður okkur og hætta að gráta og reisir við hinn látna eða hina látnu.
Ekkert veit ég um það hvort þetta gerðist svona í raun og veru og mér finnst það heldur ekki skipta máli. Ástæðan er sú að ég held að boðskapur sögunnar sé ekki sá að Jesús reisi við dáið fólk.
En þótt Guð hafi hjálpað þessari móður með því að lífga son hennar við, þá varð líf hennar aldrei eins og áður. Nú hafði hún reynsluna af því að missa barn. Hún þekkti sorgina og tilfinningarnar sem fylgdu því að missa barnið sitt. Hún hafði verið í skelfingunni í stuttan tíma áður en allt varð gott á ný. Hún var breytt manneskja.
Skilaboðin um Guð
Í þessari stuttu frásögn um dauða, sorg og líf felast gríðarlega mikilvæg skilaboð til okkar um Guð.
Þau eru ekki: Guð reisir við dáið fólk.
Þau eru ekki: Guð er klaufi sem þolir ekki að sjá konur gráta.
Þau eru ekki: -Harkaðu af þér manneskja. Það hefur ekkert upp á sig að vera að væla þetta.-
Nei, ég held að ekkert af þessu séu skilaboðin til okkar um Guð.
Skilaboðin sem ég sé og heyri hér eru þessi: Guð finnur til með þér þegar þú verður fyrir áfalli og upplifir sorg og það er til líf eftir sorgina, áfallið. Lífið verður aldrei eins og áður en það er til líf. Guð vill hjálpa þér að finna þetta líf.
Guð réttir þér höndina og vill reisa þig við þegar þú ert tilbúin(n). Kannski sérðu ekki hönd Guðs þar sem þú ert svo upptekin við að reisa þig á fætur, sjálf/sjálfur. Kannski sérðu ekki höndina því þú liggur á grúfu yfirbuguð af sorg. En það er allt í lagi. Höndin er þarna fyrir þig, strýkur þér á meðan þú grætur og bíður þar til þú ert tilbúin(n) að sjá hana. Að taka í hana.
Guð er hjá þér þegar þú hefur grátið út og gefur þér líf.
Dýrð sé Guði. Amen.