„tómarÁ“

„tómarÁ“

Tómará- segir þetta orð þér eitthvað? Líklega ekki. Það er svo margt í þessari veröld sem hefur enga merkingu, en við leitum eftir að ljá meiningu eða tilgangi í stundum meiningarlausa veröld. Kappkostum að staga í göt hugmynda okkar um lífið og tilveruna þannig að við missum ekki af neinu. Þannig er því farið með svo margt í okkar daglega lífi.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
31. desember 2013
Flokkar

Tómará- segir þetta orð þér eitthvað? Líklega ekki. Það er svo margt í þessari veröld sem hefur enga merkingu, en við leitum eftir að ljá meiningu eða tilgangi í stundum meiningarlausa veröld. Kappkostum að staga í göt hugmynda okkar um lífið og tilveruna þannig að við missum ekki af neinu. Þannig er því farið með svo margt í okkar daglega lífi. Við reynum að skilja umhverfið og orðin sem falla á okkur eins og regndropar á kyrru vorköldi, falla af okkur á leið sinni í jarðveg hugmynda okkar um lífið. Lífið sem teygir úr sér eftir svefn vetursins. Við heyrum orð grípum þau í lófa og kreistum nemum þau og bindum í huga með rembihnút svo ekki losni um. Eigum erfitt með að leysa úr böndum vanans, krepptum hnefa. Kannski vegna þess að okkur langar ekki að leysa böndin sem hafa þó haldið sínu á sínum stað. Þess sem hefur verið og kyrrt skal látið liggja svo lengi sem elstu menn muna.

Áramót hefur merkingu í huga þ.e.a.s. að ár mætast eiga sér mót eina örskotsstund þegar það gamla hverfur á braut minninga á meðan það nýkomna sækir okkur heim hugsunarlaust, því það hefur ekkert fram að færa, en sjálft sig. Sest með það í fang í stól framtíðar í eldhúsinu þar sem löngum hefur verið talað saman um drauma og væntingar, það nýja hjalandi og þögult á víxl vegna þess að það hefur ekki enn neitt að segja frá, nema að hlýða á og læra af því liðna sem enn er til staðar og verður alltaf til staðar. Athugult eins og ómálga barn, við horfum á hugfangin og hugsum hvað verður úr þér? Nýja árið hjalandi með tannlausu brosi væntinga um að heimurinn, sem það sér og skynjar í andlitum okkar sem kjáum framan í það sé góður og ekkert illt verði á vegi þess. Við strengjum þess heit að svo verði áfram. Lítið barn er tákn um von og um framtíð. Áramót eru eins og smækkuð mynd af ævi mannsins þegar húmar að kveldi. Tíminn þekkir hvorki háttvísi eða nærgætni.

Öldruð manneskja ristuð rúnum þekkingar og visku alls þess sem hefur gerst er gamla árið sem kveður sátt með sitt ársverk eða ekki. Hvað er sárara en manneskja sem lítur um öxl og hrasar um minningar mistaka og mannlegs breyskleika, eftirsjá. Eða eins og rithöfundurinn Jón Kalmann segir í nýjustu bók sinni „Fiskarnir hafa ekki fætur“ „Eftirsjá er þyngsti steinninn.“

Kann að vera að árið sem er að kveðja og kemur aldrei aftur sé uppfullt af steinum þungum steinum raunveruleikans fyrir svo marga og kannski okkur öll á einhvern hátt. Eftirsjá sem við kunnum að burðast með inn í nýtt ár. Þessir steinar sem féllu úr bröttum hlíðum væntinga hugans um annað á árinu sem er að líða og eitthvað lengur, minnir okkur á hverfulleika lífsins.

Sá hverfuleiki sérstaklega um áramót er aldrei fáklæddari, svipt öllu því sem við höfum um daga ársins klætt hann í og dulist til þess eins að ná andanum og sveipa dagana merkingu í stað þess að hvílast á beði, mjúku beði fyrirgefningar eða eins og annað skáld sagði; við fæðumst í þennan heim nakin og kveðjum þennan heim nakin.

Síðustu andartök þessa árs og við lítum um öxl á allt það sem við gerðum og gerðum ekki á árinu, en væntingar stóðu til, standa uppi, sem varða uppi á heiði, ein af mörgum öðrum, vegvísir þeirra sem þar höfðu farið um aldir, reist af manneskjum sem þar fóru um og í dag engir þekkja, en samt erum við framlenging af þeim manneskjum. Knúin þeirri þörf að láta vita af sér að vera ekki gleymd, en samt má finna fyrir nærveru þagnar. Hróp aldanna, raddir, þagnaðar raddir því árin sem liðið hafa eru eins og jökull sem heldur sínu í ísköldum krumlum, lætur ekki af hendi nema ótilneydd. Hvort sem við viljum kannast við það eða ekki ætlum við að sækja þessar raddir með ófyrirsjáanlegum afleiðiningum. Í dag hvila vörðurnar í sögubókum þar sem þær veðrast ekki, né fellur úr þótt raunveruleikinn segir annað, því ekkert er eins og það virðist vera, sérstaklega ef horft er út um glugga á ferð á hraðskreiðum þjóðvegi nútímans og jöklarnir hopa um leið og þeir opinbera það sem þeir höfu undir. Það vill engin vera undir.

Nútíminn sem engu eyrir og hefur ekki tíma til að staldra við af ótta við að missa af augnablikinu, því í því augnabliki kann að vera að tækifærið feli í sér eitthvað nýtt, sem á morgun er gamalt og ónýtt. Þetta „nýja“ vill ekki kannast við þetta „Ó“ sem er ó-skaplegt. Hver vill segja á nýju ári: „Gleðilegt ó-nýtt ár!“ Þetta „ó“ er óskaplegt um leið að það er skaplegt, ef það fær að standa sem slíkt. Það þarf ekki mikið til að breyta hugsun manns um hvað er og eða gæti verið fyrirheit um. Nýtt ár ber með sér fyrirheit um eitthvað. Kann að vera að einhverjum ó-ar við einhverju eins og nýju ári. Það er okkar að hlúa að þessum fyrirheitum um þetta eitthvað. Fyrir víst vitum við, að það verður eitthvað. Á sumu höfum við auga á og fyrirætlanir um, en annað á sinn stað og sínar stundir og raunar þótt við leggjum ekki huga að eða hlustum á andardrátt þess, þá er það svo að ekkert er í hendi þrátt fyrir vilja um annað.

Óvissan reynist mörgum erfið þúfa að mæta á göngu. Hvort skal ganga fyrir hana eða yfir á meðan öðrum er slétt sama heldur fagna henni sem áskorun, þúfunni. „Oft veldur lítil þúfa þungu hlassi“ segir málshátturinn og við hugsum ekkert um merkingu þess og hvernig til er orðin. „Hugsun er til alls fyrst.“ Eða svo sagði amma mín heitin um árið þegar ég var næstum búin að sneiða tærnar af einum bróður mínum við grasslátt með ljá í bakgarði heimilis hennar og afa vestur í bæ. „Hugsa fyrst og framkvæma svo“ sagði hún og hélt áfram að hlúa að blómunum, sem hún hafði hugsað um áður en landið byggðist og við bræðurnir trúðum því, því amma var svo gömul, rúnum rist andlit, grátt hár, fléttað upp á hvirfil höfuðs og íklædd upphlut liðinna daga og fjölda ára. Vinnulúnar hendur sem hún kom með í bæinn úr plássinu úti á landi þar sem hún var uppalinn, því lífið þar var saltfiskur ekki bara eins og á hádegi laugadögum æsku minnar heldur flesta aðra daga, skipti engu hvort heldur það voru áramót eða nýár. Hún er minning sem ég á eins og allar þær manneskjur sem hafa snert við okkur með lífi sínu á einhvern hátt. Snerting án orða því orð eru sögð og ná ekki endilega að snerta heldur falla um sjálft sig, en snerting kærleikans skilur eftir sig hughrif sem við fáum að skynja og túlka eftir eigin höfði ekki skilyrt eins og orðin bundin í klafa merkingar málfræði og beygingar. Þannig eru þau – orðin, takmörkuð. Þurfa ekki endilega að segja neitt um leið og við leitum að merkingu í blæbrigði raddar. Faðmlag snertingar, kærleika stendur af sér veðrabrigði lífsins, tímamóta árs og alda sem stundum getur verið á röngunni eða öfugsnúin eins Tómará - áramót lesið afturá bak um leið og við rýnum til þokukenndrar framtíðar, því ekkert er að sjá nema gráan vegg. Yfir þann vegg og handan hans ná aðeins draumar okkar um hvað verður. Hlúum að þeim draumi. Leyfum okkur að fama hann og næra. Hlustum á þögnina, hvað hún hefur að segja í ofanflaumi orða sem segja ekki neitt annað en óttann við einsemdina og þögnina.

Megi góður Guð gefa þér og þínum gleðilegt nýtt ár með þakklæti fyrir gamlar góðar stundir á árinu sem er að líða. Amen