Hægt er að hlust á prédikunina með því að fara á þennan TENGIL.
Hún lætur ekki mikið yfir sér sagan af Mörtu og Maríu enda lítið annað er frásaga af örstuttu samtali þriggja persóna, svona eins og stuttur tölvupóstur, en sagan á sér margar hliðar til túlkunar. Henni má líkja við demant. Margar sögur af Jesú eru einmitt þannig. Þær hafa marga fleti sem kirkjan hefur slípað um aldir og kynslóðirnar hafa speglað sig í.
Hér eru tvær systur í forgrunni. Þær hafast misjafnt að. Önnur þjónar gestum en hin rýfur hefðina á róttækan hátt og sest við fætur meistarans. Það var djörf ákvörðun af hennar hálfu. Hún, konan, settist á skólabekk. Að setjast í skóla krefst þess að maður hafi næði. Ég man það vel þegar ég kom af vinnumarkaðnum og settist í háskóla tæplega þrítugur að mér fannst mjög notalegt en um leið sérkennilegt að hafa loks næði til að sinna hugðarefnum. Og svo var það annað sem ég vil nefna. Ég var ekki alveg laus við samviskubit yfir því að vera ekki vinnandi, að sitja í næði og rýna í bækur. Orðið skóli er skylt gríska orðinu skole sem þýðir næði. En nám er líka vinna, mikil vinna. Náminu lauk með prófi og ég vígðist sem prestur og held upp á 27 ára vígsluafmæli mitt í dag, 15. sd. e. trinitatis. Sama dag 5 árum fyrr vígðist ég sem djákni. Svo þetta er tvöföld hátíð hjá mér!
María rauf hefðina. Marta spurði Jesú hvort hann hefði eitthvað um þetta að segja og hann sagði Maríu hafa valið góða hlutskiptið.
Var hann þar með að gera lítið úr þjónustu Mörtu? Nei, öðrum nær því það er eins og rauður þráður í boðskap hans að þjónustan sé mikilvæg. Hann líkti sjálfum sér við þjón og taldi þjóninn mestan. Íslenska orðið embætti er skylt orðinu ambátt og vísar þar með til þjónustu. Þau sem sitja í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu eru þjónar heildarinnar og mega aldrei gleyma því.
Hrunið hefur opnað augu okkar fyrir því að ekki var allt með felldu og hafði aldrei verið, allan lýðveldistímann. Hefðir og venjur í stjórnmálum líta nú út með allt öðrum hætti í augum almennings en þær gerðu forðum. Stjórnmálaflokkarnir sem voru í margra augum frelsandi afl eru nú í augum margra eins og ófyrirleitin gengi, sem soguðu fé almennings til sín og sinna fylgjenda á kostnað heildarinnar. Hvað heitir það að taka það sem fjöldinn á og færa það fáum útvöldum? Við vitum svarið. Einhverjir molar hrutu auðvitað af veisluborðum þeirra en það voru bara afgangar og óbeinn arður í gegnum óskilgreindar leiðslur hagkerfisins. Það er og verður erfitt fyrir marga að sjá veruleikann þegar hann hefur verið afhjúpaður. Þannig var það fyrir fylgjendur harðstjóranna tveggja heimsfrægu um miðja síðustu öld. Annar var í Sovétríkjunum en hinn í Þýskalandi. Menn ætluðu ekki að trúa sínum eigin augum þegar sannleikurinn blasti við. Hér er reyndar allsendis ólíku saman að jafna - áheyrandinn athugi það - en kjarninn er sá sami og snýst um að vera blindur eða sjáandi.
Heyrum orð Jesú til samtíðar sinnar er hann talaði til forréttindastéttarinnar:
„Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér flytjið langar bænir að yfirskini og hlunnfarið ekkjur og hafið af þeim heimili þeirra. Þér munuð fá því þyngri dóm.“
Og nú spyr ég: Var einhver að hugsa að ekki mætti tala um pólitík af prédikunarstóli?
Fólk er blint á öllum öldum.
Svo opnast augu fólks og veruleikinn breytist.
Þannig varð það hjá henni Maríu. Hún rauf alda- og árþúsunda hefð með því að setjast við fætur meistarans. Hún sá heiminn í nýju ljósi. Hún tók sér stöðu lærlings, lærisveins, varð fyrsta lærimeyjan andspænis meistara sínum, svo vitnað sé í iðnnám sem er nær okkur í tíma og reynslu.
Í ágúst fór ég með fermingarbörnum í gengum fræðsluefni frá Hjálparstarfi kirkjunnar um vatnsverkefni í Úganda.
Þið munið þetta verkefni, kæru fermingarbörn, sem eruð hér við messuna.
Við sáum hvernig 4 munaðarlaus börn þurftu að verja lunganum úr hverjum degi í það verkefni að sækja vatn í fjarlægan brunn. Vatnið var ólíkt því sem við eigum að venjast. Þetta var vatn úr drullupolli fullum af sóttkveikjum og sora. En þau höfðu ekkert annað og voru því veik alla daga og máttvana. Víða í Afríku fer gríðarleg orka og tími í að sækja vatn og oftar en ekki eru það stúlkur og konur sem þræla við það. Þær eru bundnar við það verkefni og hafa því ekki næði (gr. skole) til að fara í skóla. Þær geta ekki sest við fætur kennara og lært. Kirkjan vill leysa þessar konur úr fjötrum og skapa þeim nýtt líf og nýja framtíð með því að koma upp brunnum með dælu þannig að fólkið hafi ferskt vatn. Fermingarbörnin skilja þetta og vilja leggja sitt af mörkum með því að safna fé þeim til hjálpar í nóvember. Tökum þeim vel þegar þar að kemur.
Víkjum nú aftur að Mörtu og Maríu. Jesús var ekki á móti þjónustulund Mörtu þótt hann teldi Maríu hafa valið góða hlutskiptið í þeim aðstæðum sem uppi voru á heimili þeirra systra þann dag sem atburður sögunnar átti sér stað. Það að hlusta eftir hljómi himinsins eins og María gerði er gríðarlega mikilvægt en það dugar ekki eitt og sér. Við þurfum fordæmi beggja systranna, Mörtu sem var reiðubúin til að þjóna og vinna í þágu annarra og Maríu sem var reiðubúin til að rjúfa hefðina, stíga skref til jafnréttis og hlusta á sína innri rödd og stilla hana í samhljóm við himininn.
Við stöndum nú á tímamótum sem þjóð. Í gær var Alþingi sett á ný. Fjöldi fólks var á Austurvelli til að veita alþingismönnum og ráðamönnum aðhald, veraldlegum sem kirkjulegum. Almenningur kallar eftir réttlæti. Það gengur ekki lengur að bankarnir raki saman fé meðan almenningur er að kikna undan byrðunum. Það gengur varla lengur að afskrifa skuldir fyrirtækja að ekki sé nú talað um skuldasöfnun braskaranna en láta heimilin sitja eftir á hakanum. Fyrirheit forsætisráðherra um að taka á málum heimilanna rætast vonandi sem allra fyrst. Og við sem kirkja eigum að láta okkur varða hag almennings. Trúin er dauð vanti hana verki, sagði Jakob bróðir Drottins Jesú.
Almenningur er í sporum Mörtu sem þjónar og erfiðar. Marta þarf að fá næði til að geta stillt sig inn á bylgjulengd himinsins og María þarf að snú aftur til starfa með boðskap himinsins í sál og sinni. Marta getur það ekki nema hún fái næði frá því að þræla fyrir skuldum sínum og María þarf að nýta viskuna af vörum meistara síns í þágu samferðafólksins. Hún þarf að bretta upp ermarnar. Við erum kirkjan og í kirkjunni eru bæði Mörtur og Maríur.
Við stöndum á tímamótum í trúmálum. Þjóðkirkjan á undir högg að sækja vegna erfiðra mála sem upp hafa komið í hennar ranni. Hún hefur verið svifasein og hikandi í viðbrögðum sínum og fólk hefur dvínandi trú á henni eins og öðrum stofnunum samfélagsins. Þjóðin hallast að Mörtu en gefur minna fyrir Maríu.
En hvernig fer fyrir þjóð sem hverfur inn í Mörtu-heilkennið? Eða kirkju sem missir sjónir á þjónustunni og týnist í Maríu-heilkenninu? Á annan bóginn geta einstaklingar, þjóð og kirkja gleymt sér í veraldarvafstri, mæðst í mörgu og gleymt því að tengja við himininn. Á hinn bóginn er hægt að gleyma sér í bænahjali og fara með himinskautum án þess að hafa jarðsamband og tengsl við fólk sem engist og líður undir þungum byrðum. Lífið er ekki bara messuhald með kertaljósum í skrúða, með bænum og lofsöngvum. Messan og helgihaldið er nauðsynlegt í mannlífinu en það dugar ekki eitt og sér. Það þarf líka að vinna. Trúin er dauð vanti hana verkin.
Djákni er safnaðarþjónn. Hann er því einskonar táknmynd Mörtu meðan presturinn er táknmynd Maríu. Við eigum öll að endurspegla líf þeirra beggja. Við þurfum að horfa bæði til Mörtu og Maríu. Þjóð sem tapar trúnni er illa á vegi stödd. Hún er þar með komin með Mörtu-heilkennið. Og þjóð sem gleymir sér í hinu trúarlega leysist upp í læðing, gufar upp og verður að engu því jarðsambandið vantar. Hún fær Maríu-heilkennið. Kirkjan þarf að standa með þeim sem þjást og taka af einurð á málum þeirra sem hafa orðið fyrir órétti af hálfu starfsmanna hennar. Hún þarf að þjóna eins og Marta og hlusta sem María.
Forseti Íslands hélt áhrifaríka ræðu við setningu Alþingis í gær. Hann rakti tillögur Stjórnlagaráðs um endurbætur á stjórnskipan lýðveldisins. Þingsins bíður nú það krefjandi verkefni að ræða þessar tillögur og afgreiða þær með djarfmannlegu móti. Þingið þarf nú að sýna hugrekki og auðmýkt í senn og taka höndum saman með þjóðinni til að leiða málið til farsælla lykta.
Nú þarf að hafa jarðsamband og jafnframt himintengsl. Okkur verður að takast það sem þjóð að vinna að lausnum á vandamálum okkar með friðsamlegum hætti þar sem himinn og jörð fallast í faðma, trú og daglegt líf, hið himneska og veraldlega, stíga dans í fallegum takti. Það verður okkur til gæfu og tryggir bjarta framtíð lands og þjóðar. Kirkjan þarf að spýta í lófana í orði og verki og gera sig aftur gildandi í samfélaginu. Hún gerir það ekki sem hrædd og hikandi kirkja, heldur djörf og auðmjúk í senn, í anda Mörtu og Maríu.
Marta og María voru mikilvægar systur og vinkonur Jesú og svo var Lazarus bróðir þeirra líka mikilvægur vinur. Jesús vann kraftaverk á honum og það leiddi til játningar Mörtu eins og Jóhannes greinir frá í 11. kafla guðspjalls síns (v. 25-27):
Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“ Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“
Hann er kominn í þennan heim og er hér enn í anda sínum og elsku.
Kristur er enn á ferð. Og Mörtur, þær eru enn hér og játa trú á hinn upprisna og svo eru það líka Maríurnar sem trúa og hlusta. Báðar vissu þær hver lausnarinn var.
Íslensk þjóð hefur lifað í þessu undur fagra landi í þúsund ár og nærst af undurfögrum boðskap um Mannssoninn sem kom til að vinna tiltekið verk.
Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann.
Guð hefur frelsað heiminn og hann hefur frelsað Ísland. Heimurinn og landið þurfa að öðlast trú á hið góða sem Guð hefur gert og er stöðugt að gera.
Við erum með í því verki sem kirkjufólk. Í því er gæfa okkar fólgin. Við erum í senn Marta sem þjónar og María sem hlustar. Í dag, á þessari stundu, erum við í hlutverki Maríu, sem situr við fótskör Jesú og hlýðir á orð hans. Þegar við göngum út bíður okkar fólk sem þarfnast elsku og þjónustu. Þá erum við Marta. Verum í senn Marta og María í daglegum störfum okkar og þá verður jafnvægi í lífi okkar, harmónía, shalom, jafnvægi kraftanna og gimsteinar trúarinnar fá að njóta sín öðrum til góðs, okkur til blessunar og Guði til dýrðar.
Gangi þér vel Marta! Gangi þér vel María!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.