Trúðar hafa sjaldan sést á sviðum innlendra leikhúsa þótt glettni og gamansemi hafi þar oft ráðið ferð. Vonandi verður nú breyting á með þeim trúðsverkum sem Borgarleikhúsið býður til. ,,Dauðasyndirnar” voru þar á fjölum fyrir fáeinum misserum og slógu í gegn og því endursýndar í haust. Og ,,Jesús litli” fær nú trúðslega meðferð sem vekur mikla hrifningu. Trúðar standa bæði utan við og innan veruleikans. Þeir geta því komið við viðkvæma kviku, losað um teppta farvegi og opnað sýn að þeim víddum tilverunnar sem fastmótaðar skorður og hugmyndafræði hylja. Galsi trúðsins er ásýnd og yfirborð því undir býr oft harmur og tregi, ósk um ný viðbrögð og breytt ástand. Trúðurinn er skyldur hirðfíflinu, sem leiðst með látbragði og skrípalátum að benda á vankanta á stjórnarháttum og framferði lénsherra og drottnara án þess að fyrirgera með því lífi sínu þótt yrði að kunna sín mörk. Skopmyndir góðra skopmyndateiknara eru af skyldum meiði eins og beinskeyttar teikningar Sigmunds á Mbl voru, sem mikill missir er að.
,,Dauðasyndirnar” eru frumleg og fjörleg útfærsla á hinum ,,Guðdómlega gleðileik” Dantes. Fyrir hrun vísaði boðskapur þeirra spámannlega á varasama græðgisvæðingu, hroka, siðblindu og skammsýni, og hann afhjúpar eftir það misbrestina sem horft var framhjá. Erlendur leikstjóri stendur að baki ,,Dauðasyndunum” en Benedikt Erlingsson stýrir ,,Jesú litla.” Honum tekst með trúðunum, Úlfari (Bergi Þór Ingólfssyni) Barböru (Halldóru Geirharðsdóttur ) og Bellu (söngkonunni Kristjönu Stefánsdóttur), sem er ný í faginu, að skapa hrífandi trúðsleik. Leikurinn fjallar um heillandi en viðkvæmt efni, jólin, undur og leyndardóm fæðingar Guðs á jörðu í jötubarninu í Betlehem. Trúðarnir gera það með sínu lagi og fylgja frásögninni furðu vel í báðum guðspjöllum jóla með galsafengnum og glettnum brag en jafnframt áleitnum. Þeir setja söguna sígildu inn í samhengi síns tíma og jafnframt veruleika samtímans á nýbyrjaðri öld svo að skarpir fletir þess og skerandi, sem oft er litið framhjá í upphafinni glansmyndarboðun, verða áberandi og knýjandi til afstöðu og viðbragða. Sviðsmyndin bendir glöggt inn í samtímann. Hún sýnir nútíma fæðingarstofu og ljósalampa, sjúkraborð, tæki og tól og trúðarnir eru ýmist í hvítum eða grænum sloppum. Yfir öllu hringlaga sviðinu hangir dúkur líkt og öfug regnhlíf og minnir á himin og annan heim. Trúðarnir bregða sér í margs konar gervi og skipta líka um hlutverk sín á milli. Og fyrir kemur að þeir taki af sér trúðsnefin og leikendur hverfi þá úr hlutverkunum og segi frá eigin reynslu af trú og jólum. Sýningin er mjög lifandi því að samskipti við áheyrendur eru hluti leiksins. Talað er til þeirra í og milli atriða og tekið mið af viðbrögðum þeirra. Sýningarnar eru því gjörningar eins og í fjölleikahúsi þótt söguþráður og meginatriði haldist. Varasamt er að lýsa framvindu trúðleiksins/ trúðboðsins náið til að taka ekki hið óvænta frá þeim sem enn hafa ekki séð ,,Jesú litla” en samt er réttlætanlegt að benda á einstök eftirtektarverð atriði og úrlausnir sem vísa marktækt inn í nútíðina og hægt er að vísa til í prédikun og boðun nú á jólum, þótt ekki gefist fyrr en síðar færi á að sækja sýninguna.
Í formálssenum ræða trúðar um jólamat af ýmsu tagi, telja upp bæi á Suðurnesjum og ýmsar fisktegundir. Sígild trúartónlist hljómar og þeir setja sig í hátíðlegar stellingar/ skopstælingar sem minna á þekktar höggmyndir og listverk í trúar- og menningarsögunni. ,,Þetta er leiksýning um það, þegar ljósið kom í heiminn.” Með þessum trúðsorðum er komið inn á efni leiksins. ,,Mannkyn fær nýtt tækifæri þegar barn fæðist, sem tengt er ljósinu að ofan. Það lýsir í hreinu hjarta. Ég sé ljósið í ykkur.” ,, Grátur nýfædds barns er guðdómlegur söngur í eyrum foreldranna.” Mikilfengleg upphafsstef ,,Hamraborgarinnar”er sungið. Gabríel erkiengill (Bella) sem kominn er á sviðið ,,sem sáðmaður og sæðismaður Drottins”, svífur upp í himininn í rólu og syngur: ,,Heyr mína bæn.” Áhorfendur eru minntir á, að sagan af Jesú er ekki einföld heldur tvöföld. Mismunandi atburðir eru tilgreindir í Lúkasar- og Matteusarguðspjalli en bæði Guðspöllin fjalla þó um meyfæðingu. Og hvað er nú það? Jú, að verða ólétt án aðdraganda. Þessi staðhæfing gefur tilefni til að ræða sköpunarundur út frá nútímaþekkingu, efnisögnum og bylgjum í léttum dúr en viðurkenna líka gátuna skrýtnu. ,,Maurar” skilja enda vart sjónvarp innan frá þótt gott efni sé oft í sjónvarpinu.”.. Fögur er senan sem lýsir boðun Maríu. ,,Hjálpa þú mér helg og væn himnamóðirin bjarta...” Maríusálmur Nóbelsskáldsins er sunginn meðan ,,ljósið” sígur niður í snúru af himni og er smeygt undir pilsfald Maríu. Þegar Jósef spyr. ,, Hver á það? er svarað. ,,Guð á það, Guð á öll börn” og engillinn Gabríel setur allt í rétt samhengi í draumi og söng: ,,Þetta er enginn vandi. Þetta er heilagur andi” svo að Jósef getur líka sungið. ,,Í fögrum draumi fyrst ég sá þig ,í fögrum draumi mun ég þrá þig..” Því er lýst að barnið í kviði Elísabetar, verðandi móður Jóhannesar skírara, tekur viðbragð er þær María hittast á meðgöngutímanum. Minnt er í framhaldi af því á, að Jóhannesi skírari hrærði við fólki, krafðist iðrunar og umbreytinga með ávítum og gagnrýni á siðspillingu, því að tímarnir væru að breytast. Það er áréttað með lagi Bob Dylans ,,The times they are a changing” með ágætum íslenskum texta. Því er bætt við að Jóhannes skírari sé á skrá ,,Amnesty International” yfir líflátna andófsmenn enda enn verið að pynta og hálshöggva fólk víðs vegar í veröldinni. ,,Það bar til um þessar mundir.” Fyrsta skrásetning heimsbyggðar birtist í meðförum trúðanna sem tillitslaus þvingunaraðgerð ríkisvaldsins. Þeir bregða sér jafnframt inn í og túlka samtímaatburði, lýsa því að ríkið sé oft líkt belju með spena sem þyrpst er að og reynt að totta og mjólka sem mest og hagnast á kerfinu. ,,Blessuðu markaðsmennirnir héldu að þeir gætu komið í veg fyrir slíkan atgang og bruðl en teymdu hver annan í samspillingardansinn og breyttust í heilagar og upphafnar peningaskepnur.” María og Jósef arka af stað í 5-6 daga hættuferð og Jósef syngur takfastan söng, sem gæti verið beint úr Spaugsstofunni. Ferðin er færð í stílinn. Ógnandi rómverskir hermenn koma við sögu og ræningjaflokkar. Skyndilega stígur Jósef á jarðsprengju, svo sem hendir flóttamenn í samtíðinni, en Samverji veitir honum hjálp í viðlögum. Hann skaddast þó á fæti og gengur um á hækjum. Hirðarnir á Betlehemsvöllum ,,finna enn lykt af skötu, því að það var Þorláksmessa í gær, en frelsari er fæddur í jötu.” Englar og himneskar hersveitir baðaðar ljósi boða þeim það. Trúðarnir, skelfdir í fyrstu sem hirðar, velta fyrir sér óttaefnum í veröldinni, ógnum og myrkri en dást að undrinu, þegar sköpunarverkið lýsist upp og frumefnin gagntakast af geislum Guðs. Hirðarnir hrífast af barninu nýfædda og fá að halda á því. Trúðarnir hugsa þá til þess, að á jólum finna margir fyrir skorti og söknuði. ,, Þá finnum við til þess ef einhvern vantar í hópinn, hvað vantar, hvað er að og hvað brotið.” Trúðarnir hafa uppgötvað og benda á, að jólabarnið er við því búið að setjast í sæti þess sem vantar. Og skyndilega er Jesúbarnið komið í fjöldaframleiðslu. Trúðarnir bera Jesú til áheyrenda, sem geta ekki annað en hvumsa eða klökkir tekið Jesú/ klæðastranga sér í fang. Trúðarnir botna svo þennan gjörning með þessum orðum: ,,Öll getum við reynt að laga, öll mótast af Jesú til að bæta og laga.” En þá er horfið í myrkrið hjá gömlum og grimmum Heródesi konungi, árið eitt. Hann er ringlaður í ríminu en bregst hart við hættunni af uppreisn og framtíðarkonungi með því að fyrirkoma sveinbörnum í Betlehem og hvetur til dáða: ,,Afl mitt æðir áfram hús úr húsi og hrifsar til sín börn úr móðurfaðmi. Þjóðin þekkir herra sinn, þá lýstur hana veldissprotinn minn.” Samræður vígasveita Heródesar gætu átt sér stað í hvaða drápsliði sem er fyrr og síðar. ,, Sumir strákarnir eru alveg klikkaðir og hafa gaman af þessu. Ég er fagmaður, fæ borgað fyrir þetta og geng hreint til verks. Ef ég gerði það ekki myndi bara einhver annar gera það.” Barnamorðunum er lýst með myrkvun, vasaljósum og ógnandi tónum sem Ramakveinum. En þá birtist þýtt og ljúflega önnur vídd og veruleiki. Himintjaldið sígur niður og þaðan berst englasöngur og huggunarorð: ,,Rakel, við viljum láta þig vita að við erum með börnin og gerum okkar besta.” Þegar börnin gráta og vilja fara aftur heim til mömmu er vísað til þess að þau geti ,,endurfæðst” í heiminn, og þá er farið út af spori kristinna leiðarmerkja en jafnframt er fjallað um eilífðina sem þann veruleika þar sem tíminn er upphafinn og ,,mamma” er þar því líka. Gegnum himnaopið er horft til þess þrjátíu árum síðar að Jóhannes skírir Jesú og litið á fylgjandi feril hans og þess getið að hann hafi kennt 11. boðorðið: ,,Elska skaltu”, en þrátt fyrir elsku og líknarverk fékk hann slæma fjölmiðlaumfjöllun og var krossfestur í myrkri heimsins en lifnaði við í upprisu sinni og fyrir áhrif hans getum við líkst honum. Trúðarnir benda á það í lokin að ,,með því að lesa Biblíuna og leikskránna, sem er full af Biblíutilvitunum, sé hægt að öðlast eilíft líf.” „Jesús litli“ í meðförum trúðanna er um margt hrífandi sýning þótt galsinn og afkáraskapurinn fari á stundum út á ystu mörk. Hún er afhjúpandi, bendir ekki aðeins á himinljósið tæra og sakleysið heldur á myrkur, illsku og grimmd sem umljúka það á alla vegu og ógna því. Allt leikur svo létt í höndum trúðanna, hlutverkaskipting, tjáning, tal og söngur á fjölbreyttum nótum sem hrífur og skelfir líka, en lög og tónlist eru smekklega valin og oftast sungin af Bellu. Hún er skrautfjöður sýningarinnar og gefur þeim Birgittu og Úlfari ekkert eftir þótt hafi meiri trúðboðsreynslu. Trúðssýningarnar ,,Dauðasyndirnar” og ,,Jesú litli” eiga það sameiginlegt þótt ólíkar séu að fela í sér sérstæða en áleitna boðun á sigrandi ,,Ljósi lífsins” í myrkvuðum heimi. Það trúðsboð á brýnt erindi inn í samtíð og samfélag sem tapaði í gjörningaveðri Mammonsdýrkunar samvisku og samkennd sinni, kristnu gildismati og himinsýn. Trúðsleikurinn ,,Jesús litli” dregur jólin og boðskap þeirra úr fjarlægð og firringu glansmyndarinnar svo að þau verða nærtæk og krefjandi til afstöðu og viðbragða hér og nú enda eru áhorfendur virkir þátttakendur. Sýningin höfðar til barna sem fullorðinna og hjálpar til að hreinsa hjörtu þeirra og stilla innri strengi svo að þau megi sjá og hlýða á Guð í Jesú nafni. Trúðssýningarnar góðu í Borgarleikhúsinu eru því vegsauki og ný vídd í íslensku leiklistarlífi. Dauðasyndirnar fá *** en Jesús litli ****