Ritstjóri Austurlands bað mig að skrifa pistil um unglingadrykkju og útihátíðir. Mér var þá hugsað til þess, þegar ég var unglingur, þá voru frægar útihátíðir haldnar víða um land um verslunarmannhelgi m.a. í Húsafelli, Atlavík og Vestmannaeyjum, mikið drukkið og sagðar skrautlegar „hetjusögur“ af því. Einhvern veginn var þetta álitið hluti af því að þroskast frá unglingi í að vera fullorðinn. Enn eimir af þessu viðhorfi í tíðarandanum, en margt hefur breyst.
Kannanir sýna að nú er að eflast unglingamenning sem hafnar áfengisneyslu og ræktar lífstíl af sannkölluðu æskufjöri með heilbrigðum lífsháttum. Þetta birtist svo víða hjá unga fólkinu okkar sem lætur til sín taka á mörgum sviðum og hreinlega brillerar t.d. í íþróttum, í fjölbreyttri nýsköpun, á lista-og menningarsviðum og nýta tæknibyltingar til framfara og langt umfram þá sem eldri eru. Í þessu umhverfi er ekkert pláss fyrir áfengi eða aðra örvandi vímugjafa.
Á sama tíma flæðir dópið yfir neyslu og skemmtanalíf þjóðarinnar og fullyrt að auðveldara sé að nálgast það en áfengið. Það er hrein ógn við forvitna unglinga sem langar að reyna eitthvað nýtt. Svo koma fréttirnar af unglingunum sem þjást af andlegri og félagslegri vanlíðan og sækja í neyslu lyfja og örvandi efna til að sefa kvíðann og festast í neti fíkninnar,- og lagt bókstaflega í gröfina fjölda ungmenna. Líklega er þetta alvarlegasta unglingavandamál sem þjóðin hefur átt við að etja eftir að hún varð bjargálna.
Ungur fíkill, sem hefur verið edrú í rúmt ár, skrifaði: „Við erum kvíðin kynslóð, kvíðalyfin höfða til okkar og á sama tíma erum við ekki meðvituð um það hversu ávanabindandi þau eru. Það þarf að fræða fólk um það. Það eru svo margir að prófa þau og augljóslega verða þá fleiri háðir þeim. Foreldrar vita ekkert um þetta. Eldri kynslóðir koma af fjöllum. Það er svo nýtilkomið að neysla á þessum lyfjum sé orðin útbreidd og hreint út sagt í tísku“.
Umræðan hefur fyrst og fremst fjallað um hvað er til bjargar eftir að
neyslan er hafin og hvernig heilbrigðiskerfið gæti brugðist við í
meðferðarúrræðum. Þar verður að stórefla alla þjónustu með markvissum
viðbrögðum. En þessi fjandi er erfiður viðureignar. Hér þarf að koma til
öflugt fræðslu-og forvarnarnarstarf og menning sem safnar þreki til að
segja hreinlega Nei. Ekki dóp fyrir mig. Um þessa menningu þurfa allir
að sameinast og þar gegna fjölmiðlar og skólarnir stóru hlutverki,- en
ekki síst í ranni unglinganna sjálfra sem rækta tískuna og gildismatið
fyrir lífið sitt.
Svo er það umhugsunarefni hvað veldur vanlíðan og kvíða hjá unga fólkinu
í veröld alsnægta þar sem tækifærin til að njóta lífsins virðast blasa
við og aldrei verið fleiri. Þá beinast augu að netheimum sem margt ungt
fólk virðist gagntekið af. Gæti svo verið að tómhyggjan sem afneitar
Guði skipti hér máli?
Við heimtum að búa í sársaukalausu samfélagi þar sem allt á að vera þægilegt og auðfengið. Ef einhver finnur til, þá er krafan að fixa það strax. Allt á að vera slétt og fínt á yfirborðinu,- og helst fullkomið. Þetta er krefjandi umhverfi af því að lífið er ekki svona í laginu. Það skiptast á skin og skúrir í lífi hvers einasta einstaklings. Sársauki er óhjákvæmilegur í mannlegri líðan og getur oft tekið tíma að vinna bug á honum í ljósi aðstæðna.
Þá er lítið pláss fyrir þolgæði og æðruleysi í síngjörnum og hörðum heimi. Sársauki veldur ekki aðeins einstaklingnum vanda, heldur truflar líka friðinn með samferðafólki. Krafist er af kerfinu að deyfa sársauka strax og þá verða pillurnar gjarnan nærtækar, líka til að hjálpa einstaklingi að vera hreinlega til friðs og falla að gildandi normum. Það tekur á að vera öðruvísi. Þetta finna unglingarnir og freistast til að leita í vímu til að flýja vanlíðan og kvíða.
Útihátíðir á sumrin geta því verið unglingum eins og frelsandi skjól af því að þar gæti gilt „allt leyfilegt“. Þá reynir á foreldra, þeirra leiðsögn og jarðveginn þar sem unglingarnir eiga rætur sínar. Er þá innistæða fyrir foreldri til að segja nei við barnið sitt, „þú ferð ekki á útihátíðina“, en gerum skemmtilegt saman um helgina?
Þessi pistill birtist fyrst í Austurlandi.
Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Heydölum