Krydd dofnar Á dögunum átti ég leið í skápinn í eldhúsinu sem geymir öll kryddin. Það stóð til að gera uppáhaldsrétt þessa helgina og í hann þurfum við nokkur krydd eru sjaldan notuð. Ég byrjaði að elda snemma þennan dag og var á þessum tíma búinn að saxa grænmetið og kjötið og allt var til reiðu fyrir stutta steikingu og hæga suðu. Ég sótti kryddtegundirnar, fimm eða sex talsins og teninga í kjötsoð og setti á borðið. Kíkti svo – eiginlega alveg óvart – á síðasta söludag á baukunum.
Timjan. Útrunnið. Svínakjötssoðteningur. Útrunninn. Í fyrra. Steinselja. Útrunnin. Og svo framvegis.
Af kryddtegundunum fimm var bara ein í lagi. Hinar runnu út á þessu ári eða í fyrra og soðið líka. Svo ég þurfti að skunda út í búð og kaupa nýtt krydd og nýja tenginga í soðið.
Krydd dofnar og á baukana er merktur síðasti söludagur. Og þegar kryddið hefur dofnað og er komið framyfir síðasta söludag er það ónothæft. Og þá er því hent.
Að draga fram bragðið Við notum salt í mat til að draga fram hið náttúrulega bragð hráefnisins. Við notum krydd í mat til að gefa nýtt bragð, hnika bragði, skerpa og leiða bragðlaukana á nýjar slóðir. Við notum það líka til að lita mat. Við blöndum saman og úr verður eitthvað nýtt og stundum undursamlegt.
Hvað með lífið?
Líking dagsins – sem við lesum um í guðspjallinu – gengur út á lífssaltið og -kryddið. Og raunar er lýst ákveðnum áhyggjum af stöðu mála og spurt: Hvað gerum við eiginlega ef salt jarðar dofnar?
Og hvað þýðir það? Hér kemur ein tilgáta:
Að manneskjan sé salt jarðar vísar til þess hlutverks sem hún hefur - sem við höfum öll. Að þjóna, draga fram hið góða, miðla því sem er fallegt, skapa gott samfélag.
Að saltið dofni vísar til þess að okkur takist ekki nógu vel upp í þessu verkefni.
Að kasta því og troða undir fótum vísar til rangrar forgangsröðunar. Rangrar uppbyggingar samfélags.
Að selta það aftur – því við getum jú ekki hætt að vera salt, við erum bara mismikið sölt - vísar til þess að við forgangsröðum rétt.
Salt(ein)elti Á þriðjudaginn kemur, 8. nóvember, er baráttudagur gegn einelti á Íslandi. Þann dag verður opnuð ný vefsíða á gegneinelti.is og þar gefst okkur kostur á að skrifa undir þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti. Hann hljómar svona:
„Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og allra hópa sem eiga sér hvorki málsvara né sterka rödd. Við munum öll, hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.“
Þetta er salt-sáttmáli sem miðar að því að safna okkur saman í baráttunni gegn því samfélagsmeini sem einelti er. Og okkur er boðið að skrifa undir.
Til áminningar um það verður kirkjuklukkum um allt land hringt klukkan eitt. Þannig að þegar við heyrið þær klingja á þriðjudaginn þá bið ég ykkur að muna eftir málefni dagsins og kíkja svo inn á gegneinelti.is og skrifa undir sáttmálann.
Sem samfélag ættum við öll að safnast saman í þessari baráttu og skrifa undir sáttmálann – og helst að fá fleiri til þess en hafa lagt nafn sitt við baráttuna gegn ranglæti IceSave skuldanna. Eineltið á Íslandi er ekki síðra baráttumál en það.
Með því að skrifa undir og taka svo virkan þátt í baráttunni gegn einelti verðum við samfélagssalt.
Sorgin og saltið Í dag, sunnudaginn 6. nóvember, er allra heilagra messa í kirkjunni okkar. Allra heilagra messa er einn af sorgardögunum í kirkjuárinu.
Það er ekki af því að dagurinn sé í sjálfu sér sorglegur. Það er vegna þess að þennan dag minnumst við þeirra sem voru eitt sinn mikilvægur hluti af lífinu okkar, en eru það ekki lengur. Því þau eru dáin.
Við minnumst og þökkum þau sem voru saltið í okkar lífi. Við rifjum upp sorgina í einn dag. Grátum kannski svolítið. Hugsum um það sem var gott og það sem þau gáfu okkur. Hugsum um lífið sem var og lífið sem er og lífið sem verður.
Á þann hátt er allra heilagra messa salt-dagur. Því við hugsum um þau sem voru saltið og kryddið í okkar lífi. Og á eftir þegar þessari prédikun er lokið gefst okkur tækifæri til að minnast og þakka með því að ganga að bænastjakanum og kveikja lítið ljós.
Síðasti söludagur Kæri söfnuður.
Manneskjur hafa ekki síðasta söludag. En eins og krydd og salt geta þær dofnað. Og öll lifum við einhverju sinni síðasta ævidaginn.
Og lykilspurningin er þá þessi: Hvernig verðum við þá?
Virkt salt eða dofið?
Það er bara eitt svar við því:
Virkt salt. Að sjálfsögðu. Það er stefnan í lífi okkar. Og þess vegna komum við hér saman, í kirkjunni. Fólk á öllum aldri - fullorðnir og ungir. Fermingarbörnin sem hafa tekið þennan vetur frá til að læra um lífið.
Við söfnumst saman til að eflast í lífinu, skerpa sýnina á samfélagið okkar, þiggja næringu í orði og brauði lífsins, til að verða betri sem salt í heiminum.
Og hvað þýðir það?
Það þýðir að við ætlum að leggja okkar af mörkum í baráttunni fyrir því sem er réttlátt og satt og gott. Við ætlum að standa vörð um þau sem minna mega sín í samfélaginu okkar. Við ætlum ekki að vera hlutlaus. Við ætlum að taka afstöðu. Og við ætlum að standa saman í þessu.
Þannig verðum við salt. Og það ætlum við að vera.