Eflum tengslin við hvort annað

Eflum tengslin við hvort annað

Mér kemur líka í hug mikilvægt starf ungmennafélaga um allt land sem eru með elstu félögum á landinu. Það þarf að endurvekja þennan ungmennafélags anda sem var mikill drifkraftur hér áður fyrr fyrir lýðheilsu fólks um allt land. Þau voru og eru enn í dag rekin á sjálfboðaliðastarfi eftir því sem ég kemst næst. En fyrst og fremst þurfum við að líta í eigin barm heima fyrir og gefa okkur tíma fyrir hvort annað. Gefa skjánum frí einn dag í viku og efla þess í stað tengslin við hvort annað með ýmsum skemmtilegum og uppbyggilegum og kærleiksríkum hætti þar sem samúð, traust og samvinna er í fyrirrúmi.

Orð Jesú eru ekki eitthvert fornaldarhjal, ómur úr fornum heimi sem kemur okkur alls ekkert við. Það er nefnilega einhver óskiljanlega máttugur lífskraftur í orðum hans sem gerir það að verkum okkur kristnu fólki finnst að hann tali beint inn í aðstæður okkar dag hvern þótt liðin séu tvö þúsund ár er hann gekk um á þessu jarðneska tilverusviði.. Þau eru fyrst og fremst að finna í guðspjöllunum fjórum. Matteusar, Lúkasar, Jóhannesar og Markúsarguðspjalli sem við íhugum í kvöld

Jesús kallar tollheimtumanni Leví Alfeusson til fylgdar við sig. Tollheimtumenn voru litnir hornauga af gyðingum í Ísrael vegna þess að þeir innheimtu tollagjöld fyrir Rómverja sem höfðu ráðist inn í landið. Jesús fór ekki í manngreinarálit. Hann kom jafnt fram við alla. Leví var svo þakklátur Jesú fyrir að vilja gera sig að lærisveini sínum að hann bauð honum heim til sín. Þar hitti Jesú fleiri tollheimtumenn og bersynduga sem voru vinir Leví tollheimtumanns. Bersyndugir voru þeir gyðingar sem fóru ekki eftir ákvæðum lögmáls gamla testamentisins í einu og öllu samkvæmt mati Fariseanna. Farisearnir voru flokkur gyðinga á tímum Jesú. Nafnið þýðir trúlega, þeir sem skilja sig frá. Prestar og fræðimenn stjórnuðu þessum flokki. Flestir félaganna voru þó úr alþýðustétt, leikmenn sem lögðu sig fram um að breyta eftir Móselögmáli og munnlegum erfðageymdum. Þeir lögðu mikla áherslu á fjölmörg boð varðandi ytri guðrækni og hreinleika svo og hvíldardagsreglur. Þeir töldu sig vera réttláta vegna þess að þeir gerðu allt rétt samkvæmt lögmáli gyðinga og brytu ekki hið minnsta boðorð. 

Samkvæmt guðspjallinu settu Farisearnir sem komu í hús Leví Alfeussonar út á það að Jesús skyldi sitja til borðs með tollheimtumönnum og syndurum vegna þess að þeir töldu að Jesús yrði með því móti óhreinn og syndugur. En Jesús segir þeim að hann sé ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara. Það væri nefnilega erfitt að leiða fariseunum fyrir sjónir að þeir væru einnig syndarar vegna þess að þeir ættu sjálfir svo erfitt með að líta í eiign barm og sjá að þeir væru ekki fullkomnir þrátt fyrir alla viðleitni sína í þá veru með líferni sínu. Jesús vissi sem sagt að það væri miklu betra að ná til tollheimtumannanna og bersyndugra vegna þess að þeir ættu auðveldara með að líta í eigin barm og skilja að þeir væru syndarar sem þyrftu á fyrirgefningu syndanna að halda.

Þeir voru opnir fyrir því að iðrast synda sinna og leitast við að færa allt til betri vegar upp frá þeirri stundu að þeir tækju á móti fyrirgefningu syndanna. Syndugur er sá einstaklingur sem lifir ekki samkvæmt vilja Guðs, hugsar og gerir það sem er rangt en ekki rétt.

Jesús bendir þeim og okkur á það sem rangt má teljast. Hann sagði: ,,Enginn lætur nýtt vín á gamla belgi því þá sprengir vínið belgina og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.”

Jesús gaf þeim nýtt boðorð sem segja má að sé nýja vínið en það er kærleikurinn og fyrirgefningin og samkenndin með þeim sem líða og stríða af einhverjum ástæðum. Frelsarinn dró boðorðin 10 saman í eitt boðorð sem er tvöfalda kærleiksboðorðið. Þar er okkur lagt á hjarta að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf. Boðorðið um kærleikann er hið æðsta og mesta boðorð. Því að kærleikurinn umber allt, breiðir yfir allt, kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.  Ef okkur tekst að halda þetta boðorð  og leitumst jafnframt við að vera trúir ráðsmenn og samverkamenn Guðs gagnvart sköpuninni, þá lífum við lífinu í samræmi við vilja Guðs. Hvers kyns niðurlæging er því atferli sem er andstætt vilja Guðs og okkur ber skylda til að uppræta það í allri sinni mynd með því að fræða og áminna hvetja fólk til að sýna hvert öðru virðingu og kærleika.    Þetta eigum við að kappkosta að gera til þess að öðlast síðan kórónu lífsins sem Guð gefur hverjum þeim sem hefur sýnt þvílíka trúmennsku gagnvart náunganum og líifríki jarðarinnar.

Við viljum svo gjarnan gera rétta hluti. Hvernig getum við daglega snúið við blaðinu og gert betur í dag en í gær?

 Nýlega skrifaði prófessor í félagsfræði grein sem vakti mikla athygli. Hann kom síðan fram í umræðuþætti í sjónvarpinu með ungu fólki sem heitir Torgið. Þar talaði hann um að tengslarof hefði átt sér stað í íslensku þjóðfélagi, t.d. með aukinni skjánotkun. Það hefði haft í för með sér aukinn einmanaleika hjá fólki, einkum ungu fólki. Í grunninn erum við öll félagsverur. Við þrífumst því eðlilega með því að eiga samskipti við fólk, skólafélaga . samstarfsfók, ættingja og vini. Hann talaði um að sér fyndist að samfélagið hafi týnt sjálfu sér. Hann sagði að einmanaleiki, angist og kvíði hefði aukist, skautunin, hatursorðræðan og óttinn. Misskiptingin einnig og neysluvæðingin.  Við værum á góðri leið að glata því sem gerir samfélagið að samfélagi.  Samfélagið væri rekið á efnahagslegum forsendum í stað þess að vera rekið á manneskjulegum forsendum. Í því sambandi nefndi hann styttingu framhaldsskólns sem væri efnahagsleg ákvörðun sem sparaði ríkinu peninga. Hann sagði að andleg vandamál sem við fyndum á eigin skinni væru að aukast. Ef slík vandamál yrðu almenn þá væri ekki aðeins hægt að horfa á einstaklinga heldur þyrfti  að líta á samfélagsgerðina. Hann sagði að íslenskt samfélag skorti mennskuna, meiri félagsleg tengsl, meiri samskipti og félagsauð sem byggði á samúð og trausti og samvinnu. Allir virðist vera að horfa á skjáinn sinn, líka foreldrarnir. Við gæfum okkur ekki tíma fyrir hvort annað, hlusta á hvort annað, borða saman, spila saman, ganga saman, hjóla saman. Þess vegna hafi brotnað undan þeim stuðningi sem við þyrftum í samfélaginu. Hann var síðan spurður að þvi hvað við gætum gert? Hann svaraði því til að samfélagið þyrfti að fjárfesta í félagslegu heilbrigði. Við séum á braut einstaklingshyggju þar sem við höfum þægindin í fyrirrúmi.  Hann sagði að við héldum að við þurfum ekki á öðrum að halda og gefum ekki af okkur til annarra. Við þyrftum að gefa meira til samfélagsins en við tækjum frá því.

Við þökkum prófessornum fyrir að vekja máls á þessu. Vissulega gefur Þjóðkirkjan meira af sér en við tökum frá henni. Í því sambandi kemur mér kærleiksþjónusta kirkjunnar í hug, sálrænn stuðningur hennar, sálgæslan á tímum sorgar, þjónusta á margvíslegum tímamótum í lífi fólks, við skírn, fermingu, hjónavígslu og greftrun. Starfsfólk Þjóðkirkjunnar er stöðugt að gefa af sér.  Svo kemur mér í hug mikilvægt starf íþróttafélaga um land allt. Að því leyti gegna þau mjög mikilvægu uppeldishlutverki fyrir samfélagið þar sem tengsl milli iðkenda eru ræktuð frá barnsaldri til fullorðisára. Þar sem fólk á öllum aldri kemur saman og leikur sér. Mér kemur líka í hug mikilvægt starf ungmennafélaga um allt land sem eru með elstu félögum á landinu. Það þarf að endurvekja þennan ungmennafélags anda sem var mikill drifkraftur hér áður fyrr fyrir lýðheilsu fólks um allt land.  Þau voru og eru enn í dag rekin á sjálfboðaliðastarfi eftir því sem ég kemst næst.  En fyrst og fremst þurfum við að líta í eigin barm heima fyrir og gefa okkur tíma fyrir hvort annað. Gefa skjánum frí einn dag í viku og eflum þess í stað tengslin við hvort annað með ýmsum skemmtilegum og uppbyggilegum og kærleiksríkum hætti þar sem samúð, traust og samvinna er í fyrirrúmi.


Trúin og kærleikurinn er sterkasta aflið sem til er gegn öllu sem meiðir og særir. Trúin er ekki eitthvað sem hver og einn á að eiga fyrir sjálfan sig eins og stundum er sagt, heldur lífsafstaða, lífssamband milli okkar og Guðs þar sem við tölum við hann og hann talar við okkur og við leggjum við hlustir og leitumst við með lífi okkar að fara eftir því sem hann ráðleggur okkur að gera.. Eitt af því sem einkennir kristindóminn öðru fremur er samhjálpin og umhyggjan fyrir náunganum. Jesús Kristur lagði ríka áherslu á virkan kærleika, sbr dæmisöguna um miskunnsama Samverjann, tvöfalda kærleiksboðorðið og gullnu regluna.  

Nýlega varð á vegi mínum kennari sem var mikið niðri fyrir vegna Písa könnunar sem lögð var fyrir unglinga í skólum landsins. Þar kom í ljós að unglingar eiga erfitt með að  setja sig í spor annarra, auðsýna öðrum samkennd og samúð. Þetta minnti mig á það að fermingarbörn sem koma til fræðslu í kirkjunni að hausti hafa flest ekki heyrt dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Við þurfum sem fyrst að snúa við og taka aftur upp þráðinn, kenna kristinfræði í skólum landsins og benda með því börnum landsins á kristin gildi og mikilvægi þeirra í samfélaginu. Og við sem fullorðin erum þurfum að íhuga að við erum fyrirmyndir barnanna að þessu leyti. Skjánotkun okkar hefur tekið yfir allan þjófabálk, jafnvel við útfarir í kirkjum landsins en með þeim hætti auðsýnum við minningu hins látna vanvirðingu.

Líf Jesú Krists vitnaði um kærleikann svo eigi er um villst. Hann framkvæmdi eins og hann talaði. En þetta er einmitt það sem hann hvetur okkur kristið fólk til að gera í því skyni að leita helgunar eins og sagt er, þ.e. að reyna að verða að betri einstaklingum sem umgangast náunga sinn af umhyggju, nærgætni, tillitssemi og virðingu. Þetta eru allt eiginleikar sem við eigum að kappkosta að ná fram í okkar dagfari, í samskiptum okkar við kennarana, skólafélagana, vinnufélaga, ekki síst foreldra og systkini, ættingja og vini.

Við erum ekki fullkomin. Við eru öll syndug líkt og tollheimtumaðurinn Sakkeus en minnumst þess þá að við berum heilagt tákn Jesú Krists á enni og brjósti. Við lifum í skírnarnáð hans og eigum fyrir það  fyrirgefningu Guðs visa ef við iðrumst synda okkar.  Við þökkum góðum Guði fyrir óverðskuldugan kærleika sinn í okkar garð. Amen.

Flutt í Hafnarfjarðarkirkju  17. sunnudag eftir þrenningarhátíð 2024

Prédikarinn 3. 1-13    Róm  14. 14-19    Mark. 2. 15-22