Jólaþjófar

Jólaþjófar

Það hefur stundum orðið mönnum tilefni til að saka kristna menn um þjófnað. Hér á landi hefur því til dæmis verið haldið fram að kirkjan hafi stolið jólunum af heiðnum Íslendingum sem aðhylltust norrænan átrúnað.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
12. desember 2012

Sólargeisli - mynd: Svavar Alfreð Jónsson

„Hátíðir þær, er vér höldum hér í heimi, eru geislar nekkverir himinríkis dýrðar, og á sá maður von, að hann muni komast til eilífs hátíðarhalds í samneyti allra heilagra annars heims, er hann heldur hér í heimi vel og grandvarlega hátíðir Krists Drottins og heilagra manna hans." Íslensk hómilíubók

Jólin eru ekki einkaeign kirkjunnar. Þeir sem kynna sér sögu kristins jólahalds þurfa hvorki að lesa lengi né mikið til að komast að raun um að kristnir menn fundu ekki upp jólin. Upplýsingar um fæðingardag Jesú Krists eru mjög af skornum skammti og allnokkuð var liðið á kirkjusöguna þegar kirkjan fór að halda hann hátíðlegan. Þegar það gerðist urðu jólin fyrir valinu og síðan hafa flestir kristnir menn haldið jól sem fæðingarhátíð frelsarans.

Það hefur stundum orðið mönnum tilefni til að saka kristna menn um þjófnað. Hér á landi hefur því til dæmis verið haldið fram að kirkjan hafi stolið jólunum af heiðnum Íslendingum sem aðhylltust norrænan átrúnað.

En er víst, að norrænir menn hafi verið fyrstir til að halda jól og fagna því að daginn tók að lengja á ný? Og ef svo er ekki, hvaðan stálu þeir þá jólunum? Norrænir menn voru alla vega ekki einir um að halda hátíð um þetta leyti ársins. Vítt og breitt um álfuna voru haldnar hátíðir tengdar vetrarsólhvörfum, gjarnan með trúarlegu ívafi.

Gangur himintunglanna ákvarðar tímasetninar á mörgum af helstu trúarlegum hátíðum heimsins. Jólin miðast við sólina og páskarnir við tunglið svo dæmi séu tekin. Það er hvorki kristin né heiðin uppfinning heldur eitt af því sem einkennir átrúnað mannkynsins og trúarhefðir þess: Þar er manneskjan sett í hið stóra samhengi alheimsins og þeirra lögmála sem þar ríkja.

Þessi notkun á árstíðum, sól og tungli er eitt af því fjölmarga sem er samnefnari trúarbragðanna. Hitt er svo mismunandi hvernig trúarbrögðin spila á þetta hljóðfæri himintunglanna. Þegar skammdegið hefur náð hámarki og styttist aftur fagna kristnir menn fæðingu Jesúbarnsins. Aðrir gera eitthvað annað í tilefni þeirra tímamóta. Og allir eru í sínum fulla rétti til hátíða því þótt menn séu duglegir að slá eign sinni á hin ýmsu fyrirbæri heimsins hefur engum enn sem komið er tekist að fá viðurkennt eignarhald á sólinni, tunglinu eða á mönduhalla jarðar. Þetta eiga allir menn jafnmikið. Eða réttara sagt jafnlítið.

Kristnir menn nota tónlist óspart við helgihald. Þó er óumdeilt, að tónlistin er ekki kristin uppfinning. Engum dytti samt í hug að saka kristna menn um að hafa stolið tónlistinni. Hún er sameign mannkyns og öllum frjálst að nota hana og njóta hennar.

Gangi ykkur svo vel að undirbúa jólin ykkar!