Austurríski félagsfræðingurinn og heimspekingurinn Alfred Schütz hélt því fram að maðurinn lifði í mörgum veruleikum. Enda þótt hversdagsveruleikinn sé ríkjandi í lífi flestra búum við líka í öðrum heimum.
Heimur draumanna er einn þeirra. Draumar gerast að vísu ekki í efnisheimum en eru samt raunverulegir. Angistarhróp þess sem fær slæma martröð eru sönnun þess að fátt eru raunverulegra dreymanda en draumurinn á meðan hann er að gerast.
Hin fagurfræðilega upplifun er annað dæmi um hliðarheim. Við getum orðið svo hugfangin af kvikmynd, tónlist eða ljóði að við hverfum inn í listaverkið, fáum gæsahúð og verjumst ekki gráti. Listin getur verið fögur og máttug. Hún fær okkur til að gleyma öllum öðrum heimum.
Heimur kynlífsins er annar máttugur heimur sem lýtur eigin lögmálum og færir okkur á vit annarra vídda en þeirra venjulegu. Elskendurnir gleyma sér í ástarleiknum þangað til reiðilegt bank pirraðs nágranna hinum megin veggjarins leiðir þá inn í gráma dagsveruleikans á ný.
Hliðarheimurinn er vel afmarkaður í leikhúsinu. Þegar gestirnir eru beðnir að slökkva á farsímunum sínum eru það fyrstu merki þess að brátt muni þeir kveðja veröld hversdagsins og leggja af stað inn í aðra. Ljósin dofna og smám saman nær birta annars heims yfirhöndinni. Tjöldin sviptast frá og ný veröld afhjúpast.
Enn eitt dæmið um hliðarheim er það skoplega. Þar tíðkast eitt og annað sem ekki er hægt í hinum venjulega heimi. Samt eigum við ekki í neinum erfiðleikum með að staðsetja okkur í hinum tilbúna og oft fáránlega veruleika brandarans. Maður kemur inn á bar - og áður en við vitum erum við standandi við barborðið. Þótt heimur brandarans sé gjarnan hreinn hugarburður er hann engu að síður nógu raunverulegur til að láta okkur engjast af hlátri. Og brandarinn gerir meira en að fá okkur til að hlæja. Sá sem ferðast um heim hans sækir þangað ýmsa hjálp við að takast á við heim hins daglega lífs og amsturs.
Skop virkar stundum eins og öflugt geðlyf. Í því er fólgið bæði hughreysting og uppörvun. Þegar það beinist að okkur sjálfum fær það okkur til að horfast í augu við eigin galla og yfirsjónir. Skop er pólitískt vopn. Það afhjúpar ranglæti og lýðskrumara. Heimur skopsins er svo raunverulegur og máttugur að sennilega væri hinn daglegi veruleiki stundum með öllu óbærilegur ef ekki væri til hliðarheimur þess skringilega.
Í kirkjum erum við stödd í heimi trúarinnar. Útveggir kirknanna afmarka sérstakan hliðarheim. Heimur trúarinnar lýtur öðrum lögmálum en hversdagsheimurinn. Hann er umdeildur. Heimur trúarinnar getur verið svo varasamur að ganga þarf inn í hann um logandi dyr.
Þegar komið er inn í kirkju tökum við upp annað atferli en utan veggja hennar. Sumir syngja aldrei nema í kirkjum. Í kirkjum er beðið, kropið og þagað. Þar er fólk í skýtnum fötum. Og þar eru sagðar skrýtnar sögur.
Á páskum heyrum við þar eina eina skrýtnustu og ótrúlegustu söguna: Þrjár konur ganga að gröf Jesú til að hlúa að líki hans. Þær velta fyrir sér hvernig þær geti opnað gröfina og velt steininum stóra frá grafarmunnanum. Þegar þær koma að gröfinni hefur það ótrúlega gerst; steininum hafði verið velt frá. Og þegar þær koma inn í gröfina gerist nokkuð enn ótrúlegra; þar situr ungur maður, klæddur hvítri skikkju. Konunum brá og þær urðu hræddar en ungi maðurinn bað þær vera rólegar. Hann flutti þeim enn ein ótrúleg tíðindi þessa morguns:
Jesús er ekki lengur í gröfinni. Hann er upprisinn.
Svona sögur gerast ekki í veruleika hins daglega lífs. Grafirnar sem við þekkjum eru ekki tómar. Þær eru fullar. Þær taka svo óendanlega mikið frá okkur. En við lifum ekki bara í heiminum á barmi grafarinnar. Þegar við stöndum þar berst okkur saga úr heimi trúarinnar. Og sú skrýtna saga getur gefið okkur sigursálm á varirnar á augnabliki afhroðsins og trú á mátt lífsins andspænis áþreifanlegum og alltumlykjandi dauða. Gleðilega páska!