Ákveðnar dagsetningar fá okkur konur til að hrökkva í gírinn – 19. júní, 8. mars, 24. október. Það sem vekur okkur þessa daga umfram aðra er kvennabáttan, sem í dag er frekar kölluð jafnréttisbarátta. Það er margt ólíkt með kvennabaráttunni í dag og 1975 þegar konur tóku sér frí frá störfum og kröfðust jafnréttis á við karla og einnig þess að vera virtar sem manneskjur – manneskja ekki markaðsvara hljómaði og það er enn full ástæða til að krefjast þess eins og klámvæðingin sýnir.
Í dag 19. júní eru konur og reyndar karlar líka hvött til að klæðast bleiku. Hvílík bylting í baráttunni! Bleikur litur í stað rauðs, aðsniðin föt, flegin hálsmál og fjölbreytileiki í stað dökkra, víðra og svolítið druslulegra fata. Eru við bleiksokkur í stað þess að vera rauðsokkur? Bleiki liturinn mætti miklum fordómum hér áður fyrr á tímum frumkvöðulsins Báru bleiku. Hörmulegur litur og við klæddum ungbörnin í brúnt og appelsínugult óháð kyni. Segir hið ytra eitthvað um hið innra?
Að mínu mati hefur baráttan ekki bara breytt um lit heldur líka tilfinningu. Sem tvítugri fannst mér sem harkan stæði upp úr. Stutt fæðingarorlof og svo út að vinna, eða halda áfram námi tveim vikum eftir barnsburð. Þetta var eðlilegt á þeim tíma –konur skiptu mestu máli í framleiðslunni!!
Núna finnst mér að allur tilfinningaskalinn megi vera með. Jafnréttisbarátta felst í viðurkenningu á fjölbreytileika og valfreslsi en um leið baráttu fyrir viðurkenningu á vali á lífstefnu og túlkun hvers einstaklings á tilgangi lífs síns. Draumurinn er að allir hafi frelsi til að velja og hafna út frá löngunum sínum. En launamálin....nei ég fer ekki nánar út í þau.
Í Þjóðkirkjunni starfa margar konur sem þekkja mismunun vegna kynferðis á eigin skinni. Það nægir að nefna stöðuveitingar og almennt stöðu kvenna innan kirkjunnar. Þó bjóða margar konur fram krafta sína í ábyrgðar- og stjórnunarstörf. Um stöðu kvenna innan kirkjunnar gilda sömu reglur og innan annarra stofnana en sennilega er kirkja eitthvað svifaseinni en önnur kerfi. Hefur hún eitthvað sér til málsbóta? Það kann að vera en það er engin afsökun.
En lítum nánar á vandann. Kristur boðar hógværð og umburðarlyndi og það hefur ekki fallið úr gildi allra síst í breyttum heimi og alls ekki með breyttri stöðu konunnar. Að þessu leiti virðist boðskapur Krists eiga auðveldari aðgang að konum en körlum. Þær hafa jafnvel ruglað saman hóværð og undirlægjuhætti. En þó er annar möguleiki í stöðunni að þær kjósi tilbeiðslu og þroska í trúnni fram yfir annað en það efast sjálfsagt margir um.
Hógværð, umburðarlyndi og umhyggja er hvorki að sýna öðrum yfirgang né að láta traðka á sér heldur að líta á aðra sem jafningja. Í hjartans einlægni bið ég, megi Guð minna okkur öll á að sjá aðra sem jafningja 19. júní og aðra daga.