Aftur, já, en líka fram

Aftur, já, en líka fram

Hvað viljum við með kirkjulífi okkar? Ætlum við að vera bara í hefðinni, gera það alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði bara framtíð. Getur verið að núið verði aðeins gott sem flétta fortíðar og framtíðar?

Flutt í Neskirkju. 

Ferðalagið hafið Fastan er hafin. Gleðskapur og hátíðir hafa verið um allan heim liðna daga áður en aðhaldið í mat og drykk ætti að byrja. Kannski er fasta á mat horfin úr lífi flestra Vesturlandabúa en hátíðin lifir. Sagt er að margir Vesturlandabúar komi til kirkju  timbraðir í dag og illa fyrir kallaðir. En ég get nú ekki séð merki um vanlíðan og höfuðkvalir þegar horft er fram í kirkjuna! Fastan er merkilegur tími, tími til íhugunar, tími Jesúferðar til Jerúsalem og tími til að hugsa um tímann sjálfan og hvað við erum gagnvart honum og hvernig við dönsum við takt tímans.

Tíminn í grafhýsi Ég var í stórum hópi Íslendinga fyrir níu dögum síðan í Westminster Abbey í London. Það er einkennileg kirkja, eiginlega risastórt grafhýsi, þjóðargrafreitur Englendinga. Í kirkjunni eru, eftir því sem okkur var tjáð, um þrjú þúsund og fimm hundruð grafir, legstaðir konunga, skálda, vísindamanna – þjóðhetja. Og þó er þessi hvelfing dauðans líka kirkja fyrir lífið. Íslenski hópurinn sat í gamalli og glæsilegri tíðargerðarstúku. Það var komið að kvöldsöng. Stór drengjakór gekk inn með kirkjuþjónum og prestum. Kyrrð féll á, túristarnir voru farnir, aðeins þau eftir sem vildu taka þátt í kvöldsöngnum.

Við höfðum góðan tíma til að horfa, íhuga, umvafin djúprödduðum ym stórs hvelfingahúss. Hugurinn leitaði inn á við. Á tíðagerðarblaðinu var inngangur um tímann og afstöðu kirkju og kristinna manna til hans. Þar var sagt að kirkjan lifði í fortíð, sem kæmi meðal annars fram í að lesnir væru þessir gömlu textar, textar úr sögu Ísraels, textar Gamla testamentisins. Jú, það er alveg rétt að mikið af textum og lífi kirkjunnar er rótfest í þátíð. Ef fortíðarhyggjan verður alger og ráðandi verður allt gamaldags. En er það ekki hlutverk okkar að skilja hið úrelta frá hinu gamla sem er klassískt? Jú, það er verkefni hvers manns sem leitar þroska. Það er líka köllun vökullar kirkju.

Kall til framtíðar Svo stóð þarna á blaðinu að líf kirkjunnar, kristinna manna, sé líka mál framtíðar. Textar Nýja testamentisins, pistlarnir og guðspjallstextar, sem við lesum á hverjun kirkjudegi, varða framtíð, draga fram verk Guðs, benda okkur á vonarefnin, beina sjónum fram á veginn, minna okkur á að við megum snúa okkur fram á við.

Aftur, já, en líka fram. Er ekki þetta vitlegt? Þurfum við ekki að eiga okkur sögu, fortíð, minna okkur á hið stóra samhengi tímans? Verðum við ekki rótlaus ef við missum sjónar á fortíðinni? Verðum við sem einstaklingar ekki grunnfærin þegar við hættum að læra af hinu liðna? Jú, svo sannarlega. Þegar við lifum bara í fortíðinni og erum hætt að opna gagnvart framtíð og nútíð þá erum við eiginlega dáin, farin, búin bæði sem einstaklingar og stofnanir eiga við hið sama að stríða. Við eigum því og megum lifa í spennu fortíðar og framtíðar, þess sem var og þess sem verður. Aftur og fram, aftur og fram er taktur kirkju og kristins manns, taktur fyrir lífið.

Jesúreisan til Jerúsalem Í dag er sunnudagur í föstuinngangi. Um hvað er nú talað í kirkjum á tímanum fyrir páska. Um hvað er talað í Passíuálmunum? Ferð Jesú til Jerúsalem. Menn voru ekki alveg viss um til hvers hann færi, til hvers þessi ferð leiddi. Margir vonuðust til, að þetta yrði ferð til sigurs, þeirra lið ynni og Jesús yrði einhvers konar þjóðarleiðtogi, sigurvegarinn mikli. En svo var afstaða Jesú sjálfs. Hann gerði sér grein fyrir að hlutverk hans væri annað en það sem aðdáendur hans og klapplið vildu. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist.

Jesús horfði aftur, vissi um sögu þjóðar sinnar, brot hennar, já félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. En hann vissi líka um köllun sína, og að honum var ætlað að þjóna. Aftur og fram. Og það var hans vandi að vinna úr. Ferðin var ekki þægileg túristaferð. Hann var ekki í einhverri dægilegri kirkjuskoðun. Ferð hans var upp á líf eða dauða, upp á líf veraldar eða dauða. Hann hefði kannski getað látið undan freistingunni, forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur, bara farið í handverk smiðsins í Nasaret, eignast fjölskyldu og lifað hamingjuríku lífi, til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar – eða hvað?

Kirkjuskoðun í London Mogginn sló upp á baksíðu um síðustu helgi að á annan tug presta  færu fótboltaleik í London til að veita West Ham andlegan stuðning! Það er rétt, hópur af prestum fór á fótboltaleik. En það var að vísu bara aukageta og viðbótarskemmtun. Liðið tapaði og það var reyndar vitað, að prestar hafa aldrei verið góð lukkutröll. En Mogginn hefði alveg getað upplýst, að nær fimmtíu manna hópur kirkjufólks væri á ferð, organistar, sóknarnefndarfólk, prestar og starfsmenn safnaða í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Tilgangur reisunnar var að kynnast kirkjustarfi í London, ekki síst starfi þjóðkirkju þeirra Englendinga, ensku biskupakirkjunni. Það er hægt að túlka ferð með ýmsu móti, draga út eitt atriði sem gefur ekki rétta heildarmynd. Jú, það var gaman að fara á völlinn, en það voru kirkjulegu málin, sem voru okkar viðfangsefni í ferðinni en ekki tuðran.

Ferðin var vel skipulögð. Við heimsóttum stóran barnaskóla, sem söfnuður rak. Við sóttum heim kraftmikinn söfnuð, sem var búinn að umbylta kirkjuhúsinu, taka altarið út og koma fyrir trommusetti í staðinn! Reyndar kom í ljós að þótt kirkjuskipið væri umbylt og altarið horfið var brotning brauðsins iðkuð og kristnilífið sagt þróttmikið. En við Neskirkjufólk höfum ekki hugsað okkur að gera tillögu um að altarið hverfi og bumbur komi í staðinn. En ýmislegt lærðum við.

God´s frozen people Í ískaldri höll erkibiskupsins, Lambeth Palace, héldu margir fræðimenn fyrirlestra fyrir okkur um þróun kirkjulífs í Bretlandi, ensku kirkjuna, helgihaldssögu þeirrar kirkju og kirkjusögu. Í kuldanum fórum ég að velta vöngum yfir hver væri God’s frozen people, Íslendingar eða enska kirkjan. Við fengum innsýn í vegsemd og vanda biskupakirkjunnar og fundum vel í hvaða lúxusstöðu kirkjan og þar með prestar og kirkjufólk á Íslandi búum við. Það er þakkarefni, en líka ábyrgðarkrafa á hendur okkur, að ávaxta pund okkar vel í starfi og fjárnotkun, nýta aðstöðu til að þjóna fólki vel. Enska kirkjan stendur vörð um mannréttindi, stendur með hinum fátæku, undirokuðu og útlendu, spyr ekki að trú eða stöðu, heldur berst fyrir góðu lífi og rétti allra. Við lærðum margt í London og getum nýtt okkur það sem vel er gert.

Margir söfnuðir í Englandi hafa hætt starfi þegar söfnuðurinn hverfur. Kirkjur hafa verið seldar, þeim hefur verið breytt í flottar íbúðir eða skrifstofuhúsnæði. Eina kirkju hef ég séð sem var orðin að stóru bílaverkstæði. Víða hefur safnaðarfólkið gengið í sjálft sig, þorað að spyrja hvort ekki væri kominn tími til að breyta. Það er ekki nóg að bara að hafa sögu og hefð. Ef safnaðarlífið gengur ekki verða menn að breyta til, taka upp nýja siði, jafnvel bylta kirkjuhúsunum og breyta innviðum þeirra.

Bæði gamalt og nýtt Fortíð – aftur - framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan, sem kristin kirkja lifir stöðugt í og verður að þola. Þegar breytingar verða í mannlífi og samfélagi verður kirkjan að þola að opna dyr og gáttir en loka ekki að sér í fortíðarhyggju. Það getur auðvitað orðið afar pínlegt að ganga í sig og breyta. Umræðan um vígslu og blessun samkynhneigðra, sem verður á prestastefnu í vor og kirkjuþingi í haust er dæmi um átök sem varða sið og kall tímans, fortíð og framtíð. Það skiptir máli hvernig við dönsum í takt við tímann en ekki sama hvernig það er gert. Við eigum völ og kvöl.

Hvað viljum við með kirkjulífi okkar? Hvað um fortíðina, hvað um framtíðina? Ætlum við að vera bara í fortíðinni, hefðinni, gera það alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð Niðurstaðan er um fortíð og framtíð saman. Kristnin gengur út á fortíð, lítur til baka, tekur mið af sögunni, hefðinni, fortíðinni, en hangir ekki bara í fortíð heldur horfir fram, á að horfa fram, verður að opna, til þess sem Guð gerir, kallar okkur til, vill að við opnum augun gagnvart og veltum vöngum yfir hvernig við getum brugðist við í okkar eigin lífi, í kirkjunni, í samfélaginu. Okkar viðbrögð verða vera bæði að spanna fortíð og framtíð. Ef við erum bara annað hvort bregðumst við og erum óábyrg.

Ef Jesús hefði bara lifað í fortíð hefði hann aldrei farið upp til Jerúsalem. En hann var opinn og þorði. Því erum við hér í dag af því hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Lifði bæði af fortíð, en átti líka opið sinni gagnvart framtíðinni. Af þessu getum við lært. Aftur en líka fram. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð, sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Kannski fastar þú ekki þennan tíma, en farðu inn í þig. Hugsaðu um hvað er fortíð í þínu lífi, hverju má sleppa, hvað má missa sín. Er ekki eitthvað, sem eru bara leifar af fortíðinni, sem þarf að hverfa? Getur verið að nú sé komið að pistlinum í lífinu, að þú snúir þér 180° og opnir líf þitt mót framtíð, mót Guðskallinu? Til að geta lifað í núinu þarf kirkjan að lifa í fortíð og framtíð. Til að þú getir lifið í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð sem Guð kallar þig og aðra menn til. Gott líf er snúið úr fortíð og framtíð. Ef þú fylgir Jesú eftir á reisunni til Jerúsalem verður fastan til þess að þú  munt ekki svelta, heldur nærð að nesta þig fyrir ferð í tíma og eilífð. Amen

Hugleiðing flutt í Neskirkju, sunnudag í föstuinngangi, 18. febrúar 2007.

Lexían; Jes. 50. 4–10 Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum.
Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra. Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.

Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.

Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa. Fyrir því gjörði ég andlit mitt að tinnusteini, því að ég veit, að ég verð ekki til skammar.

Nálægur er sá er mig réttlætir. Hver vill deila við mig? Við skulum báðir ganga fram! Hver hefir sök að kæra á hendur mér? Komi hann til mín!

Sjá, hinn alvaldi Drottinn hjálpar mér. Hver er sá er geti gjört mig sekan? Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim.

Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.

 

Pistillinn: 1. Kor. 1. 18-25 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs. Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra. Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku? Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar. Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki, en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku, en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.

 

Guðspjallið: Lúk. 18. 31-34 Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa. En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.