Í morgunlestri þessa miðvikudags (Jóh 21.15-19) lesum við um það þegar Jesús felur Pétri afar mikilvægt verkefni. Þrisvar sinnum biður hann sömu bónar: Gæt þú lamba minna - ver hirðir sauða minna - gæt þú sauða minna!
Takið eftir því að hann spyr fyrst um afstöðu Péturs: Elskar þú mig Símon Jóhannesson? Hann spyr ekki um verk, ekki hvað Pétur sé búinn að gera heldur aðeins: Elskar þú mig? Það er eina forkrafan, ef forkröfu skyldi kalla. Og alltaf svarar Símon á sama hátt: Já herra, þú veist að ég elska þig.
Spurningunni sem beint er til Péturs er einnig beint til okkar: Elskar þú mig? Og ef svarið er „Já herra“ þá liggur verkefnið einnig ljóst fyrir: „Gæt þú sauða minna!“ Jafnvel þótt við séum sauðir sjálf er okkur falið hirðishlutverk. Við berum ábyrgð á náunganum.
Og í hverju felst þá þetta hirðishlutverk? Lúther sagði um að allir kristnir menn væru prestar í þeirri merkingu að þeir gætu stigið fram fyrir Guð og beðið fyrir náunga sínum.
Gæt þú sauða minna: Biddu fyrir náunga þínum!
Í skýringum sínum við Sálm 23 („Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta ...“) ræðir Lúther um hirðishlutverk Guðs. Það er hlutverk hirðisins að sjá til þess að sauðirnir hafi nóg að bíta og brenna. Hann leiðir þá í grösuga haga og verndar þá, gætir þess að enginn villist af leið. Hann leitar uppi þá sem týnast og hlúir að þeim sem eru ungir og veikburða, þjónar hinum sjúku, ber þá á örmum sér.
Gæt þú sauða minna: Hugsaðu um og þjónaðu náunga þínum!
Sem hirðar í þjónustu Guðs erum við þannig kölluð til tvíþættrar þjónustu hið minnsta: Við eigum að biðja fyrir heiminum og náunga okkar og við eigum að hlúa að honum, sinna um þá sem minnst mega sín, vernda þá sem eru veikburða.
„Elskar þú mig?“ spyr hann. „Já, herra, ég elska þig!“ „Gæt þú sauða minna!“