Sé horft yfir sviðið í umfjöllun fjölmiðla um samtíma okkar er áherslan öllu jafna á þau sem annarsvegar fara með völd í samfélagi okkar og hinsvegar þau sem skara framúr á sviði lista og íþrótta. Ráðamenn þjóða og forstjórar stórfyrirtækja fá verðskuldaða athygli sökum þess að ákvarðanir þeirra varða með beinum hætti líf almennings og við dáumst að hæfileikafólki vegna þess að það birtir möguleika mannsins í sinni skýrustu mynd.
Þessi áhugi manneskjunnar á völdum og hæfileikum er ævaforn og heimildir okkar um samtíma Jesú eru jafn litaðar af slíkum áhuga. Í stað bandaríkjaforseta er fjallað um rómarkeisara og í stað fótboltahetja fengu skylmingarþrælar og afreksmenn í íþróttum verðskuldaða athygli.
Sú samfélagsmynd sem birtist í þessum frásögnum af valdsmönnum og hæfileikafólki er hinsvegar býsna þröng og það má með sanni segja að okkur skortir heimildir um líf almennings á öllum tímum. Meirihluti fólks á tímum Jesú lifði við sára fátækt, og það hefur ekki breyst, en áherslan er jafnan á þau sem lifa við forréttindi í efnum eða aðdáun.
Samfélag manna verður hinsvegar ekki mælt útfrá völdum fárra eða dýrkun á persónum, heldur útfrá því hvernig komið er fram við þau sem minnst mega sín. Þó guðspjöll Nýja testamentisins séu í eðli sínu trúarrit en ekki sagnfræði, þá veita þau dýrmæta heimild um stöðu þeirra í hinu forna samfélagi sem stóðu halloka í lífinu. Ástæða þess er sú að ólíkt flestum persónum fornaldar, gaf Jesús þeim gaum sem minnst máttu sín, og tók þannig undir með þeim spámönnum Gamla testamentisins sem neituðu að hafa aðra mælistiku á réttlæti samfélagsins en velferð þeirra. Innflytjendur, ekkjur, fátækir og sjúkir opinberuðu verðmætamat samfélagsins og velferð þeirra er mælistika á réttlæti samfélagsins.
Í dag var lesin frásögn úr 7. kafla Lúkasarguðspjalls sem ætlað er að undirbúa opinberun Jóhannesar Skírara á eðli mannsonarins: ,,Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.” Í aðdragandanum eru fjölmargar frásagnir af lækningum, sem eru fyrst og fremst merkilegar fyrir það fólk sem Jesús læknar, fremur en kraftaverkin sjálf. Í frásögninni á undan er sagt frá rómverskum hundraðshöfðingja, sem leitar til Jesú eftir lækningu á ástmögur sínum, lækningu sem gengur þvert á fordóma samfélagsins í garð kynhegðunar útlendinga. Þá mætir Jesús konu sem er að jarðsyngja son sinn og reisir drenginn upp frá dauðum.
Í Jóhannesarguðspjalli er sambærileg frásögn en áherslan þar er á þá fyrirmynd sem kraftaverkið er páskaundrinu, upprisa Lasarusar vísar til upprisu Jesú Krists frá dauðum. Höfundur Lúkarguðspjalls gefur ekkert slíkt í skyn en áhersla hans er, eins og segir: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,” og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“ Þannig er Jesús spámaður að fyrirmynd Gamla testamentisins, sem lætur sig með beinum hætti varða aðstæður og sjúkleika útlendinga og ekkna. Í frásögninni er það tekið fram að drengurinn hafi verið einkasonur móður sinnar og hún ekkja, sem merkti í reynd að framfærslugrundvöllur konunnar var brostinn. Dauði drengsins er ekki í forgrunni, heldur aðstæður konunnar og frásögninni er því ætlað að varpa ljósi á þá stöðu sem hún stóð í í sorg sinni, allslaus og án möguleika á viðunandi lífskjörum.
Á sama hátt og samfélag Jesú er mælt á mælikvarða velferðar þeirra sem standa höllum fæti: blindum, höltum, líkþráum, og fátækum, stöndum við undir sömu mælistiku. Hversu mjög sem við höldum á lofti gæðum lands og þjóðar, verður íslenskt samfélag aldrei heilt nema við veitum öldruðum og öryrkjum mannsæmandi líf.
Ég naut þeirra forréttinda í gær að sitja aðalfund Öryrkjabandalags Íslands en það er bandalag þeirra hópa sem hafa fötlun eða eru að takast á við langvinn veikindi. Þó fundarmenn hafi þurft að umbera fundarsköp og formsatriði, líkt og er á öllum aðalfundum, var í salnum samstaða og sársauki sem þjóðin verður að taka mark á ef hún vill öðlast heilbrigði.
Margt af því sem heilbrigðum þykir sjálfsagt er fötluðum hindrun og þessvegna hafa Sameinuðu Þjóðirnarnar farið þá leið að útlista mannréttindi fatlaðra sérstaklega í Sáttmála sem samþykktur var 30. mars 2007 og Ísland undirritaði án fyrirvara. Í sáttmálanum er m.a. kveðið á um að það sé réttur fatlaðs fólks að hafa jöfn tækifæri til þátttöku í samfélaginu á við ófatlaða, að virða eigi ákvarðanarétt þeirra og tryggja þeim mannsæmandi lífsafkomu.
Á þeim sjö árum sem liðið hafa frá undirritun Sáttmálans hafa 151 þjóðríki innleitt hann í lög sín en Ísland er í hópi fjögurra Evrópuþjóða sem hafa ekki lögfest Sáttmálann. Það er óhætt að segja að við séum eftirbátar í samanburði við heimsbyggðina í mannréttindamálum fatlaðra.
Kjaramál öryrkja eru sístætt umræðuefni og það þykir varla fréttnæmt að öryrkjar búi við bág kjör á Íslandi. Fátækt þessa þjóðfélagshóps er samfélagsleg ákvörðun ekki lögmál og örorkugreiðslur á Íslandi duga ekki til mannsæmandi framfærslu. Aðalfundur sendi frá sér ályktanir þar sem fjárhagsleg staða öryrkja er dregin upp og á það bent að enn er sótt að þessum hópi með bótaskerðingum og auknum álögum við nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
Það er sannfæring mín að samfélag sem lætur sig ekki varða kjör og aðstæður örykja, getur ekki talist byggja á kristnu siðgæði. Jesús greindi samfélag sitt útfrá aðstæðum þeirra sem stóðu höllum fæti í sínu samfélagi og það er skylda okkar, sem saman játum eftirfylgni við hann, að láta okkur varða aðstæður þeirra.
Í boðun Jesú um mikilvægi þess að láta sig varða kjör og veikindi samferðafólks býr sú samfélagsvitund að öll getum við orðið að reiða okkur á stuðningsnet samfélagsins, tímabundið eða varanlega. „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.”
Ályktanir aðalfundar Öryrkjabandalagsins eru ekki forsíðufrétt, enda krafan um mannréttindi fatlaðs fólks og mannsæmandi kjör svo kunnugleg að það er auðvellt að láta sig ekki umræðuna varða. Krafan hefur hinsvegar heyrst í kristnum samfélögum frá spámönnum Gamla testamentisins og í boðun og framgöngu Jesú frá Nasaret og við höfum því enga afsökun fyrir forgangsröðun okkar. Íslenskt samfélag verður einungis metið á grunni velferðar þeirra sem minnst mega sín og því ber okkur leggja við hlustir og leggja okkar af mörkum til að reynast kristnar manneskjur.