Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hin mæddu með orðum mínumHann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra. Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan ...Jesaja 50:4-5
Gleðilegan konudag, kæri söfnuður, gleðilega góubyrjun og inngang föstu. Víða um heim eru haldnar kjötkveðjuhátíðir þessa dagana með öllu því sem slíku fylgir, til þess síðan að ganga inn í föstutímann með iðrun í huga – og vonandi hjarta. Hérlendis hefur bolludagurinn okkar góði verið að færast yfir á helgina með tilheyrandi hitaeiningasukki, en óvíst hve lengi saltkjötsátið á sprengidag heldur velli. Á öskudaginn gleðjumst við svo með börnunum sem bregða sér í hin ýmsu gerfi, misfögur reyndar, og betla gotterí í búðunum.
Góan er næstsíðasti vetrarmánuðurinn að hinu forníslenska tímatali. Er máltækið “að þreyja þorrann og góuna” til marks um að þessir mánuðir hafa þótt hinir erfiðustu á ísa köldu landi. Þótti enda ástæða til að blíðka Góu, sem samkvæmt goðsögninni var dóttir Þorra. Tengist nafnið að öllum líkindum gríska orðinu khion, snjór, og latneska orðinu hiems, vetur, að því er segir í Sögu daganna Árna Björnssonar (bls. 499n). Sumar heimildir geta þess að fyrsta góumorguninn skyldu húsfreyjur fara á fætur á undan öðru heimilisfólki, ganga í kring um bæinn, þrisvar sinnum, segjandi:
Velkomin sértu, góa mín, Og gakktu inn í bæinn; Vertu ekki úti í vindinum Vorlangan daginn.
Heitið konudagur er kunnugt frá miðri 19. öld, en eitthvað skiptist það eftir landshlutum hvort eiginmaðurinn skyldi gera konu sinni gott á þennan dag eða húsfreyja sjálf sjá um veitingar. Í samtímanum hefur konudagurinn skipað sér á bekk með öðrum blómasöludögum, t.d. mæðradeginum og nú síðast Valentínusardeginum.
Baráttudagar kvenna eru með öðru sniði, sá íslenski 19. júní, en alþjóðlegur baráttudagur er haldinn 8. mars. Þá má ekki gleyma Alþjóðlegum bænadegi kvenna, sem ávallt er fyrsta föstudag í mars, nú 2. mars, og hefur verið haldinn hér á landi samfellt í um fjörtíu ár og fyrir þann tíma af og til frá fyrri hluti 20. aldar.
Er baráttunni gegn ofbeldi lokið?
Af og til heyrast þær raddir að á jafnréttistímum sé engin þörf á sérstökum dögum fyrir konur. Þeim mannréttindum sem kvenréttindakonum fannst á vanta fyrir sig og kynsystur sínar hafi verið náð og baráttunni lokið. - Víst eru aðstæður á Íslandi orðnar nokkuð góðar, þó skýrslur sýni t.d. að enn vanti á að sömu laun séu greidd fyrir sömu vinnu. En það er ekki það alvarlegasta, þó eðlileg krafa sé. Mun alvarlegra er það ofbeldi sem viðgengst, jafnvel meðal þjóðar sem metur mannréttindi meðal sinna æðstu gilda.
Það ofbeldi sem við höfum heyrt um í fjölmiðlum síðustu vikur hefur beinst gegn tveimur þjóðfélagshópum, konum sem fyrir stóðu höllum fæti og ungum drengjum sem áttu hvergi athvarf. En við vitum að ofbeldið er víðar og því miður mest innan helgasta vés fjölskyldunnar, heimilinu. Slíkt ofbeldi, sem oftar en ekki er í garð kvenna og stúlkna, fer ekki í manngreinarálit, heldur á sér stað í öllum þjóðfélagshópum.
Ein tegund ofbeldis kemur berlega fram í fjölmiðlaumræðunni. Það er sú orðræða, sem vísvitandi gerir lítið úr konum og erfiðum aðstæðum þeirra. Slíkt er ekki mönnum sæmandi, allra síst þeim sem gegna leiðtogahlutverkum. Þá er gott að vita til þess að aðrir eru tilbúinir að berjast gegn hinu kynbundna ofbeldi, sem m.a. kemur fram í klámvæðingunni. Nefni ég sérstaklega borgarstjórann í Reykjavík og iðnaðarráðherra í því sambandi, en þessir menn hafa gengið fram fyrir skjöldu og vilja leita leiða til að afstýra því að klám-stefna verði haldin hér í grenndinni eftir nokkrar vikur.
Rödd fyrir hin raddlausu
Mér barst á dögunum í hendur lítil bók sem ber heitið “a voice for the voiceless”, rödd fyrir hin raddlausu. Á hverri opnu gefur að líta listavel tekna ljósmynd af konu eða barni ásamt texta sem greinir frá ómannúðlegum aðstæðum og segir sögu úr hversdegi kvenna um heim allan. Í lokin er ritningarvers og hvatning til bæna og verka í samræmi við umfjöllunarefnið, en alls eru 30 opnur í bókinni, ein á dag í mánuð.
Ég hef lesið í þessari bók nánast daglega síðustu vikurnar og umfjöllunarefnið er sláandi. Margt af því sem þar kemur fram vissi ég fyrir, en efnið er áskorun til að láta sig málið varða, hætta að leyfa fréttunum að líða hjá óáreittum, heldur bretta upp ermarnar og bregðast við með einhverjum hætti.
Þarna er umfjöllun um mörg erfiðustu málefni nútímans eins og barnavændi, alnæmi, heimilisofbeldi, fóstureyðingar, stöðu kvenna í flóttamannabúðum, átraskanir, Purdah (slæða múslimakvenna), þrælkunarvinnu kvenna, sifjaspell, ófrjósemi, klám, sjálfsmorðsárásir framkvæmdar af konum, hungur, mansal eða verslun með konur og börn, limlestingu kynfæra stúlkubarna, unglingamæður, heiðursmorð, vændi, stríð, nauðgun, heimanmund, týndar konur, menntun, einstæðar mæður og þrældóm. Sérstaklega er fjallað um nokkur lönd og heimsálfur, þar sem staða kvenna er mjög viðkvæm, Pakistan, Kína, Afganistan, Afríku og Íran.
Sameiginlegt með flestum sögum kvennanna sem þarna eru sagðar er hin skelfilega misbeiting valds sem kemur fram í verknaðnum nauðgun – þar sem líf og sál konunnar er fótum troðin og virðingu hennar sem manneskju hent á haugana. Nauðgun getur verið bæði orsök og afleiðing ægilegra aðstæðna; orsök á þann hátt að iðulega fylgja aðrar hörmungar í kjölfarið, svo sem átröskun og ýmis röskun á kynferðissviðinu, eins og við lásum um í blaði gærdagsins; afleiðing þar sem vissar aðstæður eins og stríð, þrælkunarvinna og hungursneyð auka á hættu kvenna og barna að verða fyrir ofbeldi.
Í vikunni áttum við samtal um þessi mál, prestarnir og nokkrir úr messuhópnum sem hér þjónar í dag. Þar kom fram sjónarmið sem mér finnst afar athyglisvert – að ofbeldi gegn konum verði ekki upprætt fyrr en karlar taki málið að sér. Ekki svo að skilja að barátta kvenna skipti ekki máli, en körlum ber að sýna samstöðu og meira en það, hafa forgöngu um að uppræta meinið úr eigin hópi.
Spádómur inn í samtímann
Í ritningartextum dagsins eigum við fund við hann, sem öðrum fremur varðaði veg lausnar undan ofbeldi – með því að ganga hann sjálfur. Jesaja-textinn lýsir einelti, illsku og ofbeldi, sem Jesús Kristur gekk í gegn um, okkar vegna. Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum (Jes. 50.6).
Björgin verður hinum smáða viðhorf hans, traust hans til Drottins (v. 7,8, 10): Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér... Nálægur er sá er mig réttlætir... Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.
Þessi vers kalla fram í hugann vitnisburð eins af fórnarlömbum þess ofbeldis sem viðgekkst í skjóli hins opinbera í Breiðuvík á síðustu öld. Frásögn hans af hinum helga stað í hjartanu, þar sem Jesús Kristur var og ekkert vont gat komist að, og hvernig hann hélt sér í fingur frelsarans á meðan á ofbeldinu stóð lætur engan ósnortinn. Svipaða sögu hafa blökkukonur í Bandaríkjunum sagt.
Versin hjá Jesaja um að láta ekki háðungarnar á sér festa og gera andlit sitt að tinnusteini hitta einnig beint í mark, því hver sem treystir Guði veit að skömmin er ekki þolandans – heldur gerandans. Sektin er ekki fórnarlambsins heldur ofbeldismannsins, þó vissulega sé þeim veruleika oftar en ekki snúið á haus.
Og um þá sem verknaðinn fremja gilda þessi framtíðarorð spámannsins: Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim.
Þannig talar þessi árþúsunda gamli spádómstexti beint inn í samtímann, bæði þann veruleika sem Jesús tók út á sínu blóðgaða baki og veruleika fólks í dag, einkum barna og kvenna sem verða fyrir barðinu á illsku mannanna.
En það eru upphafsorð lexíu dagsins sem ég vil draga sérstaklega fram (Jes. 50.4-5): Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hin mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra. Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan...
Við þurfum að biðja Guð um að vekja eyru okkar á hverjum morgni, vekja skynjun okkar fyrir hrópum hinna raddlausu, þeirra sem ekki fá borið hönd yfir höfuð sér, þeirra sem eru læst í ömurlegum aðstæðum mansals, þrælkunar, vændis, ofbeldis og kláms. Við verðum að biðja Guð um betri eftirtekt, um skýrari heyrn á kall hinna hjálparlausu – að við tökum eftir eins og lærisveinar gera, þversköllumst ekki, færumst ekki undan baráttunni gegn misbeitingu hverskonar.
Að fylgja Jesú á þjáningargöngunni
Á sunnudegi í föstuinngang heyrum við Jesú segja lærisveinunum fyrir um þjáningu sína, dauða og upprisu (Lk 18.31): ... mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. 32. Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. 33. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa.
Jesús býður vinum sínum að slást í för með sér á þrautagöngunni, það er ekki val heldur sjálfsagt mál (Lk 18.31-33): Nú förum vér upp til Jerúsalem...
Sama segir hann við okkur:
Nú förum við saman þjáningargönguna, ég og þið, og sláumst í för með þeim sem líða vegna illsku mannanna. Lokið ekki augunum fyrir þeim sem hafa verið framseld, lokið ekki eyrunum fyrir hæðni mannanna í garð systra ykkar og bræðra. Opnið veru ykkar fyrir hinum misþyrmdu, þeim sem hefur verið hrækt á. Sýnið samstöðu með hinum húðstrýktu, farið fram gegn aftökum og dauðarefsingu. Komið með mér, lærið af mér, og ég mun gefa ykkur kjark til að gefa af lífi ykkar til þeirra sem skortir líf.
Og allt miðar þetta að upprisunni, þjáningin er ekki án tilgangs. Hún á ekki tilgang í sjálfri sér – og því eigum við að berjast gegn henni - en við getum gefið henni tilgang með því að festa augu okkar á Drottinn, á lífið, á upprisuna og þá mun ekkert bíta á okkur.
Gerum versið gamla að okkar orðum í dag, á konudaginn, með hinu hlýlega íslenska ávarpi “góan mín” til allra kvenna, barna og karla sem þjást í þessum heim og bjóðum þannig hin hröktu, hrjáðu og smáðu velkomin inn í veröld okkar:
Velkomin sértu, góa mín, Og gakktu inn í bæinn; Vertu ekki úti í vindinum Vorlangan daginn.