Vinaheimsókn

Vinaheimsókn

Í samfélagi þar sem allir eru að eltast við sjálfan sig og sínar langanir verður kirkjan ef hún vill láta taka sig alvarlega að sinna vinaheimsóknum. Heimsóknum til þeirra sem eru aldraðir og oft á tíðum félagslega einangraðir. Því ber að fagna ályktun kirkjuþings um Vinaheimsóknir en það má ekki vera orðin tóm heldur þarf hver söfnuður að taka til í sínum eigin ranni og annaðhvort byrja á eða efla þessa þjónustu.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
30. október 2006

Í samfélagi þar sem allir eru að eltast við sjálfan sig og sínar langanir verður kirkjan ef hún vill láta taka sig alvarlega að sinna vinaheimsóknum. Heimsóknum til þeirra sem eru aldraðir og oft á tíðum félagslega einangraðir. Um langt árabil hefur Árbæjarsöfnuður haldið úti starfi með öldruðum einstaklingum og vinaheimsóknum sem lengi vel var kallað “Heimsóknaþjónusta” sem jafnframt kallaði á að misskilja þjónustuna. Heimsóknaþjónustan væri allt frá því að fara út að versla, keyra viðkomandi til læknis, setja þvott í þvottavélina og þannig er lengi hægt að halda áfram. Þannig að orðið “heimsóknaþjónusta” var lengi vel að þvælast fyrir fótum þeirra sem nutu þjónustunnar. Orðið “vinaheimsókn” er fallegt orð. Til þess að það verði ekki bara fallegt orð þarf að sinna þessum málum af alúð og myndugleika.

Fyrir 17 árum eða svo var farið að stað með þessa þjónustu í Árbæjarkirkju. Sr. Guðmundur Þorsteinsson fyrrverandi dómprófastur og sóknarprestur í Árbæjarsöfnuði kom þessari þjónustu á sem í dag kallast vinaheimsókn. Strax frá byrjun var ákveðið að sá eða sú sem sinnti þessu safnaðarstarfi yrði launaður starfsmaður. Í fyrstu var einn starfsmaður sem sinnti þessu mikilvæga starfi Vilborg Edda Lárusdóttir. Fljótlega kom í ljós að full þörf var á þessari þjónustu með þeim misskilningi sem greint er frá hér að ofan. Með ástúð og elju starfsmannsins tókst smátt og smátt að koma þeim sem nutu þjónustunnar og þeim sem tengdust viðkomandi einstaklingi fjölskylduböndum í skilning um að þetta væru heimsóknir til að rjúfa félagslega einangrun sem byggðist á samtali og á stundum að koma málum ef um algjöra einstæðinga væri að ræða í viðunandi horf.

Frá fyrstu tíð hefur verið gott samstarf á milli kirkjunnar og heilsugæslunnar í Árbænuym og félgasþjónustunnar hvað varðar skjólstæðinga. Samstarfið hefur einkum legið í því að benda á hvar væri þörf á vinaþjónustu kirkjunnar og öfugt þ.e.a.s. starfsmenn kirkjunnar koma boðum um heilsutengd mál til heilsugæslunnar og eða þegar félagsleg vandamál eru það yfgripsmikil að það er ekki í hendi kirkjunnar að ráða bót á. Í dag eru starfandi tvær konur í vinaheimsóknum Árbæjarsafnaðar, áðurnefnd Vilborg Edda og Margrét Snorradóttir.

Hvernig hefur verið staðið að því að halda úti þessum heimsóknum órofið öll þessi ár. Þá er því til að svara í fyrsta lagi er það ekki allra að starfa við “vinaheimsóknir” þetta er krefjandi starf og þarf að gefa mikið af sér. Það þarf að vanda valið á starfsfólki. Það má ekki vera mikil starfsmannavelta. Aldraðir vilja og þurfa að hafa reglu á hlutunum að ekki sé alltaf ný og ný andlit að birtast. Það tekur tíma að vinna traust viðkomandi skjólstæðings. Í öðru lagi verður kirkjan (sóknarnefnd prestur/ar, djákni) að vera samstíga í að gera “jarðveginn” ásættanlegan fyrir þeim sem sinna þessu mikilvæga starfi kirkjunnar með því að styðja vel við bakið á þeim. Í upphafi þessa starfs í Árbæjarsöfnuði var ákveðið að fara ekki leið sjálfboðaliðastarfsins. Eflaust getur það gengið upp og gerir eflaust einhverstaðar en við fórum þá leið að hafa starfsmanninn og síðar starfsmenninna launaða.

Mikilvægt er að vanda vel til í upphafi með því er betur tryggt að áframhaldið verði farsælt. Það er betur heima setið og gera ekki neitt í þessum mikilvæga málaflokki mannræktar kærleiksþjónustu kirkjunnar heldur en að byrja með einhverjum látum og síðan ekkert.

Við byrjuðum smátt með fáa einstaklinga en þörfin hefur vaxið og kirkjan jafnframt aukið vöxt starfsins í samræmi við það. Við vitum nákvæmlega hvar skóinn kreppir og með þá vitneskju tökum við á vandanum sem upp kemur og leysum úr honum í samstarfi margra. Ber því að fagna ályktun kirkjuþings um “Vinaheimsóknir” en látum það ekki vera orðin tóm heldur hver söfnuður taki til í sínum eigin ranni og annaðhvort byrji á eða efli þessa þjónustu. Það hefur verið lengi þörf fyrir þessa þjónustu og ef ekki í dag hvenær þá.