Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar

Gleðin er ein af Guðs góðu gjöfum, en á stundum gleymum við bæði að þakka hana og þiggja. En gleðin stendur þó ávallt fyrir sínu.
fullname - andlitsmynd Bryndís Malla Elídóttir
23. apríl 2020

Gleðilegt sumar

 

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. 

Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. 

Drottinn er í nánd.“ Fil. 4:4-5

 

Ég var alltaf vön að fá sumargjöf sem barn. Oftar en ekki var það eitthvað sem ég gat leikið mér með eða notað yfir sumarmánuðina. Sumargjöfin vakti alltaf eftirvæntingu og gleði. Það var dýrmætt að finna fyrir árstíðarskiptunum þó oft hafi enn verið stinningskaldi úti fyrir. Já þó í minningunni hafi ávallt verið kalt í skrúðgöngunni á sumardeginum fyrsta er samt bjart yfir deginum. Þetta er vonarríkur dagur í lok apríl, dagur þar sem við fögnum komandi sumri og berum á milli okkar þessa fallegu kveðju sem við eigum, gleðilegt sumar. 

 

Í Biblíunni erum við víða hvött til þess að gleðjast og fagna. Í Filippíbréfinu erum við ítrekað hvött til þess að vera glöð, vera ávallt glöð í Drottni. Það er auðvelt að fallast hreinlega hendur gagnvart slíkri hvatningu þegar erfiðleikar, ótti, sorg og áhyggjur fylla rúmhelgi dagsins. En hvatningin um gleðina stendur hins vegar ekki ein og sér í Biblíunni, það er ekki verið að leggja enn eina skylduna á okkur eða enn eitt boðorðið sem við eigum að fylgja óháð öllu öðru. Gleðin sem Biblían hvetur okkur til þess að leita og finna er gleðin sem við eignumst í samfélagi við Jesú Krist. „Verið ávallt glöð í Drottni“ því „Drottinn er í nánd“, það er hjá honum og með honum sem við finnum þá gleði sem geymir annað og meira en skemmtun stundarinnar. Gleðin sem Guð gefur birtist mitt á meðal okkar í því samfélagi sem við eigum og njótum. Það var erfitt á fordæmlausum tímum að fagna páskum án þess dýrmæta samfélags sem við eigum í kirkjunni. En jafn mikilvægt var þá að minna sig á þann samnefnara sem við eigum og tengir okkur saman í páskagleðinni og nær svo langt út fyrir rými kirkjuhússins. Gleði upprisunnar sem við njótum nú saman á gleðidögum kirkjunnar kemur í kjölfar þjáningarinnar, sorg breyttist í gleði, ótti og örvænting viku fyrir undri upprisunnar. Þau sem komu að gröf frelsarans höfðu gengið í gegnum miklar þjáningar og lifað þunga sorgardaga.  Gleðin sem engillinn boðaði þeim við sólarupprás hinn fyrsta dag vikunnar þurrkaði ekki út daga sorgarinnar sem sett höfði mark sitt á þau. Eins lítur gleði okkar í dag ekki fram hjá þjáningunni og þeim miklu erfiðleikum sem undanfarnar vikur skilja eftir.  En gleðin stendur þó ávallt fyrir sínu.  Hún mætir okkur í þeirri trú að Guði er ekkert um megn, hann sem reisti son sinn upp frá dauðum gefur okkur dag hvern að finna þá gleði sem býr í kærleika hans og miskunnsemi og þeirri náð sem er ný á hverjum morgni. 

 

Gleðin er ein af Guðs góðu gjöfum, en á stundum gleymum við bæði að þakka hana og þiggja. Oft kann okkur að finnast að gleðin hljóti að búa fyrst og fremst í okkar eigin mætti þar sem hún býr jú innra með okkur og dyr hennar opnist mun betur innan frá en utan. En dyr gleðinnar sem opna okkar leið mót birtu blessunarinnar standa í rými trúarinnar, þar sem Guð hefur fundið sitt rými innra með okkur og þar sem kærleikur hans vex og dafnar. Þetta sjáum við og finnum einna best í þeirri staðreynd að hvort tveggja, gleðin og kærleikurinn berast svo auðveldlega og eðlilega á milli okkar. Um leið og við opnum fyrir kærleika Guðs í lífi okkar þá hleypum við gleðinni að sem gefur af sér þá náð og blessun sem við njótum í lífi okkar. Hátíðisdagar okkar eiga allir ósk sína og bæn um gleði rétt eins og við óskum nú hvert öðru gleðilegs sumars.  Aldrei er sú ósk dýrmætari og sterkari en einmitt á óvissutímum eða þegar á reynir. Því um leið og við óskum hvert öðru gleði á tímamótum og hátíðardögum þá erum við að bera fram þá vongleði sem við trúum á.  Að hvernig sem dagarnir muni reynast okkur, hvernig sem sumarið kann að verða, þá verður aldrei gleðin tekin frá okkur. Ekki sú gleði sem samfylgd með Guði gefur og fagnaðarerindið færir okkur.  Við þörfnumst gleði umfram svo margt annað sem lífið ber með sér.  Og við þörfumst þeirra gjafa sem gleðin veitir okkur og þeirrar blessunnar sem hún leiðir fram í lífi okkar.  Aldrei þurfum við jafn mikið á góðri sumargjöf að halda en einmitt eftir þungan og erfiðan vetur eins og við kveðjum nú og falleg er sú sumargjöf sem bíður okkar allra með bæði hækkandi sól og hitastigi.  Krókusarnir gefa okkur til dæmis sína gjöf er þeir teygja sig upp úr moldinni og tjaldurinn sömuleiðis sem tignarlegur heilsar okkur og tekur undir ósk okkar um gleðilegt sumar.  Megi Guð gefa okkur öllum gleði sína og blessun á komandi sumri. 

 

Bryndís Malla Elídóttir