Himinfleki og krossfesting

Himinfleki og krossfesting

Allur harmur heims er umfaðmaður í krossfestingunni. Við erum í Jesú og Jesús í okkur öllum. Boðskapur hans, ást hans á lífinu, sköpuninni, mannfólkinu er ást Guðs til okkar allra, hvernig sem við erum og hvers litar sem við erum.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
20. nóvember 2015

Yfir höfðum fólks í Hallgrímskirkju er fljúgandi himinfleki. Ský og blámi eru tákn um himinn ofar hvelfingum og þaki. Himinnflekinn eiginlega opnar hvelfingu kirkjubyggingarinnar og hjálpar okkar að sjá ofar og víðar en venjulega.

Helgi Þorgils Friðjónsson málaði þennan stóra fleka í tilefni af 100 ára afmæli Kristnitökunnar og kom fyrir á klettaveggnum í Stekkjargjá á Þingvöllum, rétt hjá Öxarárfossi. Mér þótti þá ólíklegt að verkið þyldi stórviðri og veðurbreytingar á Þingvöllum og átti helst von á að skiliríið myndi fjúka burt eins og flugdreki.

Tilgangur Helga Þorgils með því að hengja himinmynd á bergvegginn var að opna klettinn. Mörg okkar höfum lesið sögur úr safni þjóðarinnar um lífið í klettunum, verur sem búa þar og hafa afskipti af mönnum og mannheimum - og skv. sögunum hafa menn hafa tengst þessum veröldum með ýmsum hætti. Helgi Þorgils setto himinn á klettinn, opnaði hann, náði að minna á að jafnvel grjótveröld er mikilvægur heimur - og svo er náttúran - og steinarnir þar með - eitthvað sem við menn berum ábyrgð á og ber skylda til að virða og fara vel með.

Himinflekinn brotnaði ekki og fauk ekki út í buskann. Þegar sýning Helga var sett upp fyrir kirkjulistahátíð í ágúst var þessi táknmynd himins fest upp yfir höfðum allra sem ganga hér inn. Og þar með minnir flekinn okkur á möguleika og opnun. Hér er opinn himinn eins og kletturinn varð himneskur á Þingvöllum.

Fimm krossfestingar

Fyrir augum okkar innst í kórnum er svo krossfestingarmynd sem hefur verið hér jafnlengi og himinflekinn. Stundum hefur verið spurt. „Hver þeirra er Jesús Kristur?“ Og svarið er að þeir eru allir Jesús Kristur. Myndirnar eru endurvinnsla á krossfestingarmyndum kunnra málara. Listfræðilega og listasögulega er þetta einstakt myndlistarverk því krossarnir fimm á fjórum flekum snertast og skararast. En það er þó ekki hið merkilegasta heldur að allar myndirnar eru af sama andlitinu. Helgi Þorgils málar gjarnan eigin portrett - eigin sjálfsmyndir. Þetta er kannski einbeittasta “selfie” - sjálfuverk listasögunnar? En verkið sprengir þó hið einfalda því sjálfu-myndir Helga Þorgils eru sjaldnast aðeins mynd af honum. Sjálfsmyndirnar eru fremur mynd af öllum, konum og körlum, öllu mannkyninu. Krossfestingarmyndin er því af mennskunni, okkur öllum og einnig Jesú Kristi. Allar krossfestingarmyndir heimsins eru slíkar myndir. Jesús Kristur var ekki hengdur upp á krossinn sem einstaklingur og aðeins á eigin vegum. Hann var negldur á kross í stað annarra, fulltrúi allra manna. Hann er maðurinn - staðgengill allra og tjáning allrar mennsku. Svo er hann í augum trúarinnar Guð-maðurinn sem allt leysir og allt opnar - kletta og klungur náttúru, sögu og alls lífs.

Á þessum sorgardögum í kjöfar morðanna í París hefur þessi mikla krossfestingarmynd orðið mér augnhvíla. Ég hef horft á hana, hugsað um fólkið sem féll, sem var eins og krossfest af trylltum ofbeldismönnum. Þau eru þarna í Jesúmyndunum - og mannkynið allt, við öll. Jesús Kristur er í örlögum þeirra einnig. Hann er sprengdur og skotinn og hann er í því lífi sem þeim er gefið að baki dómi alls lífs. Allur harmur heims er umfaðmaður í krossfestingunni. Við erum í Jesú og Jesús í okkur öllum. Boðskapur hans, ást hans á lífinu, sköpuninni, mannfólkinu er ást Guðs til okkar allra, hvernig sem við erum og hvers litar sem við erum. Fimmkrossfestingarmyndin hefur orðið mér hugarfró.

Krossfesting og himinmynd

Augun hvarfla aftur frá krossfólkinu í kór Hallgrímskirkju og upp til himinflekans. Hann er tákn um það sem við erum og einnig vona okkar. Við sem erum krossfólk veraldar, fólk Jesú Krists, erum kölluð til ábyrgðar í kjölfar voðaverka í París, Beirut, Sýrlandi - allra viðburða og átaka. Okkar er að vera fjölskylda mennskunnar í heiminum og bygggja frið þrátt fyrir glæpi. Okkar köllun er að ryðja burt hindrunum til að friður megi ríkja, fólk megi lifa og njóta lífs. Það er kraftaverk lifandi trúar að klettar opnast - hvelfingar verið himneskar og mannfólkið friðarfólk.

Jesús sagði: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“

Amen

Íhugun, kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 19. nóvember, 2015.