Dagarnir líða. Dagur óvissu. Dagur vonar. Dagur atvinnumissis. Dagur nýrra tækifæra. Dagur sigra og ósigra. Dagar sem bera með sér spurningar um það sem er satt og það sem er logið, það sem er raunverulegt og það sem er tilbúið. Spurningar um hið ytra og hið innra. Okkur leyfist að sjá yfirborðið en hið innra er falið. Jafnvel opinberar heimsóknir til hins innra sýna ekkert nema ytra byrði. Innlit snýst líka um útlit.
Í dag er öskudagur. Birtingarmynd öskudagsins 2009 er hin sama og mörg undanfarin ár. Þar hefur ekkert breyst. Hún er sett saman úr skrautlegum búningum, barnasöng og sætindum, og kannski verður sérstök frétt um danskan sið á Akureyri með kött og tunnu. Þó er enginn köttur lengur í tunnunni. Bara meiri sætindi.
Hversu margir skyldu setja öskudaginn í trúarlegt samhengi? Fjörutíu virkir dagar til páska. Fasta. Passíusálmar á rás eitt Ríkisútvarpsins. Ef til vill það eina sem minnir opinberlega á föstuna. Minnstu þess að þú ert duft eitt og hverfur aftur til jarðarinnar. Hver vill svo sem vera minntur á það? (Sálm.90.3) Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Tilefni Öskudagsins er ekki saklaus eftirlíking af kjötkveðjuhátíðum fjarlægra þjóða. Ytri umbúnaður, glys og glaumur. Tilefni öskudagsins er iðrunin. Tákn hennar er askan. Tilefnið leitar hins innra. Ekki hins ytra. Hið ytra er oftar ekki leikur að blekkingunni. Feluleikur raunveruleikans. Askan er táknið um forgengileikann, og táknið um iðrunina. Tímanna tákn. Öskukross á enni í helgidóminum. Aðeins það orð er satt sem endurómar í dýpstu sálardjúpum þess sem mælir. Iðrun er fædd hið innra. Sönn iðrun, fædd í undirdjúpum persónunnar leitar yfirborðsins og breytir því. Í því útliti felst innlit. Sá sem iðrast birtir sannleikann um sjálfan sig og þorir að horfast í augu við hann, þorir að skyggnast inn í djúp sálarinnar. Iðrunin er einkenni trúarinnar. Eins og sakramentin.
Í kirkjuskipan þeirri sem samþykkt var við upphaf lútersks siðar á Íslandi er ritað:
En af Christo eru innsett tvö Sacramenta hver vér köllum helganir. Skírnin og kveldsnæðingur vors Herra. Þessum verður tillagt hið þriðja iðranin, nær að einn syndugur maður viðurkennir sjálfan sig og angrast af sínum villudómi og synd meðtakandi aflausnina fyrir guðspjallið og aftur hverfur til þess sáttmála sem hann hefur við Guð gjört í skírninni.
Á þessum dögum falla orð eins og þessi: Ég hef ekkert að fela.
Hver hefur ekkert að fela?
Það er sagt um fésbókina að hún birti mjög nánar persónuupplýsingar um einstaklinga, en hvorki upplýsingar um tengsl persónunnar við annað fólk né við eigið sjálf. Það einlæga innlit sem boðið er til, sé einungis útlit. Opinbert einkalíf. Tilbúin mynd.
Erindi öskudagsins er tilboð um langa gönguferð um króka og kima persónu þinnar. Opnuðu allar vistarverur, allar hirslur, líka þær læstu. Líka þær sem hafa engan sjáanlegan lykil. Þú veist hvar hann er falinn. Enginn annar. Og ef þú þorir ekki að fara þangað inn ein(n), taktu þá einhvern með þér.
Um það gildir það sem Hallgrímur segir í Passíusálmunum:
Freisting þung ef þig fellur á forðastu einn að vera þá. … Huggun er manni mönnum að, miskunn Guðs hefur svo tilskikkað. (PS. 2.10)
Erindi öskudagsins er tilboð um langa gönguferð í fjörutíu daga til Jerúsalem. Gönguferð andlegrar iðju með Jesú sjálfum. Það er hin sanna fasta. Fasta er hreinsun og iðrun. Ekki matur og drykkur eða aðrar nauðþurftir, heldur tími með Kristi og tími fyrir hann.