Með fegins fregn ég kem: Fæðst í Betlehem Blessað barn það hefur Er birtir Guð á jörð
orkti Björn Halldorsson í Laufási og við syngjum á hverjum jólum...
Það er mikil Guðs náð að geta lifað sig inn í fæðingarfrásöguna eins og hún birtist í Lúkasi og séð ,,anda sínum nær” þó liðnar séu aldir tvær Maríu og Jósef á ferð sinni. Hún þunguð, lestin silast áfram– og hún fæddi í fjárhúsi son sinn frumgetinn vafði hann reifum og lagði í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. Það er mikil Guðs blessun að geta –ef svo má segja- andað sig inn í söguna. Séð fyrir hugskotssjónum sínum hirðana út í haga, trúað því að engill Drottins hafi staðið við hlið þeirra og sagt þeim að frelsari væri fæddur og séð fyrir sér að með englinum var í sömu svipan fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð í upphæðum og boðuðu frið á jörðu og velþóknum Guðs. Og hirðarnir vegsömuðu Guð eftir að hafa litið barnið augum.
Við sjáum þetta í anda og hefjum upp raust vora ung sem aldin:
,,Í Betlehem er barn oss fætt Því fagni gjörvöll Adams ætt”
Því þetta er gleðiboðskapur. Skapari heimsins, sjálfur Guð almáttugur sendir barn sitt til okkar mannannna ,,til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf”. Litla barnið er útrétt Guðs sáttarhönd, náðarhönd til okkar manna. Þess vegna er ,,glatt í döprum hjörtum” eins og Valdimar Briem sálmaskáldið stórkostlega kemst að orði. ,,Lífsins sól” ljómar í myrkrinu og sálmaskáldið þakkar í sálmi sínum Guði fyrir Gleðileg jól. Og þó að skáldið á Stóra Núpi hafi öðrum þræði verið að vísa í storma lífsins þegar hann vísar til þess að úti geysi stormur stríður, vísi í þjáningar, barnadauða, vonbrigði, óréttlæti, hungur og stríð- allt sem fer úrskeiðis í mannheimi – og við þekkjum úr eigin lífi eða af afspurn, þá er hann ekki síður að vísa í hinn kalda vetur er geisar útifyrir – hríð og dimmu- ,,Er vetrar geisar stormur stríður/þá stendur hjá oss”, líkt og hjá englinum forðum, ,,friðar engill blíður”. Já, þó að nóttin sé köld og dimm er ekkert að óttast.
Gömlum presti er það orðið ósjálfrátt að leggja út af fæðingarfrásögunni á jólunum og velta því fyrir sér hvað hún þýði fyrir líf okkar og samtíð. Okkur er það tamt að tala um hin góðu gildi sem felast í þessari mögnuðu frásögn, í fæðingu jesúbarnsins og umgjörð allri. Þetta er gott og gilt. Við drögum fram kærleikann og umhyggjuna, en fæðingarfrásöguna verður samt fyrst og fremst að innbyrða eins og fallegt ævintýri, gefa sig henni á vald, byrja á því sem barn og svo á hverjum jólum út æfina. Hún verður þá ein af þeim fáu sögum sem fylgja manni alla ævitíð. Við heyrum hana frá unga aldri í friðsæld foreldrahúsa þegar allt er orðið kyrrt og hún sest inn – verður hluti af gleði okkar en einnig hluti af vírusvörnum okkar, eitt af haldreipum lífsins – við vitum ekki alltaf röklega hvernig – en hún segir okkur að heilög forsjón standi vörð um okkur. Það er því full ástæða til þess að gleðjast, rík ástæða til að brosa gegnum tárin, ástæða til að vona, bugast ekki, gefast ekki upp, aldrei, aldrei nokkurn tíma.
Því að engillinn segir við okkur: Verið óhrædd, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu”.
Það er ekkert að óttast.
Þetta er okkar jólasaga, tökum hana í hug okkar, gefum gleðinni rúm, voninni sjéns. Þessi frásögn um Maríu og Jósef og Jesúbarnið hefur höfðað til allra manna á öllum tímum – einnig til þín og mín í dag.
Þetta er trúin og vonin um að allt eigi sér viðreisnar von – um að allt sé þegar allt kemur til alls gott. Veröldin sé heit, ekki kaldur steinn, sérhver fugl muni að endingu fljúga. Því að eins og skáldið í Hvítadal orðar það í fögnuði sínum einfættur og sárveikur:
Guð er eilíf ást Engu hjarta er hætt Ríkir eilíf ást Sérhvert böl skal bætt.
Ég bið þess hlustandi minn góður, kirkjugestur minn ágætur, að þú munir eiga gleðileg jól í faðmi fjölskyldu eða vina og hugsir með ljúfsárri hlýju til þeirra sem gegnir eru, því okkur þjáðum og þjökuðum mönnum er frelsari fæddur. ,,Í niðarmyrkrum nætur svörtum/upp náðar rennur sól.” Guði sé lof fyrir gleðileg jól.
Gleðileg jól öll sömul! Guði sé þökk fyrir gleðileg jól.
Dýrð sé Guði!