Stundir og andartök

Stundir og andartök

Við tökum ljósið með okkur að útidyrunum, þessum skilum hins helga rýmis og umhverfisins þar fyrir utan.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
26. desember 2019
Flokkar

Stundir og andartök geta verið heilög. Það merkir að þau eru frátekin – hafa ákveðna sérstöðu umfram önnur skeið tilverunnar.

 

Helg jólanótt

 

Mikl helgi er yfir þessum tímaskeiðum sem fæðast og deyja, nú á helgri jólanóttu. Það hefur jú mikið staðið til í aðdraganda þessa kvölds. Langt er síðan fyrstu tíðindin bárust af undirbúningi jólanna og eftir því sem nær hefur dregið, hafa samskipti fólks borið þess merki að mikið stendur til. Kveðjur verða hlýrri, þolinmæði fer vaxandi, við reynum að birta okkar bestu hliðar. Já, og svo er þessi tími oftar en ekki viðfang minninga og endurskins hins liðina.

 

Hvar sem við erum stödd í litrófi lífsskoðana og trúar, þá hafa jólin sérstöðu. Þau eru eins og krossgötur tveggja skeiða. Að baki er langur undirbúningur sem hefur vonandi farið fram, innra með hverri manneskju ekki síður en í hinu ytra borði. Atvik sem hafa átt sér stað í kvöld og næstu daga verða svo sennilega rifjuð upp síðar, hversu merkileg eða ómerkileg sem þau kunna að vera. Þetta einkennir jólin eins og þau eru dregin upp í Biblíunni og þeim textum sem hér hafa verið lesnir. Þar eru spádómar um fæðinguna sjálfa og svo er boðskapur til framtíðar um það hver áhrif jólanna verða: ,,Friður á jörðu og velþóknun með mönnunum." Þetta sungu englarnir í Bethleheim.

 

Þannig verða jólin eins og smækkuð mynd af lífinu sjálfu þar sem framtíð breytist í sífellu í fortíð. Lífið minnir að því leyti á stundarglas. Sandurinn færist í sífellu úr efra hólfinu – framtíðinni yfir í það neðra – sem eru liðnar stundir. Þarna á milli, þessi þrenging þar sem streymið er hvað örast, já það er andartakið sem er núna.

 

Það sem er

 

Og jólanóttin er einmitt núna. Nú er hvorki undirbúningur né upprifjun. Jólanóttin talar til okkar í allri sinni helgi og í raun tímaleysi og færir okkur mikilvægan boðskap sem á erindi inni í önnur tímaskeið og hversdagslegri. Jú, þar sem við sitjum, hér og nú, þá ættum við að leiða hugann að því hvort við erum í raun yfirhöfuð fólk hinnar líðandi stundar. Erum við mögulega í sífellu með hugann fastan í liðnum atburðum? Beinast hugsanir okkar ekki að því sem gerist núna, heldur að því sem eitt sinn var? Eða horfum við í sífellu fram til hins ókomna, í draumum sem byggja þó ekki á neinum markmiðum eða hugsjónum. Í vangaveltum um það sem ekki er orðið?

 

Töfrar hins heilaga eru slíkir að það getur líka sett mark sitt á hvunndaginn, hið fábrotna. Þannig felst lífslistin sjálf í því að umfaðma líðandi stund, taka endurtekningunni fagnandi. Vera hér og nú, í þessari þrengingu í stundaglasinu þar sem sandurinn streymir í gegn.

 

Þannig lýkur þessari stund í hljóðri andakt þar sem við göngum út í nóttina með lifandi ljós í hendi. Við göngum aftur út í lífið með öllum þeim áskorunum sem mæta okkur þar. Við tökum ljósið með okkur að útidyrunum, þessum skilum hins helga rýmis og umhverfisins þar fyrir utan. Þegar við svo finnum að hugarfjötrar þrengja að. Þegar fortíðin sleppir ekki tökum af huganum, þegar kvíðinn fyrir hinu ókomna sækir að, eða óljósir draumar svipta okkur tökum á köllun okkar og skyldu hér og nú – þá getum við skoðað hug okkar. Frelsi okkar og sjálfræði felst í því að geta verið virk hverja þá stund sem okkur er gefin. Þar er líf okkar og þar leynast þær áskoranir sem mæta okkur.

 

Hátíð

 

Nútíð, fortíð, framtíð – já, tíðirnar eru víst fleiri í tali okkar og hugsun. Jólin bæta þar um betur. Þau eru hátíð. Og eins og nafnið gefur til kynna þá hefur hátíðin sig upp yfir aðrar tíðir. Hún trónir þar yfir þeim öllum og gefur okkur um leið snert af eilífðinni og því sem aldrei hrörnar og deyr.

 

Boðskapur jólanna er margbreytilegur eins og litirnir og tónarnir allir. Eitt af því sem einkennir jólin er að þau standa á mörkum undirbúnings og upprifjunar. Þau eru stundin sem varir. Við ættum að leyfa þeirri hugsun að fylgja okkur héðan út nú þegar við höfum sungið sálminn fallega, Heims um ból, við kertaljós. Lærum að umfaðma andartökin. Þau eru jú vettvangur alls lífs okkar.

 

Gleðilega hátíð.