Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið oss. Hann segir við þá: Farið þér einnig í víngarðinn.Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.
Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?
Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Mt.20.1-16.
Kæri söfnuður.
Guðspjallið um verkamennina í víngarðinum er ágætt tilefni til að predika um hin ólíku verkefni og um hin mörgu sem leggja sitt af mörkum til þjónustu við guðsríkið.
Í kvöld væri tilvalið í því samhengi að fara hlýjum þakkarorðum um þennan hóp sem kennir sig við hið eilífa ljós, og vill með sérstökum hætti leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að fegra og auðga guðsþjónustulíf kirkjunnar og leggja lið kvöldmessum hér í Hallgrímskirkju. Ekki væri síður ástæða til að þakka ykkur öllum hinum fyrir að koma hingað til þessarar messu og slást í för með verkamönnum kynslóðanna í víngarðinum.
Við skulum líka sannarlega gera það, en það er ekki inntak guðspjallsins og getur því ekki verið inntak predikunarinnar. Það bíður þess að við förum í kaffi á eftir.
Hið eiginlega tilefni dæmisögunnar sem Jesús segir okkur á þessum degi er ekki almennt um hina mörgu verkamenn og hin ýmsu störf þeirra, heldur er það þessi undarlega aðferð við að greiða laun.
Og þetta hefur verið umhugsunarefni við upphaf níuviknaföstu í fjórtánhundruð ár hið minnsta. Það eitt er einnig tilefni umhugsunar.
Það er hluti þess sístæða samhengis sem lífið fyrir augliti Guðs setur verkamenn hans í.
Og með verkamönnum hans á öllum tímum segjum við:
Frá þér Guð, er lífið. Til þín hverfist það að leiðarlokum. Þökk sé þér fyrir lífið og óendanlega möguleika þess til góðs.
Ritað er í Daníelsbókinni: Hneig, Guð minn, eyra þitt og heyr, … því að ekki framberum vér auðmjúkar bænir fyrir þig í trausti til vors eigin réttlætis, heldur í trausti til þinnar miklu miskunnsemi.
(Daníel 9.18)
* * *
Guðspjallið um verkamenn í víngarði fjallar um vinnu og vinnlaun og verðmætasköpun. Það fjallar ekki um hagfræði. Ekki einu sinni um lélega hagfræði. Það fjallar ekki um fjármálaábyrgð. Það er ekki málsskjal í kjarasamningum. Og þó fjallar það um þetta allt og miklu meira. En frá annarri hlið.
Í þeirri nýju víkingaöld sem upp er runnin yfir Ísland er ríkjandi það meginmarkmið víkinganna að flytja í bú sitt sem mestan feng héðan að og þaðan. Maður er feginn hverjum deginum sem líður án þess að fréttir berist um brennd þorp og hrunin samfélög. Í samhengi víkingatímans er guðspjallið um að hinir síðustu geti orðið hinir fyrstu, eins og afar mislukkaður brandari.
Aðeins hinir fyrstu hafa eitthvað að segja. The Winner gets it all.
Guð horfir yfir hinn síðari víkingatíma eins og hinn fyrri. Kannski er hann eins og sum okkar farinn að búast við því að nýju víkingarnir fari bráðum að sverfa tennur sínar og bera lit í að hætti hinna fyrri. En liturinn í sorfnum tönnum samtímans er annar:
Hann birtist t.d. í afkvæmi víkingatímans, sem þekkt er af ruddaskap í orðum og framkomu þar sem gælt er við lágkúru og lágmenningu og er hampað hátt undir flaggi gagnrýni á klámvæðingu samtímans.
Fullorðnir geta hlegið heimskulega að þessu, af yfirvegun víkinganna, af því að það er svo kúl að tala um klof og rass. En það geta börnin ekki sem eru að leita sér að fyrirmynd og vita ekkert um meinta gagnrýni á þetta eða hitt. Þau apa bara orðin upp og hreyfingarnar og hin fullorðnu horfa á og skemmta sér yfir því og ala þannig upp nýja kynslóð víkinga sem munu taka lögin í sínar hendur og brjóta niður reglur í nafni frelsis- og sannleiksástar og taka sér þau laun sem þeim þykir hæfa.
Kæri söfnuður. Við tölum um verðmæti. Í guðspjallinu er talað um laun sem raunveruleg verðmæti utan hefðbundins launaramma í jarðnesku samhengi.
Guð er Guð reglunnar. Hann meðhöndlar okkur börnin sín ekki eftir dutlungum eða tilviljunum. Hann gefur hverjum og einum samkvæmt verkum hans sem hann mælir á sínum eigin skala. Hvorki postulinn Páll né heldur Drottinn sjálfur eru feimnir við að nota orðið laun. Ef verk einhvers fær staðist ... mun hann taka laun. segir postulinn Páll. (1.Kor. 3,14)
Guð hefur heitið hverju og einu barna sinna launum. Við meðtökum laun fyrir verk okkar. Guðs laun. Sum okkar lærðu í æsku að segja: Guðlaun. Guð laun fyrir matinn. Guð launi þér. Eða kannski: Guð launar fyrir hrafninn.
En Guðs laun eru bundin og fædd af öðrum skilmálum en jarðnesk laun. Í hverri skikkan vinnu eða viðskipta meðal mannanna verða launin að vera í samræmi við framlagða vinnu eða afköst, og spurningin um réttlát laun er grundvallarspurning samfélagsins á vinnumarkaðinum.
Enginn vinnuveitandi á jörðu gæti hegðað sér svo sem húsbóndinn í dæmisögunni, en það sem samkvæmt mannlegum, skynsamlegum mælikvarða er ótrúlegt, öfugsnúið og ómögulegt, notar Drottinn til að gera skiljanlegt að í riki Guðs gengur þetta öðru vísi fyrir sig en á jörðu.
Það kann að villa um fyrir okkur að við fáum fréttir þessa dagana í vaxandi mæli um jarðneskan launaramma sem er samkvæmt mannlegum, skynsamlegum mælikvarða ótrúlegur, öfugsnúinn og ómögulegur.
En í því felst einmitt leiðbeining til að skilja guðspjallið.
Það er sannarlega hlutverk okkar í kirkjunni að styðja baráttuna fyrir réttlátum launum fyrir vinnu sína, en það er annað mál. Gagnvart okkur sjálfum snýst þetta ekki um jarðnesk laun eða eigur heldur um allt önnur gildi. Guðspjallið snýst um jöfnuð eða ójöfnuð barna Guðs, þar sem einn telur sig betri en annan og telur sig jafnvel eiga réttt á því að uppskera sérstaka velgengni vegna gæsku sinnar eða eðliseiginleika, og að Guð skuldi honum það.
Og það er þetta atriði sem gerir efni guðspjallsins svo erfitt fyrir okkur, vegna þess að grípur á okkar eigin stóra vanda. Það lækkar í okkur rostann.
Marteinn Lúther s segir í predikun um þennan texta: Það er dýrmætasti hluti þessa guðspjalls að það segir okkur til huggunar að við kristnar manneskjur séum öll jöfn í Kristi.
Hvort sem við búum við erfið kjör eða betri kjör í þessum heimi, höfum við öll hlotið sömu skírn hins sama Drotttins. Fæðumst ein, deyjum ein, lifum af náð Guðs.
Við höfum sannarlega séð og heyrt margskonar útleggingar um þetta efni og vissulega hefur mátt heyra það að þetta væri nú bara dúsa upp í þá sem eru óánægðir með kjör sín, til þess að þeir sættust við allt, og allt sé gott vegna þess að sá sem er inni í pyntingarklefanum sé jafn skírður og sá sem lokaði hann inni. Þetta er ekki guðspjall til að segja okkur að kalla órétt rétt, óþokka engla og peningasóða fjármálasérfræðinga. Það snýst um annað: Það snýst um allt annað. Það snýst um þetta sem segir í sálmunum:(103.10)
Hann hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum.
Guð breytir ekki við okkur samkvæmt syndunum og ekki heldur eftir afköstum og ekki einu sinni dyggðum, heldur eingöngu samkvæmt sinni eigin gæsku.
Þetta er hinn hefðbundni skilningur guðspjallsins: Enginn getur fengið meir, enginn mun fá fleira og meira en gjöf náðar Guðs.
Þín náðin Drottinn nóg mér er, segir Einar Kvaran í sálminum. Hversvegna ? Því svarar skáldið svo: því nýja veröld gafstu mér. Hér er ekkert meira eða minna, engin krafa og enginn samanburður.
Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. (Ef. 2.8)
Guðspjalið geymir þversagnir. Jesús kaus að nota þær til þess að túlka leyndardóminn Guðslaun, sem eru okkar laun og þó engin laun. Við sitjum í Hallgrímskirkju, umvafin nálægð Guðs, umvafin birtu og hlýju , orðum og tónum. Dagur er liðinn og verkalok nálgast. Drottinn er í nánd. Cor ad cor loquitur. Hjarta talar til hjarta. Við sitjum í skjóli Guðs náðar.
Hneig, Guð minn, eyra þitt og heyr, … því að ekki framberum vér auðmjúkar bænir fyrir þig í trausti til vors eigin réttlætis, heldur í trausti til þinnar miklu miskunnsemi.