Gleðilegt ár, ágæti söfnuður hér í Langholtinu, gleðilegt ár og þakka ykkur kærlega fyrir góð samskipti á liðnu ári – og liðnum árum og áratugum. Hingað er gott að koma; ávallt tekið vel á móti héraðspresti, hlýjan og gleðin í fyrirrúmi.
Og þannig er líka gott að hefja nýtt ár, með hlýju og gleði í huga. Í Kristi verðum við nýjar manneskjur ,,hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til“ segir í 2. Korintubréfi (5.17). Við skiljum við okkur gamlan biturleika og ófyrirgefandi hugarfar og göngum inn til nýs árs á grundvelli sáttargjörðar Guðs í Kristi. ,,Ég bið í orðastað Krists: Látið sættast við Guð,“ segir postulinn (2Kor 5.20b). Látum sættast við Guð og samferðafólkið í framhaldi af því.
Það er ekkert jafn tærandi og biturleiki. Í Hebreabréfinu segir: ,, Stundið frið við alla menn og heilagt líferni því að án þess fær enginn litið Drottin. Hafið gát á að enginn missi af náð Guðs, að engin beiskjurót renni upp sem truflun valdi og margir saurgist af“ (Heb 12.14-15). Nýtum okkur þetta nýja upphaf sem áramótin eru til að hreinsa til í hugarfarinu, temja okkur friðsamleg samskipti og biðja Guð um að afmá hvern beiskjuvott úr hjartanu.
Biblíufélag í 200 ár Ein leið til þess er að lesa daglega í Biblíunni. Sumt er þar sem við skiljum ekki og annað bundið ákveðnum sögulegum aðstæðum enda eru ritin fjölbreytt og skrifuð á löngum tíma. En ef við lesum í bæn hefur Heilög ritning mótandi áhrif á hugarfar okkar, áhrif friðar og helgunar; í henni býr kraftur Guðs sem umbreytir, sættir og eflir.
Á þessu ári, 2015, fagnar Hið íslenska biblíufélag tvöhundruð ára afmæli sínu, elsta félag á Íslandi sem enn starfar (ásamt með Hinu íslenska bókmenntafélagi, stofnað 1816). Hannað hefur verið afmælismerki fyrir biblíufélagið og verða tímamótanna minnst með margvíslegum hætti. Meðal annars er í bígerð að hefja afmælisárið með biblíumaraþoni í tengslum við alþjóðlega samkirkjulega bænaviku fyrir einingu kristninnar, líklega í lok vikunnar, helgina 24. - 25. janúar nk. Þá verður Nýja testamentið lesið í öllum kirkjum eins og nánar verður kynnt síðar. Þess má geta að lestrarskrá Biblíufélagsins fyrir árið 2015 tekur til allrar Biblíunnar, í stað fáeinna versa hvern dag, og er það mikið fagnaðarefni (sjá ´Biblían´ á Fésbókinni).
100 ár frá kosningarétti kvenna Hátíðahöld til að minnast eitthundrað ára kosningarétti íslenskra kvenna og kjörgengis kvenna til Alþingis eru þegar hafin. Næstsíðasta dag ársins 2014 var fyrirlestur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur (1856-1940) frá árinu 1887, fyrsti fyrirlestur kvenmanns á Íslandi, leiklesinn í Iðnó. Var það mjög áhrifaríkur flutningur, einnig útvarpað á Rás 1 kl. 15 á nýársdag. Fyrirlesturinn ber heitið ,,Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna.“ Þar kveður Bríet upp harðan dóm yfir því misrétti sem viðgekkst í réttindum og kjörum kynjanna og leggur mikla áherslu á mikilvægi menntunar til handa konum. Hún hlífir ekki kristinni trú og Bibliunni en bendir á að oft hafi trúarboðskapurinn verið misnotaður og rangtúlkaður í þágu valdsins.
Hápunktur hátíðahaldanna verður 19. júní á Austurvelli en þann dag árið 1915 staðfesti Kristján tíundi Íslands- og Danmerkurkonungur stjórnarskrárbreytingu hins íslenska Alþingis um kosningarétt kvenna og vinnumanna, fertugra og eldri. Afmælisrit verður gefið út árið 2020 þegar þess verður minnst að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu fullan kosningarétt á við karla, það er við 25 ára aldur. Um þetta séríslenska aldursákvæði sagði Bríet Bjarnhéðinsdóttir í Kvennablaðinu 1913 (sjá vefsíðu nefndar um kosningarétt í 100 ár ):
Og hvað sem menn segja, þá verður því ekki neitað, að snoppungur er það fyrir konur, að fá það framan í sig með stjórnarskrárlögum samþyktum af Alþingi, að fyrst við 40 ára aldur nái konur þeim þroska, sem 25 ára karlmenn hafi náð .
Víst þykir okkur það undarlegt það Herrans ár 2015 að fyrir hundrað árum hafi konum ekki verið treyst til að kjósa til Alþingis jafnt á við flesta karla. Og langt höfum við náð hér á landi síðan þá, enda er Ísland í röð þeirra landa sem fremst standa varðandi jafnrétti kynjanna samkvæmt úttekt Alþjóða efnahagsráðsins sem tekur til 142 landa; meira að segja í fyrsta sæti sex ár í röð (2009-2014). Matið byggist á fjórum þáttum: stjórnmálaþátttöku, þátttöku í atvinnulífi og meðfylgjandi efnahagslegum jöfnuði ásamt tækifærum til að njóta menntunar og heilbrigðisþjónustu en þessi tvö síðustu svið eru nánast í toppi á Íslandi. Næst á eftir Íslandi koma hin Norðurlöndin. Verst er staða kvenna í Pakistan og Jemen.
Alþjóðabænadagur kvenna í 80 ár Ár hvert er alþjóðlegur bænadagur kvenna haldinn hátíðlegur um allan heim fyrsta föstudag í mars. Á þessu ári höldum við upp á að 80 ár eru liðin frá því að boðað var til fyrstu bænadagssamkomunnar hérlendis en það var árið 1935 að Guðrún Lárusdóttir, formaður KFUK og önnur konan sem var alþingismaður, gekkst fyrir samkomu af þessu tilefni. Yfirskrift bænadags kvenna er: Informed Prayer, Prayerful Action, sem við höfum þýtt með orðunum: Upplýst bæn, bæn í verki. Er þar lögð áhersla á að konur - og karlar – fræðist um aðstæður kvenna í ólíkum löndum til að geta beðið á markvissan hátt og veitt hagnýta hjálp þegar svo ber undir. Síðari árin hafa málefni HIV smitaðra verið í brennidepli bænadagsins á alþjóðavísu og nú einnig baráttan gegn mansali.
Í ár kemur efni bænadags kvenna frá Bahamaeyjum. Þar eru kjör og aðstæður kvenna prýðilegar að flestu leyti. Samkvæmt skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins er samveldislandið í 35. sæti af löndunum 142. Tækifæri til menntunar og heilbrigðisþjónustu eru mjög góð en atvinnuþátttaka nokkuð síðri og stjórnmálaþátttaka slök. Þó eru konur í hópi háttsettra lögregluforingja á eyjunum en fyrsta konan tók sæti á þingi árið 1992. Konur á Bahamaeyjum fengu kosningarétt tæpri hálfri öld á eftir íslenskum konum, árið 1962 en fyrir tilstuðlan Anglíkönsku kirkjunnar var skólaganga stúlkna sem drengja tryggð allt frá 19. öld. Samt er víða pottur brotinn í stöðu kvenna á Bahamaeyjum. Andstaða hefur til dæmis verið við löggjöf sem tryggi vernd kvenna gegn ofbeldi innan hjónabands og konur með litla menntun búa við kröpp kjör enda menntun nú sem fyrr þýðingarmesti þátturinn til að tryggja jafnrétti.
75 ára prófastsdæmi Fleiri afmæli verða á árinu og mörg merkileg í ýmsu samhengi. Nefna má að 75 ár verða liðin frá því að Reykjavíkurprófastsdæmi var stofnað með lögum, þann 7. maí 1940 en síðar (árið 1991) var því skipt í tvö prófastsdæmi, eystra og vestra. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra nær yfir tíu prestaköll, frá Seltjarnarnesi að Reykjanesbraut og Fossvogsdal. Skrifstofa prófastsdæmisins er nú í Hallgrímskirkju en fljótlega verða breytingar á því þar sem prófasturinn, sr. Birgir Ásgeirsson, lætur af störfum vegna aldurs. Langholtssöfnuður, sem stofnaður var 1952, er einn þeirra tíu safnaða sem tilheyrir vestra prófastsdæminu sem fagnar sem sagt aldarfjórðungsafmæli á næsta ári, 2016.
Hér hefur verið rætt um ýmsa sögulega viðburði sem snerta okkur öll á einn eða annan hátt. Biblían er grundvöllur okkar kristnu trúar og Hið íslenska biblíufélag sameiginlegt félag kristinna kirkna á Íslandi, eins og starfið að bænadegi kvenna. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að bæði konur og karlar geti á virkan hátt stuðlað að velferð og grósku í þjóðfélaginu, bæði hér á landi sem í alþjóðlegu samhengi. Og þar er grasrótin öflug og mikilvægt að hlú að því samhengi sem við tilheyrum, eins og til dæmis því samlagi safnaða sem Langholtsprestakall tilheyrir og kallast Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.
Frelsi huga og hjarta En allt grundar þetta í því hugarfari sem mótar gerðir okkar. Vegferðin hefst í hjarta þínu og hjarta mínu. Við erum ekki ein á ferð heldur hlekkir í langri keðju; tilheyrum til dæmis og ekki síst því stóra samhengi trúarinnar sem birtist í blessuninni, þeim árþúsundagömlu orðum sem Drottinn gaf Móse og Aron og Mirjam til að leggja yfir fólkið í eyðimörkinni, að þau mættu finna elsku Guðs streyma úr augliti hlýju og gæsku, eins og börn sem finna sig trygg í faðmi elskandi foreldris.
Við fáum að taka á móti sátt og fyrirgefningu inn í líf okkar, frelsi frá þeirri fortíð sem breytir í saltstólpa, frelsi til nýs lífs, til nýrrar sköpunar, nýs upphafs. Við þurfum engan að klaga, þurfum enga beiskjurót að bera eða kala í hjarta til nokkurs manns því Jesús veit sjálfur hvað í hverri manneskju býr og er fullkomlega fær um að koma á jafnvægi og sátt inn í það sem ójafnt hefur verið. Því tökum við undir bænarorðin:
Lát hið nýja ár verða náðarár þar sem við lifum af gæsku þinni og gefum hana öðrum. Dýrð sé þér Drottinn. Amen.