Að bera ávöxt gagnvart Guði

Að bera ávöxt gagnvart Guði

Sjálfboðaliðar sem starfa fyrir kirkjuna, sóknarnefndir og fólkið sem syngur í kirkjukórnum eru ávextir sem allt samfélagið nýtur góðs af. Vinnu þeirra má ekki taka sem sjálfsögðum hlut. Tími þeirra er jafn dýrmætur og okkar...
fullname - andlitsmynd Bryndís Svavarsdóttir
31. desember 2019
Flokkar

Lúk 13.6-9, Harmlj. 3.21-26, 40-41, Róm 8.31b-39

Biðjum… Eilífi Guð við þökkum þér fyrir þá miklu gjöf er þú gafst okkur son þinn Jesú Krist svo hann gæti frelsað okkur frá syndum okkar… Þakka þér að þú hefur borið umhyggju fyrir okkur hvern dag hingað til og við biðjum þig að vera með okkur, vernda og blessa í lífi og starfi á komandi ári. Við lofum þig og þökkum þér fyrir varðveislu þína og eilífar blessanir. Amen

 Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.                                                    

Um áramót gera margir heit um umskipti í sínu lífi… og textarnir sem við heyrðum boðuðu að enn væri von, enn er tækifæri fyrir breytta tíma, nýtt líf… eins og sagði:  Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín.

Já, náð Guðs er ný á hverjum morgni. Á hverju augnabliki er tækifæri til að byrja upp á nýtt, taka upp nýtt viðhorf, taka nýja stefnu - gera breytingar í okkar daglega lífi. Spámenn Guðs voru óþreytandi í sinni boðun að vekja fólk til trúar á Guð. Það er aldrei of seint að byrja nýtt líf með Guði. 

 Í guðspjallinu heyrðum við dæmisögu Jesú um fíkjutré sem bar ekki ávöxt. Þegar ég fór að lesa það sem var undanfari þess að Jesús sagði þessa sögu sá ég að yfirskrift kaflans er: Ef þér takið ekki sinnaskiptum... eða eins og við orðum það nú til dags - ef þú bætir ekki hátternið, hugarfarið…
það að taka sinnaskiptum er umbreyting í hjarta og kannski tilefni til að spyrja sig: hverjum hjarta mitt fylgi. 
Það er þetta að verða að taka afgerandi afstöðu…

Eins og í svo mörgu öðru, þurfum við að taka afstöðu í trúnni á Guð og Jesú Krist. Boðskapur NT fjallar allur um Ríki Guðs. Stóra spurningin sem við þurfum að spurja okkur, er:  Ætlum við að vera þar?

Ef við skoðum dæmisöguna sem við heyrðum, þá byrjar hún svona: Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Já, eitt tré í garðinum er fíkjutré – öll hin trén eru vínberjatré. Sennilega var hugsað eins um öll þessi tré, þau hafa fengið sama áburðinn og sömu vökvun en eftir 3 ár hefur fíkjutréð ekki enn borið ávöxt, víngarðseigandinn sér ekki tilgang í að eiga það og vill farga því…Vinnumaður eigandans er ekki alveg tilbúinn að gefast upp, hann vill gefa trénu eitt ár í viðbót og nota þá tímann til að hlúa eins vel að því og hann getur, með öllum ráðum sem hann kann.

Það er sennilega hægt að túlka þessa sögu á marga vegu. Ein túlkunin er að víngarðseigandinn sé Guð, vinnumaðurinn sé prestur og trén eru þá söfnuðurinn eða samfélagið sem við búum í. Þó við séum öll sömu “tegundar” með samheitið “menn” þá erum við samt ólík að uppruna, þurfum ólíka umhirðu og atlæti til að bera ávöxt, en niðurlagið á sögunni var… ef það dugar ekki til að tréð beri ávöxt þá skaltu höggva það niður… svo við sjáum að krafan er alltaf, að hvert tré beri ávöxt… Sagan getur átt við okkur öll almennt  t.d. systkini þurfa ólíka athygli og umhirðu en í þessari sögu er öll athyglin á ávexti gagnvart Guði.

Hugsum okkur nú tré á víðavangi þ.e. í villtri náttúru… það er hlaðið ávöxtum og við íhugum hverjum þessir ávextir gagnist?  Kannski fáeinum hungruðum ferðamönnum sem ganga hjá og villtum dýrum náttúrunnar, því enginn er skráður eigandi og hver sem er getur teygt sig í ávöxt… 
Hvað ef við látum tréð standa í miðjum bæ og látum ávextina tákna vináttu, kærleiksorð, huggun, samúð, hvatningu, velvilja, hjálpsemi, fórnfýsi, skilyrðislausa ást eða uppbyggjandi orð Guðs…

Þetta eru ávextir sem allir hafa þörf fyrir á einhverjum tímapunkti í lífinu.  þetta eru ávextir sem bæði þú og náungi þinn þarfnast, ávextir sem Guð gleðst yfir að þú eigir og gefir frá þér. Í miðjum bæ er tréð alltaf innan seilingar, og tréð getur deilt mismunandi ávöxtum til þeirra sem þarfnast þeirra og skapari alheimsins sér um að vökva og gefa áburð. Engum dytti í hug að höggva þetta tré niður…
og hver vill ekki vera
eins og tré sem ber góðan ávöxt?  

Sjálfboðaliðar sem starfa fyrir kirkjuna, sóknarnefndir og fólkið sem syngur í kirkjukórnum eru ávextir sem allt samfélagið nýtur góðs af. Vinnu þeirra má ekki taka sem sjálfsögðum hlut. Tími þeirra er jafn dýrmætur og okkar… svo… okkur ber öllum að þakka og því segi ég: takk kærlega fyrir óeigingjörn störf ykkar á árinu sem er að líða og Guð gefi að þið veljið að gefa áfram af ykkar dýrmæta tíma til þjónustu við kirkjuna. Nú er í tísku að tala um mann-auð… það er satt, það er ríkidæmi að hafa gott fólk til að starfa með sér og kringum sig, svo ég segi aftur: Takk kærlega fyrir.

Já, ég nefndi áðan ávexti og sinnaskipti… Eitt af því fyrsta sem Jesús sagði þegar hann byrjaði sitt starf, var: „Takið sinnaskiptum (Matt 4:17a) og Páll postuli útskýrði, að það væri að “snúa sér til Guðs og sýna það í verki.” (post 26:20)  og hvað gerist ef okkur tekst að gera þetta? jú, vextirnir sem við gefum frá okkur og þiggjum frá öðrum, þeir margfaldast og blessa okkur öll ríkulega.

Fyrst að Jesús lagði áherslu á sinnaskipti þá hlýtur það að vera mikilvægt og á hverjum degi fáum við ný tækifæri til þess. Við þurfum að játa með munninum og trúa í hjartanu að Jesús sé Drottinn og þá munum við hólpin verða... og þá getum við tekið undir orð Páls, sem ég las áðan, en hann var þess fullviss að þá gæti ekkert gert okkur viðskila við kærleika Guðs.

Biðjum til Drottins og þökkum honum fyrir kærleika hans og umhyggju fyrir okkur.  Þökkum fyrir gjafir hans og biðjum hann að blessa ríkulega alla þá sem vinna óeigingjarnt starf fyrir nafn hans.  Drottinn, hjálpaðu okkur að ganga með þér og gefðu að við getum deilt ávöxtum andans, okkar á milli, öðrum til uppbyggingar, gleði og gagns.  Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

Prédikun flutt í Bíldudalskirkju, á gamlársdag 2019