Steve Ballmer, einn yfirmanna tölvurisans Microsoft, spáir því að dagblöðin eigi ekki eftir nema sirka tíu ár. Fjölmiðlun færist alltaf meira á netið og þess sé skammt að bíða að prentmiðlar heyri sögunni til.
Ballmer er ekki einn um þessa skoðun og þróunin virðist styðja hana. Núna reynum við hana á okkar íslensku skinnum. Stærstu dagblöð landsins eru í krísu en vefmiðlar blómstra.
Margir sjá ekkert athugavert við þessa þróun. Hún sé tímanna tákn og í raun og veru fyrst og fremst spurning um hvaða tækni sé notuð til að koma upplýsingunum á framfæri.
Eitt vandamál er þó óleyst. Eigi blaðamennskan á vefmiðlunum að vera vönduð kostar það peninga. Þeir peningar eru enn ekki fundnir.
Þetta telst kannski ekki aðkallandi vandamál á Íslandi. Hér hefur nánast þótt hallærislegt að tala um “vandaða blaðamennsku”. Íslenskir fjölmiðlar eru einkum afþreying. Útvarp hafa menn til að geta hlustað á eitthvað með espressóinu á morgnana og blöð til að geta lesið eitthvað á klósettinu. Hér hefur tjáningarfrelsið heldur engan sérstakan tilgang. Það lýtur sömu lögmálum og markaðurinn í kokkabókum frjálshyggjunnar: Engum nema sínum eigin. Menn eiga bara að segja það sem þeim sýnist og á endanum mun það einhvern veginn verða til hagsbóta fyrir alla.
Hér á landi getur hver sem er skrifað í blöðin og talað í útvarp og það er ekkert aðalatriði hvað þar er sagt eða hvernig það er sagt. Og hér er það pólítískur rétttrúnaður að engu máli skipti hverjir eigi fjölmiðla.
Í ljósi þessa var auðvitað hæpið búast við því að íslenskir fjölmiðlar teldu sig hafa einhverjar skyldur við þessa þjóð í aðdraganda þeirra hörmunga sem nú hafa á henni skollið, að þeir hefðu það hlutverk að lesa í aðstæðurnar, greina þjóðfélagið og veröldina og vara almenning við þeirri hættu sem smám saman byggðist upp.
Bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hafa menn miklar áhyggjur af framtíð blaðamennsku og beita ýmsum aðferðum til að tryggja að hún verði vönduð. Þýsk stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til að bjarga prentmiðlum („Nationale Initiative Printmedien“). Nýlega tilkynnti forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, að franska stjórnin ætlaði á þessu ári að styrkja útgefendur dagblaða þar í landi um 280 milljónir evra og aðrar 600 á næstu þremur árum.
Þessar aðgerðir eru ekki einungis til þess að bjarga störfum í blaðabransanum þótt þar sé mikið í húfi heldur gera menn sér grein fyrir því að öflugir og vandaðir fjölmiðlar eru ein forsenda lýðræðisins.
Lýðræði er ekki einungis fólgið í ákveðnu stjórnkerfi. Það er meira en gegnsæi og réttlátar reglur. Lýðræði er óhugsandi án upplýstra þegna.
Fjölmiðlar starfa ekki í þágu eigenda sinna. Þeir starfa fyrir okkur, þjóðina. Þeir eiga að vera okkar helsta vörn gegn þeim lygum og lýðskrumi sem gjarnan einkenna umbrotatíma. Þörfin fyrir góða fjölmiðla hefur aldrei verið brýnni en núna.
Án þeirra verður lýðveldið Ísland ekki endurreist.