Fermingardagurinn. Ég hef síðustu ár lagt það fyrir fermingarbörnin mín að eiga viðtal við afa eða ömmu eða annan nákominn ættingja til að fá þau til lýsa þeirra fermingardegi fyrir margt löngu. Mig hefur langað með þessu að tengja börnin við þennan langtíma arf og venju í kirkjunni okkar sem fermingin er.
Kannski var kveikjan, að eitt sinn átti ég samtal við gamlan mann, bónda í sveit og við ræddum hans fermingu, fyrir meira en 70 árum og hann gat lýst nánast hverju einasta smáatriði sem tengdist fermingardegi hans. Hann sagði mér frá öllum sálmunum sem sungnir voru í kirkjunni, hann sagði mér frá athöfninni og fermingarræðu prestsins, sem hann sagðist oft rifja upp með sjálfum sér og hann mundi hvernig hann sjálfur var klæddur og hvernig hann fór til kirkju og litla veislan þegar fermdur drengurinn kom heim. Og fermingarfræðslan var honum öll eftirminnileg og einstök upplifun og sálmana sem hann lærði kunni hann enn. Sérstök tengsl mynduðust milli fermingarsystkinanna, hann gat nefnt þau öll og það var einhver hlýja í röddinni þegar hann minntist þeirra.
Þarna upplaukst fyrir mér, að þetta var einn stærsti og merkasti dagur í lífi þessa gamla bónda.
Oft hef ég síðan rætt við eldra fólk um fermingardag þeirra og það er staðreynd að flestir muna þennan dag ákaflega vel og fermingin er dýrmæt í minningunni.
Það er vissulega annar tími í dag, áreitin fleiri og varla hægt að vænta að fermingardagurinn verði svo ógleymanlegur fyrir unga fólkið í dag. Það er samt gott, ef maður getur miðlað einhverju af þessari jákvæðu reynslu og fallegu minningu um ferminguna til barnanna í dag.
Hvað þurftir þú að læra fyrir ferminguna þína? Hvernig var fermingarveislan þín? Hvernig voru fermingarfötin. Hvað er þér minnistætt úr kirkjunni? Hvað fékkstu í fermingargjöf? Fermingarbörnin hafa gaman af að spyrja þannig nákomna ættingja og þau hafa fengið ýmis skemmtileg svör. Og stundum vekur orðalag eldri kynslóðarinnar spurningar hjá börnunum: Hvað er eiginlega að ganga til spurninga? Þetta orðalag virðist vera að hverfa úr málinu okkar.
Einu fermingarbarninu fannst það afar fyndið að afi hans fékk á sínum tíma í fermingargjöf „rosaflott“ hjól – það var þriggja gíra og svo hló hann mikið – „það var bara þriggja gíra og afa fannst það flott“ og svo var það amman sem gat ekkert sofið nóttina fyrir ferminguna sína, því rúllurnar í hárinu meiddu hana svo mikið, því engar hárþurrkur voru til, þegar amma var ung. Tímarnir breytast og börnin breytast líka. Það er gott að hvetja unga fólkið til að að eiga samtal við eldri kynslóðina og einmitt nota tækifærið þegar við getum tengt svona mikilvæga daga eins og fermingardagurinn er sannarlega enn þann dag í dag – Það eru skoðuð saman fjölskyldualbúmin og rifjaðar upp góðar minningar og talað saman.
Athafnir kirkjunnar tengja líf mannsins á tímamótum í hringrás, ár eftir ár, öld eftir öld og veita þannig öryggi og staðfestu. Víst hefur fermingarfræðslan breyst, umhverfið og samfélagið líka og börnin og unglingarnir hafa líka breyst. Sumt breytist ekki og fermingardagurinn, inngangan í kirkjuna, passa sig að detta ekki, muna ritningarorðin, já flest eigum við frá þessum viðkvæmu unglinsárum fallega minningu um ferminguna og einmitt það á að leggja áherslu á, að börnin geymi um fermingardaginn góða og fallega reynslu, eins og gamli bóndinn sem sagði mér frá sínum stóra degi og er mér enn svo minnistæður.