Höfundur tímans

Höfundur tímans

Við höfum fengið dásamlega nýársgjöf. Nýtt ár. Í Jesú nafni. Það merkir að við megum verða samferða sem kirkja, og samferða höfundi tímans allt hið nýja ár til enda, í öryggi, í friði og í kærleika.

Kristján Valur Ingólfsson

Bæn

Þín miskunn Herra hár oss hlífði liðið ár með ástúð óþreytandi, við allri neyð og grandi.

Þótt harma skelfdu ský oss skein hvern morgun ný með blessun lands og lýða þín líknarsólin blíða.

Oss börn þín bænheyr þú vér biðjum faðir nú sem áður enn vor gættu við allri neyð og hættu.

Veit kristnum lýð þitt lið og landi voru frið þeim hjálp er hér enn þreyja þeim himinn þinn er deyja.

Amen (Sb. 100. Helgi Hálfdanarson)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Kæri söfnuður. Gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni. Þökk fyrir að bjóða mér að koma og predika hér í þessum fagra helgidómi á fyrsta degi hins nýja árs. Það er mér sérstakt gleðiefni að standa hér í þessum predikunarstól hið fyrsta sinn, þakklátur fyrir allt það góða starf sem hér er unnið í söfnuðinum og ég hef séð úr fjarlægð alveg frá því ég fyrst heyrði messu hér í kirkjunni hjá séra Garðari Þorsteinssyni. Blessuð sé minning hans.

Það einkenni áramótanna að vera hluti af jólahátíðinni í kristnum sið setur þau ekki bara í sérstakt samhengi heldur gefur það þeim sérstakt yfirbragð. Með göngu okkar til kirkju á nýjársdag endurheimtum við jólin úr klóm hávaða og púðurreyks gamlárskvölds og nýársnætur. Nýársdagur er áttidagur jóla, og bar það nafn lengi. Nú er það nafn mörgum gleymt.

Hið annað tilefni dagsins, auk þess að vera nýársdagur er janfvel líka gleymt. Það að okkur kristnum ber að nefna annað nafn á þessum degi. Nafnið Jesús.

Nýársdagur hefur stysta guðpjall ársins. „Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.“ Lúk.2.21.

Við vitum ekkert um hið nýja ár, nema að fyrsti dagur þess er helgaður nafni Jesú Krists. Þannig heilsuðu reyndar kynslóðirnar á undan okkur hverjum nýjum degi. Þær fólu sig Guði á vald í Jesú nafni.Við skulum halda þeim, sið. Kom þú nýja ár, í Jesú nafni.

Þegar lærisveinarnir mörgu sem Jesús sendi út til þjónustu komu aftur til hans, sögðu þeir fagnandi við hann : „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða okkur þegar við tölum í þínu nafni. (Lúk. 10.17). Jesús setti gleði þeirra í annan farveg og sagði: Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.(Lúk. 10. 17-20).

Krafturinn felst ekki í því að kunna að nefna nafnið heldur er það nafnið sjálft sem hefur í sér kraftinn. Þetta er hið fyrsta umhugsunarefni dagsins.

Annað er þetta:

Hversvegna loga eldar við áramót? Viljum við með eldum næturinnar brenna burtu allar leifar þess sem spillt var og skemmt og gefa rúm nýjum ferskum gróðri fyrirheita um gott komandi ár? Það var venja að brenna akra vítt um meginland Evrópu í slíkum tilgangi, en nú er það bannað vegna þess að með því var líka brennt það sem lifa þurfti, bæði lággróður og lífsþjónandi skordýr. Vissulega væri gott að mega skjóta öllu því sem illt er á jörðu langt frá henni og láta það springa þar. En þannig er það ekki. Glíman okkar er hér á jörðu. Hvað svo sem við skrifum eldstöfum á næturhimininn, leysir það ekki nokkurn vanda eða gerir nýtt upphaf.

En augnablik áramótanna er mjög merkilegt og einstakt.

Það er ekki aðeins hlaðið tilfinningum sem markast af því að heilsast og kveðjast í einu, heldur er það vafið dulúð. Endir og nýtt upphaf mætast í einu andartaki. Það er leyndardómur áramótanna. Guð. Guð tímans.

Þú, sem ríkir öllu ofar, eilífð himna nafn þitt lofar, eins og minnsta andartak. (Sb. 731. Kristján Valur Ingólfsson)

Hið nýja ár er eins og nýtt líf, eða lítið barn. Við kunnum bara að bregðast við eins og segir í skírnarsálminum:

Full af kvíða fyrir huldri framtíð, leggjum vér vort barn í þínar hendur. (Sb. 585. Sigurjón Guðjónsson)

Stórir atburðir í jarðvistargöngu Jesú Krists eru innleiddir með orðunum: Óttist ekki. Fæðingin, ummyndunin, upprisan. Það eru líka skilaboð nýársdagsins, þegar tímaskynið skerpist meir en aðra daga.

Óttist ekki, gæti verið stef nýja ársins. Já, það ætti að vera stef nýja ársins. Til þess vísar lexían sem lesin var úr Jesajabókinni. Óttinn lamar og ruglar og leiðir til rangra ákvarðana. Enginn ráðgjafi er verri en óttinn. Hafi óttinn tekið að sér stjórnina þá er alveg víst að leiðin sem hann velur er röng. Og þá segir þú: En er það ekki einmitt óttinn sem bjargar mér úr hættu og hræðilegum aðstæðum. Nei. Það er það sem eftir er af óttaleysi sem bjarar. Óttinn lamar. Óttinn tekur sér vald sem hann hefur ekki og tekst á hendur verk sem hann ræður ekki við. Óttinn byggir ekki upp. Óttinn eyðileggur. Óttinn er uppnám. Óttinn er uppreisn gegn tímanum.

Og Tíminn? Hver ræður honum?

Alfa og Ómega. Fyrsti og síðasti bókstafurinn í gríska starfrófinu. Upphafið og endirinn. Það er táknið um Jesú Krist.(Opb.22.13)

Þýski guðfræðingurinn Adolf Köberle talar um að tíminn hafi þrjú andlit.

Hið fyrsta er hið liðna. Í hinu liðna verður engu breytt. Það sem gert var er gert, og það sem við vanræktum er oftar en ekki glatað. Við getum aðeins beðið Guð að breiða sína miskunnarblæju yfir það allt og bæta það sem við höfum spillt.

Annað andlitið er núið. Nútíminn er ferskur og tær eins og lindarvatn. Hann streymir til okkar úr eilífum djúpum Guðs og gefur okkur sífellt nýja möguleika. Nýtt ár, ferskt, óbrúkað og fullt fyrirheita, og við megum þiggja það úr gæskuríkri hendi Guðs.

Hið þriðja andlit tímans er geymt og hulið bak við þúsund slæður. Það andlit þekkir enginn nema hann sem er höfundur tímans. Skyldi nokkurt okkar geta að fullu ýtt til hliðar spurningunni: Hvað færir það okkur, mér og mínum nánustu, þetta nýja ár? Fæ ég að hafa þau öll hjá mér enn þegar því lýkur ? Og verð ég hjá þeim? Eða hefur lífsþráður einhvers okkar slitnað áður en árið er allt. Er þetta árið sem ég kveð?

Þótt þetta sé hið nýja ár hinna mörgu möguleika þá er nú samt æði margt sem fyrir kemst á heilu ári af áhyggjum og vonbrigðum og hættum og undrunarefnum og krepputímum og óróleika jafnt í einkalífi sem opinberu lífi. Það er heldur ekkert skrítið þegar fólk steypir sér yfir allskyns spádóma og stjarnarýni við áramót og reynir að halda dauðahaldi í það sem hugsanlega rættist úr síðustu spá. Framtíðin er jafn óljós og fyrr og vekur þeim sem eru óttaslegin sama ótta þrátt fyrir tölvuspár og völvuspár.

En við höfum ekki safnast saman hér í kirkjunni til þess að heyra spádóma um nýja árið, heldur af því að Guð sem tímann gefur, gefur einnig grundvöll að standa á, grundvöll sem heldur þótt misjafnt blási.

Þrjú andlit tímans kallast á við þrjár víddir nærveru Jesú Krists. Tíminn er það sem var, það sem er og það sem verður. Kristur er: Hann sem var, hann sem er og hann sem kemur. Eins og segir í Opinberunarbókinni: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur. Opb. 4.8b

Kristur er sá sem hefur allt vald á himni og á jörðu. Upphaf tímans er í hendi hans, endir allra tíma og eilífðin sjálf, því að hann er sá sem öllu ræður. Hann er sjálfur höfundur tímans. Hann er pantokrator, eins og margar stærstu kirkjur heimsins vitna um með myndum í hvelfingunni yfir altarinu. Við höfum heyrt við hverja einustu skírnarathöfn orðin: Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. (Matt.28.18)

Hvað merkir Jesú nafn í lífi einstaklings og þjóðar? Nýju ári mætum við með blendnum tilfinningum. Sum. Kannski flest. Alveg óháð því hversu oft við höfum mætt nýju ári. Við mætum því í blöndu eftirvæntingar og óvissu næstum því eins og par á fyrsta stefnumóti. Með spennu, með þrá og með heitum en ómótuðum tilfinningum.

Í miðju allra þessara hugsana er eigið líf, eigin fjölskylda, eigið heimili. Allar bænir okkar og góðar hugsanir byrja þar. Rétt eins og við kennum börnunum okkar í kvöldbæninni að nefna þau sem næst standa, fylgir það okkur sjálfum meðan við höfum vald á vilja og hugsun. Eins og líkaminn er settur saman úr óteljandi sjálfstæðum og samhangandi frumum og óx út af einni frumuskiptingu, eins er þjóðarlíkaminn settur saman úr þessum litlu einingum sem eru einstaklingar og fjölskyldur þeirra. Og heilbrigði þjóðarlíkamans fer eftir heilbrigði þeirra og hið góða sem þar verður til og er iðkað, gagnast heildinni beinlínis, rétt eins og hið skemmda og sjúka getur valdið varanlegri meinsemd.

Kristin kirkja safnast saman á fyrsta degi hins nýja árs  eins og guðspjallið boðar, í Jesú nafni rétt eins og hún gerir í sérhvert sinn og  hún ber fram bænir sínar. Kirkjan er í okkar huga þjóðkirkjan og allar aðrar kristnar kirkjur og kirkjudeildir. En kirkjan er auðvitað fyrst og fremst líf. Þetta líf birtist okkur á margvíslegan hátt og miklu oftar í því smáa en því stóra. Við sjáum unga foreldra koma með barnið sitt til skírnar og vitum að barnaherbergið verður helgidómur og heilög kirkja þegar þar eru beðnar bænir og lærðar bænir, svo snemma að næsta orðið sem barnið lærir á eftir mamma, er amen.

Þess vegna er enn til kirkja í þessu landi. Og þess vegna þurfum við ekkert að óttast um framtíð hennar. Framtíðin er þegar orðin sýnileg. Í börnunum. Ár er liðið. Allt hið forgengilega  eyðist, hverfur og týnist.  Hvað er það sem er? Hvað er það sem gefur lífinu gildi?  Hvað gefur mér sem manneskju gildi? Við viljum vita hvaðan við komum og hvert við förum og hver við erum. Vegalaus og vonarsnauð viljum við ekki vera  í þessum heimi.

Jesús Kristur er táknið um fyrirætlun Guðs. Í honum felst von Guðs um okkur.  Í hans nafni skulum við því ganga til móts við þetta nýja ár og heilsa því með fögnuði og eftirvæntingu.  Ef til vill er þetta síðasta árið mitt. Ef til vill alls ekki. Hvort heldur sem er er gott að hafa í huga að það gæti verið. Það gerir það enn þá dýrmætara. Hvern dag og hverja stund.

Kæri söfnuður. Við höfum fengið dásamlega nýársgjöf. Nýtt ár. Í Jesú nafni. Það merkir að við megum verða samferða sem kirkja, og samferða höfundi tímans allt hið nýja ár til enda, í öryggi, í friði og í kærleika. Í Jesú nafni er allur kraftur Guðs til sköpunar og frelsunar. Þegar við vorum skírð var þetta Jesú nafn lagt yfir okkur eins og skírnarklæði og teiknað á enni okkar og brjóst með krossmarkinu. Við heyrðum til þess vísað í pistli dagsins.

Þess vegna getur Jesús sjálfur sagt við okkur þegar við signum okkur á hinum fyrsta degi hins nýja árs: Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.(Lúk.12.32) Og ennfremur segir hann: Gleðjist ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“.(Lúk. 10.20).

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.