“Mikið eigið þið fallegar kirkjur hér á Íslandi”. Þessi orð sögðu við mig tvær konur frá mið Evrópu sem höfðu ferðast um landið og skoðað margar kirkjur á leið sinni.
“Kirkjurnar ykkar eru fullar af hlýju og birtu öðruvísi en þær kirkjubyggingar sem við þekkjum frá okkar heimahögum, þar sem flestar kirkjurnar eru stórar, kaldar, gráar og hálfdimmar” bættu þær við. Glöggt er gestsaugað, þessar konur vöktu mig til hugleiðinga um að að við hér á Íslandi eigum eitthvað sérstakt, ekki aðeins í náttúru og landslagi, heldur e.t.v. líka í kirkjunum okkar. Þegar ég er erlendis þá skoða ég gjarnan kirkjur, og hrífst ekki síst af fallegu miðaldakirkjunum sem eru svo víða í Evrópu með sínum mörgu og miklu listaverkum, mótaðar af mannlífi, trú og menningu margra kynslóða. Sumar frægar og aðrar minna þekktar en flestar hrífandi tákn um þrá mannsins að gefa Guði og húsi hans hina fegurstu dýrð, listaverkin við næstum hvert fótmál, jafnvel í hverjum kima og hverju smáatriði. Stórar og miklar sem tákn um mikilleik og hátign Guðs. Hugmyndir okkar um Guð og Guðsdýrkun endurspeglast á hverjum tíma í byggingum og list kirkjunnar.
Kirkjubyggingar hafa breyst í aldanna rás og hugmyndir mannsins um sjálfan sig, umhverfi, líf og tilgang hafa einnig tekið breytingum.
Við leitum kærleikans Guðs, hans sem gefur lífinu meira ljós og hlýju. Nálægur mitt á meðal okkar. Það sem gildir um útlit kirkjunnar, bygginguna sjálfa, á vonandi líka við um allt starfið og viðmótið og þjónustuna . Hið ytra, getur sagt mikið um það sem fer fram hið innra. Og öfugt. Kirkjubyggingar hafa um aldir mótast af áherslum trúar okkar. Íslenska kirkjan hefur haft sín sérkenni, litla sveitakirkjan er sennilega enn sterk í vitund þjóðar, þessi viðkunnanlega hlýja bjarta kirkja, þar sem flugan fær að suða í takt við prest og kirkjukór og gamla harmonium orgelið hljómar sterkt undir, með misjafnlega góðum tónum. Varla hefur verið gerð íslensk kvikmynd undanfarin ár, að þar komi ekki við sögu kirkja,gamla sveitakirkjan, hempuklæddur sérvitur prestur og misjafnlega samstilltur kór og gamalt harmonium. Jarðarför, guðsþjónusta eða sveitabrúðkaup. Hlý og björt mynd, séríslenskt myndefni, sem kallar fram góðlátlegt bros og vekur um leið hjá manni hlýjar minningar um bjart og gott sumar og sól. Í augum kvikmyndagerðarmanna virðist þetta hrífandi myndefni, kannski hinn sanni íslenski tónn!
Það er mikilvægt að halda í svona myndir um leið og við vefjum þær nútímalegum tilbrigðum. Móta áfram hlýja og bjarta og opna kirkju og kirkjustarf, þar sem söfnuði og samfélagi líður vel og þar sem margir eru þáttakendur eins og í gömlu sveitakirkjunni. Hinn almenni kirkjugestur leiðir sjaldan hugann að því, hvað margt þarf að gera áður en ein athöfn fer fram í kirkju. Í litlum sveitasöfnuðum verður það hins vegar svo ljóst.. Það þarf kór sem oftar en ekki er fjórraddaður og kórinn þarf og vill æfa vel og mikið. Það þarf organista og kórstjóra til að stjórna kórnum. Það þarf hringjara, sem kann að hringja kirkjuklukkum og það þarf meðhjálpara og það þarf að hafa kirkjuna hreina og sjá um að allt sé til reiðu, hreinsa flugur, halda við umhverfi og garði og svo er það gjarnan gamall og góður siður víða í sveitum landsins enn í dag, að bjóða kirkjugestum að þiggja messukaffi. Í litlum söfnuðum þarf því auk prestsins, samstilltan hóp sem leggur mikið á sig til að undirbúa og sjá um eina athöfn og margt er þar unnið af stakri fórnfýsi og kærleika. Þar hefur hver og einn hlutverk og það er sameiginlegt öllum að fólk leggur sig fram um að gera allt vel. Ekki endilega fullkomið, heldur af einlægni og það skiptir mestu.
Í augum útlendinga eru kirkjurnar okkar bjartar og hlýjar. Kirkjur sem ég hef komið í vítt og breitt um landið eiga það sameiginlegt, að það er vel annast um þær, þær bera því vitni að þær eru helgur staður í huga og hjarta fólks. Og þær vitna líka um trú okkar, um áherslurnar í trúarlífinu – í samfélaginu við Guð viljum við hafa nóg af birtu og hlýju.