Bænin

Bænin

Þá liggur okkur ekki mest á að fá rökrænar skýringar á bölinu og þjáningunni í veröldinni. Þá eigum við heldur ekki að byrja á því að sætta okkur við orðinn hlut, láta áhyggjurnar hverfa, sorgirnar hjaðna og kvíðann eyðast.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
04. febrúar 2008

Við verðum fyrir áföllum, harmi og vonbrigðum.

Þá liggur okkur ekki mest á að fá rökrænar skýringar á bölinu og þjáningunni í veröldinni. Þá eigum við heldur ekki að byrja á því að sætta okkur við orðinn hlut, láta áhyggjurnar hverfa, sorgirnar hjaðna og kvíðann eyðast.

Þá er okkar helsta verkefni að öðlast traust til lífsins á ný.

Til þess var okkur gefin bænin.

Í bæninni nálgumst við Guð með brennandi spurningar á vörunum og hjörtun full af kvíða, sorg og áhyggjum.

Ef til vill kunnum við aldrei betur að biðja en þegar við vitum ekki okkar rjúkandi ráð.

Jesús kom til þeirra Mörtu og Maríu. Marta var á þönum í kringum hinn góða gest en María settist við fætur hans og naut þess að vera í návist hans.

Jesús sagði að hún hefði valið góða hlutann.

Þann hluta veljum við þegar við biðjum.

Þá setjumst við hjá Jesú Kristi. Finnum nálægð hans. Skynjum elsku hans. Öðlumst traust og trú.

Geðlyf hjálpa mörgum og hafa blessað og bjargað.

Auðvitað eiga þeir að taka töflurnar sínar sem þurfa þess.

Kunningi minn úr læknastétt sagði mér samt að hann væri viss um að minnka mætti notkun á slíkum lyfjum í okkar heimshluta ef við kynnum betur að nýta okkur gjöf bænarinnar.

Værum meiri María en minni Marta. Þessi pistill birtist einnig á vefsíðu Svavars, og umræður um hann fara fram þar.