Da Vinci lykillinn og mælistika mömmu

Da Vinci lykillinn og mælistika mömmu

Saga Dan Browns og myndin gefur okkur guðfræðingum gullið tækifæri til að fræða fólk um tilurð Nýja testamentisins, um aðferðirnar sem beitt var við val á ritum í Biblíuna. Til að útskýra aðferðina sem beitt var tók ég með mér gamla mælistiku sem móðir mín notaði í vefnaðarvöruverslun foreldra minna upp úr miðri síðustu öld og líkti henni við kanón sem menn beittu forðum daga til að flokka ritin.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
24. maí 2006

Nýlega fór ég að sjá kvikmyndina um Da Vinci lykilinn sem er svo sem ekki til frásögu færandi nema fyrir þá sök að ég hafði með mér um 180 manns í bíó. Stærstur hluti þeirra sótti síðan fund að sýningu lokinni þar sem ég fjallaði um kenningar sögunnar og svaraði fyrirspurnum.

Saga Dan Browns og myndin gefur okkur guðfræðingum gullið tækifæri til að fræða fólk um tilurð Nýja testamentisins, um aðferðirnar sem beitt var við val á ritum í Biblíuna.

Mælistikan

Til að útskýra aðferðina sem beitt var tók ég með mér gamla mælistiku sem móðir mín notaði í vefnaðarvöruverslun foreldra minna upp úr miðri síðustu öld og líkti henni við kanón sem menn beittu forðum daga til að flokka ritin. Orðið kanón er komið úr egypsku og vísar til reyrstafs eða priks sem notað var til mælingar. Ég hefði alveg eins getað notað málband eins og smiðir nota nú til dags.

Mælistikan og Nýja testamentiðAðalatriðið er að fólk skilji líkinguna og að myndun helgiritasafns Nýja testamentisins var ekki samsæri vondra og valdasjúkra preláta og páfa heldur ritstjórnarvinna vandvirkra og heiðarlegra manna sem vildu varðveita vitnisburð hinna fyrstu votta að starfi Jesú Krists, dauða hans og síðast en ekki síst, upprisu hans.

Valið á ritum Nýja testamentisins var staðfest á fyrstu öldum kristni. Strax á 2. öld var til úrval rita sem helstu forsytumenn hins kristna samfélags viðurkenndu. Þar á meðal voru guðspjöllin fjögur sem eru í NT og mörg bréfa Páls postula. Mikilvægt var að varðveita frumheimildir og texta sem náðu allt til þeirra sem þekktu Jesú og numu boðskapinn af vörum hans eða vörum fylgjenda hans. Textarnir urðu að hafa verið ritaðir af postulum Jesú eða lærisveinum postula og í notkun hjá söfnuðum sem stofnaðir voru af postulunum eða lærisveinum postulanna. Lengra mátti ekki líða frá upprunanum. Þetta var mælistikan - kanóninn.

Í myndinni er vísað til Níkeuþingsins þar sem rætt var um eðli Krists. Guðdómur Krists var ekki ákveðinn með atkvæðagreiðslu á 4. öld heldur staðfesti Níekuþingið árið 325 það sem haldið hafði verið fram frá öndverðu til að mynda með þessari játningu: Jesús Kristur er Drottinn! (Fil 2.11)

Mögnuð setning

Ítrekað kemur fram á síðum Nýja testamentisins að Jesús var ekki aðeins maður af holdi og blóði heldur var hann jafnframt guðleg vera. Mér þykir framsetning Jóhannesar vera einstaklega glæsileg í því sambandi og hef haldið því fram að magnaðasta setning veraldarsögunnar hljóti að vera þessi: o logos sarx egeneto, Orðið varð hold. Hér vísar logos, sem þýtt er sem Orðið, til speki Guðs, eilífrar viskur, kraftar og innsta eðlis hans. Að segja slíkt undur með þremur orðum er hrein snilld: Guð gerðist manneskja af holdi og blóði, hann varð eins og við. (Jóh 1.14)

Jesús vísaði sjálfur til guðlegs uppruna síns eins og til að mynda þegar hann staðhæfir að hann hafi verið til á undan Abraham: „Áður en Abraham fæddist, er ég.“ (Jóh 8.58)

Nýja testamentið, sem var allt ritað á fyrstu öld og hlutar þess aðeins örfáum árum eftir krossfestingu Jesú og upprisu, er áreiðanlegt rit. Svo er ritstjórn vandaðra manna að þakka, þeir bjuggu til formúlu, kanón sem líkja má við mælistikuna hennar mömmu.