Jesús sagði við þá: Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann. Lk 11.5-13
Bæn
Mitt höfuð, Guð, ég hneigi, að hjartað stíga megi í bljúgri bæn til þín. Lát heims ei glys mér granda, en gef mér bænaranda og hjartans andvörp heyr þú mín. (Sb 338, Valdemar Briem)
Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen
Í dag er hinn almenni bænadagur. Bænadagurinn er ekki fundinn upp á Íslandi eða í Danmörku þótt einhverjum hafi dottið þaðí hug nýverið, heldur er hann sameiginlegur arfur kirkjunnar um allan heim allt frá því á 4.öld. Elstu siðir hans eru frá þeim tíma þegar kristin trú var að breiðast út meðal þjóðanna og rakst þá á ýmiskonar átrúnað, rétt eins og hún gerði hér á Þingvöllum fyrir þúsund árum rúmum, og gerir auðvitað enn víða um lönd og einnig hér. Bænadagurinn er þess vegna líka áminning um stefnumót siðanna og ólíkra trúarbragða og samstarf þeirra til friðar. Því að friður hefur alltaf verið eitt hið stærsta bænarefni kristninnar á öllum tímum. Þegar kristnin breiddist út mætti hún í mörgum tilfellum grónum siðum og hugmyndum þjóða og kynstofna. Í mörgum tilfellum tók kristnin upp gamla siði og gerði þá að sínum. Til dæmis var það svo með hið upphaflega tilefni bænadagsins, sem í fyrndinni var ákveðið að halda skyldi 25. apríl. Eiginlega var þetta á þeim tíma einskonar sumardagurinn fyrsti.
Sunnar í álfu er náttúran öll vel vöknuð af sinni vetrarhvíld og blessun gróandans blasir við. En reynsla kynslóðanna segir sem svo: Ekki er nú allt öruggt í þessum heimi. Þótt vorið lofi góðu getur sumarið orðið kalt, og fólk sem lifir af jarðargróða, eða fiskifangi eða hvorutveggja og hefur kannski marga munna að metta getur orðið órólegt út af minna máli en mögulegu árferði. Verður uppskeran góð, verður veiði í vatninu, viðrar vel til sjóróðra, lifa vorlömbin og koma þau væn af fjalli. Helst nytin í kúnum.?
Kæri söfnuður, þetta eru nú eiginlega flestum gleymdar spurningar? En það koma aðrar í staðinn. Þær snúast kannski ekki beinlínis um uppskeru, eða um það hvort mjólkin verði aftur seld á eina krónu, en þær snúast um spurningar sem tengjast árferði beint og óbeint. Þær snúast til dæmis um atvinnu: Í dag, 1. maí, snúast þær um það hvort það verði einhverja atvinnu að fá, hvort vinnandi folk haldi sinni vinnu og hvort atvinnulausir sem leita vinnu, finni hana: En þær snúast líka um heilsu, um árangur, um vonir, um vináttu, um framtíð barnanna, um heimilið og hjónabandið, - og þær snúast um grundvöll þessa alls: Hvað verður um mig og mitt fólk? Og þá er enginn munur á okkur hér árið 2005 og á þeim sem báru fram bænir sínar árið 305. Við getum ekki með okkar eigin framlagi tryggt það sem er okkur dýrmætast, sem er lífið sjálft og þau sem við elskum. En við getum að sjálfsögðu lagt sjálf mikið af mörkum til þess að standa vörð um eigið líf og eigið folk, - en það er annað mál. Við komum alltaf einhverntíma að mærum hins mögulega og þess við höfum ráð á. En þegar við rekumst á slíkar takmarkanir, þá verður eitthvað annað að taka við.
Við erum semsagt í þeim sporum á öllum öldum að þarfnast þess að ákalla Guð um hjálp, um styrk, um leiðsögn og blessun hans yfir fólk og fé og allt sem hann hefur skapað.
Og þá erum við komin að inntaki dagsins eins og það er skráð í guðspjallinu. Jesús Kristur átti það erindi við okkur þegar hann gekk hér um á jörðu að koma á beinu sambandi okkar við Guð, sem heyrir bænir.
Jesús segir í guðspjallinu :
Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.
Kæri söfnuður. Jesús Kristur, hann sem var krossfestur fyrir okkur og steig niður í hið djúpa myrkur dauðans og grafarinnar fyrir okkur, reis upp frá dauðum, sigraði sjálfan dauðann fyrir okkur: Þess vegna er sérhver bæn til Guðs sem borin er fram í Jesú nafni, heyrð bæn.
Og við megum treysta því algjörlega. Guð heyrir allar bænir. Ekki bara stórar bænir og hljómfagrar, með vönduðu orðalagi. Hann heyrir líka litlar bænir og klaufalega orðaðar og líka þær sem maður kann ekki að orða.
Nú segir þú kannski í hjarta þínu: En þegar sagt er að hann heyri bænir, er þá ekki líka átt við að hann geri eins og ég bið hann?
Að biðja er tvennt í senn. Það er að biðja Guð um eitthvað ákveðið og það er að fela málefni sitt Guð á vald. Í þessu felst að hann muni vel fyrir sjá og svari hann með öðrum hætti en ég vonaði þá hafi hann ástæðu til svara bæninni öðruvísi en ég vildi á þeim tíma sem ég bað.
Ekki ómerkari maður en nýi páfinn, Benedikt 16 sagði í móttöku sem hann hélt daginn eftir innsetninguna í embætti, að hann hefði beðið þess einlæglega að hann yrði ekki valinn páfi: Ég sagði við Drottinn, veldu einhvern sem er yngri. Ég er orðinn gamall og búinn að skila löngu dagsverki. Hann varð nú samt páfi. Og nú segja menn í spaugi: Er eitthvað gagn að páfa sem hefur ekki betra samband við Guð en þetta?
Kæri söfnuður. Alveg án gamans um páfa og ekki páfa: Bænadagurinn er auðvitað fyrst og fremst til þess að minna okkur á bænina. Biðjið án afláts. Og ekki gefast upp. Ekki skilja orðin í Faðirvorinu: verði þinn vilji, eins og þú ættir að segja við Guð: Þú veist og getur allt: Þú skalt ráða þessu. Þú vilt mér vel.
Sá andans andardráttur sé óslítandi þáttur á milli mín og þín, segir Valdimar Briem. (Sb 338).
Það er það sem bænin er: Óslítandi þáttur milli þín og Guðs, þegar á hann er reynt. Sé hann látinn afskiftalaus, þá fúnar hann.
Það má hafa það til marks, að faðir sem aldrei er beðinn um neitt er gagnslaus faðir. Hann er nánast bara eins og tæknileg nauðsyn.
Bænin er Guðssamfélagið sjálft eins og Hallgrímur yrkir um:
Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmislig. Þá líf og sál er lúð og þjáð, lykill er hún að Drottins náð.( Sb 337).
Bænin er lykill þinn að himnaríki og að vilja Guðs. Bænin er tæki til þess að hafa áhrif. Og fyrir því eru óteljandi dæmi. Við skulum líka þora að trúa því. Og við skulum ekki láta trufla okkur eitthvað sem er meintur skilningur almennings á því hvað er satt og hvað er viðeigandi. Við skulum ekki láta eitthvert fólk segja okkur að það sem við höfum reynslu af að sé til, sé ekki til. Það er algengt að mæta einhverskonar minnimáttarkennd þegar kemur að trúarefnum. Orð eins og bænheyrsla eru feimnisorð. Það er miklu auðveldara að segja : Kannski var þetta bara alltsaman bara tilviljun.
Og það er þá kannski líka vissara að vera ekki mikið að tala um englana þó að okkur hafi verið heitið því að við eigum hvert og eitt okkar verndarengil. Það er sjálfsagt auðveldara að segja bara si svona: Það er nú ekkert víst með þá og kannski er þetta nú bara alltsaman bara vitleysa. Og það eitt satt sem ég sé og get þreifað á.
Kæri söfnuður: Guði sé lof að það skuli ekki vera allt satt sem ég sé.
Við skulum ekki vera hrædd við að trúa. Það hefur alltaf verið til fjöldi fólks sem gerir bara gys að því. Við skulum heldur ekki vera hrædd við að biðja, - og biðja án afláts, líka um það sem að mati einhverra annarra, jafnvel læknavísindanna, er sagt vonlaust. Er einhver að deyja sem ég elska? Ég bið þess að Guð gefi líf og lækningu. Og ég hika ekki heldur um litlu málin. Ég læt ekki trufla mig hugsun eins og þessa: Á ég nokkuð að vera að ónáða Guð með þessu? Já, ég á einmitt að trufla hann. Hver sem kann að bera málefni sín fyrir foreldra sína veit að það snýst ekki bara um lausn á tilteknum málum, heldur einmitt um það að geta borið fram málefni sín og vandamál og áhyggjuefni nákvæmlega eins og þau eru. Þess vegna verðum við að nefna þau réttum nöfnum.
Þegar Jesús kenndi okkur að biðja þá var það ekki í óljósu líkingamáli. heldur alveg ákveðið. Hann sagði : Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Í fullvissu trúarinnar á bænheyrslu biðjum við. Í fullvissu þess að Jesús er upprisinn og að hann stígur upp til himna og að hann tekur okkur þangað til sín um síðir, þannig biðjum við, og þannig þökkum við fyrir allt sem við höfum tekið á móti.
Í dag leggjum við fram fyrir hann ár og árferði, fólkið og áhyggjur þess, vinnandi folk og atvinnulausa, biðjandi folk og bænarlaust, að það megi læra að treysta Orði Guðs og treysta Jesú sjálfum. Hann segir: Biðjið og yður mun gefast! Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen