Siðan reis með sigri dauða sunnudag og gjörði kunnan Sinn ódauðleik mörgum manni Mildin sjálf, þótt deyja vildi. Gleðilega hátíð. Þannig kvað Eysteinn munkur í Lilju, sem allir vildu kveðið hafa, eitt frægasta helgikvæði sem ort hefur verið á íslenka tungu og var gert á miðri fjórtándu öld. Guðbrandur Þorláksson, hinn lútherski biskup, sem hafði forgöngu um svo margt í landinu til farsældar, lét prenta Lilju í Vísnabókina árið 1612 sem síðan hefur lifað með þjóðinni allt fram á þennan dag. Það er engin tilviljun, að skáldið nefnir sunnudag, upprisudaginn og fyrsta dag vikunnar sem varð hvíldardagurinn í stað laugardagsins samkvæmt gyðinglegri hefð. Þetta er eitt dæmið af mörgum um hve upprisa Jesú hafði og hefur haft mikil áhrif á daglegt líf. Alþýðukonurnar sem komu að gröf Jesú á páskadagsmorgni gátu ekki látið sér til hugar koma dýrmæt sporin sem þær voru að marka í mannkynssöguna. Og þeirra er minnst með nafni enn í dag um veröld alla. Og ekki hefur Eysteini munki komið til hugar, þegar hann sat við ljóstýru með fjöður í hendi og orti Lilju, að hans yrði minnst fyrir það, að allir vildu hafa getað kveðið eins og hann. Og engum sem stóðu við krossinn á Golgata á föstudaginn langa gat til hugar komið, að þau væru viðstödd atburð sem átti eftir að valda slíkum straumhvörfum. Og gerir enn og lætur fólk ekki í friði. Í Norður Karólínu í Bandaríkjunum í finu hverfi var sett upp listaverk ekki langt frá kirkjunni. Verkið var afsteypa af útigangsmanni undir teppi liggjandi á bekk með rýrar fæturnar undan með naglaförum. Fólkið skynjaði strax, að þar lá hinn krossfesti Jesús, útskúfaður útigangsmaður. Upphófust þá í samfélaginu miklar umræður um Jesú og boðskapinn sem listaverkið gæti falið í sér. Hver var þessi Jesús og hvaða merkingu hefur hann fyrir okkur núna? Oft hefur verið sagt um trúarbrögðin, að tíðarandinn lagi guðdóminn að óskhyggju sinni, þörfum og væntingum. Sagan þekkir því miður dæmin mörg um það, þegar furstarnir háðu stríð í nafni trúarinnar og létu Guð helga meðal og tilgang. Og gerist enn í dag. Þess vegna kemur í opna skjöldu, þegar skáldið eða listamaðurinn bregður upp mynd af Guði sem fellur ekki alveg að viðteknum hugmyndum. Jesús sagði: “Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðu mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín..... Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.” Heimilislaus og krossfestur Jesús með naglaför á fótum á bekknum í fína hverfinu er áminning um, að Guð vitjar þín, ekki endilega eins og þú reiknar út og býst við, heldur samkvæmt vilja sínum. “Mér finnst gott að setjast á bekkinn við hliðina á Jesú, krossfestum og heimislausum, og leyfa mér að hugsa um lífið, ábyrgð mína, tilgang og hlutskipti”, sagði kona ein sem bjó í nágrenni við listaverkið. Að setjast hjá Guði og eiga samtal við hann í líkingu krossfests útigangsmanns. Þetta hljómar svolítið fráleitt. En er það svo? Að undanförnu hefur fjölmiðlum verið tíðrætt um 16 prósent fátækt á meðal íslenskra barna og undirtóninn í þeim fréttaflutningi er: Þetta er óásættanlegt, hneyksli, ólíðandi. En er það sjálfgefið gildismat að elska náungann? Náttúrulögmál eða meðfædd skoðun inn í sálina? : Svo rótgróið er það í íslenska vitund, að fjölmiðlar boða kristinn mannskilning af mætti og halda á lofti boðskap Jesú Krists;: “Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér....Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig”. Í öndverðu á dögum Jesú, þá olli þessi boðskapur uppnámi og var þvert á allt viðtekið gildismat þeirra tíma. Þá var fátækt líkt við synd og fátækir ekki samboðnir efnuðu fólki, sjúkdómum líkt við bölvun hins illa, enda voru holdsveikir fordæmdir til að vera utangarðs á haugunum og mótlæti stafaði af Guðs hefnd. Eru enn trúarbrögð að verki í heiminum sem móta gildismat þjóða á slíkum grunni og verða þau sökuð um skort á þekkingu og skynsemi? Trúin er og verður uppspretta siðrænna gilda og mótar gildismat. Það skiptir máli hvaða trúarsiður ríkir og hvernig að þeirri rækt er staðið. Fjölmiðlar efast ekki um siðinn í okkar landi og setjast á bekkinn með Kristi, krossfestum útigangsmanni. En þá skiptir öllu máli kjarninn í trúnni. Í kristinni trú er upprisa Jesú Krists þungamiðjan. Guð, sem líka er krossfestur og heimilislaus liggjandi á bekk með naglaför í fótum, Guð sem lætur ekkert í lífinu vera sér óviðkomandi, Guð sem mætir mér og þér svo óvænt, að manni kæmi slíkt ekki til hugar. Enda hafði enginn gert ráð fyrir upprisu Guðs á páskadagsmorgni eins og guðspjöllin greina frá. Og miklu hefur sá atburður valdið eins og reynslan vitnar um. Íslenskir fjölmiðlar boða kærleika Krists í fréttum sínum á sama tíma og sömu fjölmiðlar flytja fréttir af því að setja verði boðskap kristinnar trúar skorður í þjóðlífinu, sérstaklega varðandi uppeldi barnanna á vegum hins opinbera. Páll postuli sagði, að án upprisunnar væri predikun vor ónýt. Þessi predikun heitir kærleikur sem aldrei fellur úr gildi fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum. Eysteinn munkur orti í Lilju um upprisuna: “Mildin sjálf, þótt deyja vildi”. Það var reynt með ofbeldi dauðans á krossinum að útrýma þeirri mildi sem í boðskap Jesú fólst um að elska Guð og náungann. En Guð átti þar óvænt síðasta orðið í upprisu frá dauðum. Það heitir kærleikur, sigur lífsins. En hvað sem líður hugmyndum manna um Guð, og hvernig sem menn reyna að laga Hann að þörfum sínum, óskhyggju og væntingum, þá er Guð samkvæmur orði og vilja sínum og gefst ekki upp við að kalla til skapandi verka mannlífi til farsældar. Og þeir vegir Hans eru bókstaflega órannsakanlegir. Það kennir saga manns og Guðs. Í þeirri sögu standa í miðju kross og opin gröf, maður með kross að vopni, en Guð í upprisu til eilífs lífs. Þar festi trú, von og kærleikur rætur sínar og við biðjum að af þeim rótum megi blómgast fagurt mannlíf. Eins og vorið kemur með fegurðina í grósku jarðar, þá er upprisa Jesú Krists eins og andans gróandi sem nærir líf og sál. Og það er enn siður þjóðar að að njóta þess. Þess vegna gat Davíð, skáld frá Fagraskógi, vonað og ort: En mildi Guðs er mannkyn háð, að minnast hans er æðsta náð, án hans er engin hetja glæst, án hans fær enginn draumur ræst. Amen.
Á bekknum með Kristi útigangsmanni
Flokkar