– Þankar um Þjóðkirkjuna 4 Prestar, djáknar, organistar, starfsfólk í kirkjustarfi eru þau sem sækja á miðin fyrir kirkjuna. Þau eru í starfi til þess að veiða menn og næra trúna, þjóna andlegu lífi þeirra og hjálpa þeim að ná vaxtarmarki Kristfyllingarinnar svo sem postulinn ræðir. Allir aðrir kristnir hafa sömu skyldu en þá á vettvangi frjáls vitnisburðar og starfs.
Að þjónum kirkjunnar þarf því að hlúa. Menntun þeirra þarf að vera markviss og hagnýt, til þess löguð að starf þeirra verði árangursríkt og þeim sjálfum til gleði og uppbyggingar. Nám í guðfræðideild hefur löngum haft önnur sjónarmið ofar í huga. Það eru ekki aðeins við sem erum orðin gömul sem höfum orðið að leita okkur verkfæra á vettvangi og þau áhöld sem við höfðum í verkfærakistunni frá náminu þörfnuðust flest skerpingar og lögunnar.
Að guðfræðináminu loknu var þekkingin á boðskapnum skást og messusöngurinn var í lagi. Skilningur á samfélaginu var góður og en kirkjuskilningurinn á reiki, en það vantaði þekkingu og færni við að koma þessu til skila. Ég hygg að þetta hafi ekki breyst nóg.
Guðfræðideildin hefur jafnan haldið í hið akademíska í náminu en þá hefur kirkjan sjálf ekki átt leiðir til þess að bæta við. Námskeið hjálpuðu nokkuð en þau komu ekki markvisst inn í starfsmótunina. Þjóðkirkjan þarf því nauðsynlega að finna ráð til þess að setja upp umfangsríkt praktískt nám fyrir þjóna sína.
Þá er og nauðsynlegt að stuðla að uppbyggingu í starfi með kerfisbundnum hætti. Þjóðkirkjan þarf að sjá til þess að þjónar hennar fái tækifæri til þess að vaxa og þroskast sér til fullnægju og kirkjunni til heilla. Tækifæri til þess hafa verið vannýtt og sú endurmenntun sem kostur hefur verið á hefur nú lagst niður vegna fjárskorts. Nauðsynlegt er að það verði fundin lausn á því hið fyrsta.
Þá hefur það verið viðvarandi vandi að prestar hafa átt erfitt með að fá flutning í starfi. Það er augljóst ógagnið af því fyrir alla aðila. Þetta virðist ekki vera jafn mikið vandamál annars staðar og því hlýtur að mega finna á því lausn. Ég hef bent á mögulegar lausnir í því að enskri fyrirmynd og líkist því sem tíðkast í stórum fyrirtækjum. Kirkjustjórnin semur þá fram lausn sem söfnuðurinn tekur afstöðu til að lokum. Geta allir aðilar átt frumkvæði að breytingum og við það miðað að þjónarnir starfi ekki lengur en sem svarar 10-15 árum á hverjum stað.
Það er jafnt hagsmunamál presta og safnaða að hreyfing sé á prestunum. Það er auðvelt að staðna og láta verkin fá fábreytta rútínu. Hins vegar er það vekjandi að fá að reyna krafta sína við nýjar aðstæður. Söfnuðurinn slær sér til rólegheita með tímanum og verður ekki svo auðveldlega vakinn til nýrrar hugsunar og átaka.
Þá er ástæða til þess að gefa gaum að andlegri rækt þjónanna og helgihaldi. Auðvitað á hver prestur að hafa reglu á helgihaldi sínu og hvernig sem því verður við komið að gefa söfnuðinum tækifæri til það taka þátt í því að einhverju leyti, td með morgun-, hádegis- eða kvöldbæn í kirkjunni. Um þetta þarf klerkdómurinn að fjalla og setja sér reglur þar um að frumkvæði leiðtoga sinna. Þessu hefur að vísu farið fram seinustu áratugi en fleiri skref þarf að taka svo að vitnisburður þjónanna um nauðsyn bænalífs birtist í daglegu helgihaldi þar sem því verður við komið.