Gleðileg jól. Og nú opnum við vitund okkar gagnvart jólasögunni. Í helgileik í skóla var átta ára drengur að leika í fæðingarsögu Jesú. Hann lék harðlyndan hóteleiganda, sem ekki vildi leyfa óléttri konu að komast í skjól. Meðan drengurinn beið eftir að María og Jósef kæmu að dyrum hans velti hann vöngum yfir hlutverki sínu. Að hurðarbaki dagaði á hann, að hótelkarlinn væri verulega vondur. Hvaða góður maður sendir burt konu sem væri komin að fæðingu? Gat hann leikið svona hrotta? Á jólunum ættu allir að vera góðir. Allt í einu var drengurinn kominn í bullandi siðklemmu. Meðan hann var að hugsa sinn gang kom að þeim dramatíska hápunkti, að hjónaleysin í jólasögunni börðu að dyrum. Drengurinn lauk upp og örvæntingarfull spurning hljómaði. „Er eitthvert pláss fyrir okkur í gistihúsinu?“ Drengurinn hikaði og svaraði ekki strax en allir þekktu framhaldið, leikarar og tilheyrendur. Þegar hann svaraði loks sagði hann skýrt en óvænt: „Já, hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin og látið fara vel um ykkur!"
Hvíslarinn í leikritinu glennti upp augun og hálfkallaði til stráksins: “Nei, hér er ekkert pláss.” Og hann endurtók setninguna: “Nei, ekkert pláss.” Nokkrir leikaranna flissuðu í stresskasti, en önnur fölnuðu. Leikstjórinn fórnaði höndum og svo hló einhver. Kennararnir sprungu úr hlátri og að lokum hló allur salurinn hömlulaust.
Þetta er jólasaga um hið óvænta, sem öllu breytir. “Já, hjá mér er nóg pláss.” Hér var öllu snúið við og mannvonskan varð að góðmennsku. Slæmar fréttir urðu góðar. Og þannig er raunar sagan um komu Jesú. Stundum þarf að vitja sögu með nýjum hætti til að skilja hana. Stundum þarf róttæka hliðrun til að viskan dagi á menn og kátínan sömuleiðis.
Sögur – mismunandi nálgun Jólasagan um komu Jesúbarnsins er sögð ár eftir ár, leikin, túlkuð, endursögð og prédikuð. Við leyfum henni að seitla inn í okkur því hún varðar það mennskasta af öllu mennsku, fæðingu barns. Jólasagan er grunnsaga. Svona helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þær eru ekki á yfirborðinu - heldur dýptina. Þær skiljast ekki með einföldum hætti, heldur eiga sér plús eða ábót, sem ekki birtist nema með því að lúta að sögunni, upplifa hana – eða breyta henni.
Plússaga fyrir líf þitt Ár eftir ár heyrum við söguna um Jesúbarnið sem kemur. Ár eftir ár leggjum við eitthvað inn í þá sögu eða fáum út úr henni. Ár eftir ár komum við að sömu atburðum. En við heyrum hana og skiljum mismunandi allt eftir því hvernig okkur líður, í hverju við höfum lent og í hverju áhyggja eða gleði okkar er fólgin. Við heyrum söng englanna ef við erum ástfangin og fagnandi. Við skynjum höfnun gistihússkarlsins ef við erum í kreppu og höfum reynt höfnun. Við skiljum angist Jósefs ef við höfum verið kokkáluð eða lent í erfiðum aðstæðum.
Við erum á stöðugri hringferð ársins og í spíral tímans. Við eldumst og þroskumst, ávinnum og missum, gleðjumst og hryggjumst, náum heilsu eða töpum henni, vinnum í lotteríum lífsins eða töpum öllu.
Allt hefur þetta áhrif á vísitölu gleðinnar eða stuðul hryggðarinnar í lífinu. Og við gerum best að læra að lifa í spíral þroskans og ná að koma að áningarstöðum árs og lífs með nýjum hætti og vilja til visku.
Aðalsagan Hvernig skilur eða skynjar þú jólasöguna? Helgisaga af slíkri ofurstærð eins og frumsagan um fæðingu Jesú skyldi ekki vanmeta sem glimmersögu eða glanssögu, sem aðeins gagnast börnum.
Allar stóru helgisögur mannkyns eru sögur á mörgum plönum og með mörgum túlkunarvíddum. Þær eru klassík, sögur, sem alltaf megna að bæta við og segja eitthvað nýtt. Þær lifa af strauma tímanna, kröfur þeirra einnig. Þær sigla heilar yfir öldufalda fordóma og smekkbreytinga. Þetta eru sögur, sem eiga sér dýpt og ábót. Þetta eru plússögur, sem menn græða alltaf á, en aðeins ef staldrað er við til að hlusta, skoða, nema og skilja.
Plús Guðs Drengurinn í helgileiknum skildi allt í einu, að hótelstjórinn gerði rangt. Krísan varð tækifæri. Þannig er það líka í þínu lífi. Það er ekkert sjálfsagt, að þú haldir jól með gömlu móti, gömlum hugsunum, sem þjóna lífsgæðum þínum ekki lengur. Það getur verið, að þú hafir lent í einhverju á árinu, sem hefur breytt lífi þínu. Það getur verið, að eitthvað hafi kallað til þín, en þú hafir ekki sinnt því. Það getur verið, að þú alir með þér þrá hið innra, sem ýtir við þér. Þá máttu spyrja hvort þú eigir að leika hlutverkið samkvæmt gömlu handriti, eins og alltaf hefur verið gert og allir ætlast til af þér? Getur verið að þú megir hlusta á klemmu þína og opna hjartað að nýju. Verður þú að hjakka í sama gamla farinu – eða er pláss hjá þér fyrir nýjung lífsins?
Jólasagan er ekki um fortíð heldur líf okkar í nútíð. Sagan virkar enn og á sér alls konar útgáfur og tilbrigði líka um þessi jól. Það var undursamleg tilkynning sem birtist á facebook fyrir nokkrum dögum. Kona sem á íbúð í miðbænum í Reykjavík - í nágrenni Hallgrímskirkju - tilkynnti að hún myndi ekki nota íbúðina sína yfir jólin og ef einhvern vantaði húsaskjól vildi hún lána íbúðina. Ekki fyrir gjald – heldur ókeypis þeim sem þyrftu. Eina skilyrðið var að nágrannar yrðu ekki fyrir ónæði. Hvílík gjafmildi, traust og elskusemi. Og margir hrifust af. „Já hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin.“ Rétti jólaandinn.
Jólin - tími fyrir hið stóra Áramót eru fín til endurmats, en jólin eru ekki síðri. Við áramót eru skil tímabúta, en á jólum kemur eilífðin inn í tíma. Undrið verður þvert á hversdagsleikann. Allt, sem er útflatt í lífi þínu má breytast. Allt, sem er orðið slitið og gamalt, má endurnýja. Gömlu handritin þín eru kannski alveg úrelt. Og mestur er plúsinn um Guð, sagan um, að Guð elskar svo óendanlega, að jafnvel fúlir hótelhaldarar geta séð, að lífið er að fæðast. Guð kallar til manna í iðju lífsins, kallar til þín.
Megum við gista hér, er pláss hjá þér? Drengurinn opnaði upp á gátt og sagði: “Já, hjá mér er nóg pláss.” Konan í miðbænum líka. Og nú er komið að þér. Eru föstu liðirnir eins og venjulega óumbreytanlegar skorður – eða má bjóða þér að upplifa undur lífsins? Verið velkomin er erindi jólanna, þegar allt verður nýtt, spuni lífsins verður eins og hann á að vera og hlátur og gleði berst um sal og heim. Það eru gleðileg jól, sem Guð vill gefa þér.
Amen
Hallgrímskirkja, jólanótt.
Bæn Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem komst til manna á jólum. Við bjóðum þig velkominn til þinna - fögnum þér. Þökk fyrir að þú varðst maður, barn meðal okkar, fyrir okkur. Þú ert eilífð í tíma, opnar nýjar víddir öllum. Dýrð sé þér Guð í upphæðum.
Blessa þau sem líða, eru sjúk og aðþrengd. Við nefnum nöfn þeirra í huga okkar. Vitja þeirra Guð.
Blessaðu fólkið okkar, þau sem sitja við hlið okkar, þau sem eru heima, þau sem eru fjarri okkur, þau sem við vildum vera nánari.
Vitja hinna fátæku, þau sem eru á flótta undan stríðum, hin kúguðu og rétt hlut þeirra. Kenn okkur ábyrgð í verki, að opna dyr okkar og segja: Já, nóg pláss, verið velkomin. Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu meðal allra manna. Í Jesú nafni - amen