Gallup spyr í skoðanakönnunum sínum hvort aðskilja eigi kirkju og ríki. Með spurningunni gefur Gallup út skýr skilaboð, að kirkja og ríki séu saman eitt. Það er tæpast pólitísk afstaða, langtum fremur ábyrgðarlaus áróður. Nú á Gallup mikið undir trúverðugleika og trausti, en grefur undan því með þátttöku í þessum leik. Fyrirtækið fer án efa að ríkislögum í rekstri sínum og gerir samninga við ríkið. Er þá fyrirtækið ríkisrekið og spyr næst: „Viltu aðskilja ríki og Gallup“?
Einu sinni var Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, spurður í fjölmiðlum hvort hann vildi aðskilja ríki og kirkju. Hann svaraði að bragði: „Hvað á að aðskilja“? Þá varð ekkert um svör. Björn Bjarnason, þáverandi kirkjumálaráðherra, sagði frá því á kirkjuþingi fyrir nokkrum árum, að nú væri ekkert eftir af rekstri og verkefnum kirkjunnar í ráðuneytinu nema, að ráðherra gæfi út gjaldskrá fyrir aukaverk presta. Allt annað væri í umsjá kirkjunnar sjáfrar. Enda er hverjum manni ljóst, sem les lögin um Þjóðkirkjuna frá árinu 1998, að hún er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu. Það er kjarninn í lögunum. Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er því aumkunarverð tímaskekkja og kæfir alla skynsamlega umræðu um skipan trúmála í landinu.
En ríki og kirkja eiga með sér traust samstarf eins og gildir um fjölmörg félög og fyrirtæki í landinu, starfa samkvæmt lögum og gera samninga við ríkið af ýmsum toga. T.d. eru lög um skipulag og rekstur fjármálafyrirtækja langtum ítarlegri, en lögin um kirkjuna. Engum dettur í hug að þau þurfi að aðskilja frá ríkinu, nema þau séu eign þess. Hvergi í lögum er kveðið á um að ríkið eigi kirkjuna, þvert á móti, þar sem lögð er áhersla á að hún sé sjálfstæð og lúti eigin stjórn og skipulagi.
Samningur ríkis og kirkju um kirkjujarðirnar frá 1997 hefur gjarnan verið nefndur sem dæmi um sérstaklega náin ríkistengsl kirkjunnar. En þau, sem skoða þann samning, sjá strax að er viðskiptasamningur á sjálfbærum grunni, og ekki síst hagstæður ríkinu sem fékk til fullra umráða kirkjueignirnar og arðinn af þeim. Þar á meðal eru dýrustu jarðir landsins og verða sumar aldrei metnar til fjár. Í afgjald fyrir jarðirnar greiðir ríkið m.a. laun 138 prestsembætta, sem hefur með niðurskurði undanfarinna ára fækkað í 107 embætti.
Nú má eflaust hugsa sér annað fyrirkomulag á samingnum, en breytir því ekki, að jarðirnar eru eign kirkjunnar og verða ekki frá henni teknar, án þess að gjald komi fyrir, og enginn breytir því með óskhyggju sinni. Þá gæti komið til álíta, að ríkið þjóðnýti jarðirnar. Ef til vill hafa ungir sjálfstæðismenn hafat það í huga á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í kröfu sinni um aðskilnað rikis og kirkju, og yrði þá stærsta þjóðnýting sem fram hefur farið á Íslandi. Ég hefði búist við, að ungliðum Vinstri grænna og Samfylkingar gæti frekar dottið slíkt í hug, hvað sem það mundi svo kosta íslenska skattgreiðendur. En sú aðgerð myndi á engan hátt breyta stöðu kirkjunnar sem yrði áfram sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu eins og hún er í núna.
Annar aðaltekjustofn kirkjunnar eru sóknargjöldin, elstu félagsgjöld á Íslandi, og ríkið innheimtir fyrir öll trú-og lífsskoðunarfélög í gegnum skattkerfið. Það er þekkt, að ríkið innheimti félagsgjöld fyrir atvinnu-og félagslífið í landinu. Þess nýtur t.d. Siðmennt. Er það þá ríkisrekið lífsskoðunarfélag og þurfi að aðskilja frá ríkinu? Eða verklýðsfélögin sem ríkið innheimtir ýmis gjöld fyrir, t.d. félagsgjöldin af starfsfólki sínu. Að vísu hefur ríkið undanfarin ár tekið væna sneið af sóknargjöldunum í sinn eigin rekstur og nemur nærri fjórðungi gjaldsins. Líklega hafa engin frjáls mannúðarfélög eins og trúfélögin greitt annað eins í aukaskatt í ríkissjóð af lögbundnum tekjum sínum.
Einnig er bent á, að prestarinir séu opinberir embættismenn. Það er rétt, en ekki ríkisins, heldur kirkjunnar sem borgar þeim laun með afgjaldinu af kirkjujörðunum. Enda skipar Biskup presta í embætti, en ekki ráðherra, eins og áður gilti. Þar skilur á milli og ítrekar aðskilnað og sjálfstæði kirkjunnar frá ríkinu. En með því að vera opinberir embættismenn, þá falla prestarnir undir viðkomandi lög um réttindi og skyldur, ekki síst vegna almannaþjónustunnar sem þeir veita, og almenningur hefur mikla hagsmuni af og eðlilegt er að vernda með skýrum ákvæðum laga.
Þá er oft haft á orði að kirkjan sé ríkisrekin með ákvæðinu í 62.gr. stjórnarskrárinnar. Þar stendur: „Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera Þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda“. Hér er engin skipun um ríkiskirkju. Þvert á móti. Það er aðskilið á milli kirkju og ríkis. Margir einblína þá á verndina og stuðninginn við kirkjuna, en þá er það skilyrt. Ákvæðið felur í sér, að Þjóðkirkjan sé evangelísk og lútersk, og „að því leyti“ njóti hún verndar og stuðnings. Þetta er því ekki síður yfirlýsing um stuðning og vernd við ræktun menningar á kristnum grunni. Um þetta ákvæði var kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána, þar sem lagt var til að það yrði afnumið. Því var hafnað með afgerandi meirihluta og var einasta tillagan í þeirri atkvæðagreiðslu sem þjóðin hafnaði.
Hér er einmitt komið að kjarna máls. Þjóðkirkjan er samofin sögu og menningu þjóðarinnar og hefur umsjón með dýrmætum menningarverðmætum, boðar og ræktar kristinn sið um mannréttindi, frelsið, helgi lífs og virðingar sem hefur mótað samfélög Norðurlanda um aldir, þar sem lútersk menning og gildismat festi dýpstu rætur. Þar standa ríki og kirkja náið saman um að rækta sambúð kristni og þjóðar. Viljum við breyta því? Gallup gæti spurt um það.