„Hvert örstutt spor“

„Hvert örstutt spor“

Ég hugsa oft til kynslóðarinnar sem er að taka út vöxt í þessu andrúmslofti hvernig jarðvegur þeirra er inn í framtíðina, ég held t.d. að reiði okkar sem eldri erum kenni hinum yngri ákveðið miskunnarleysi, það hlýtur að vera mjög þrúgandi að alast upp í samfélagi sem líður engin mistök

Söngvaskáldið Svavar Knútur hélt tónleika á Amtsbókasafninu milli jóla og nýárs, þar komu saman fullorðnir og börn í útigöllum með rjóðar kinnar og einlægni í augum, litlir strákar með popp í poka og telpur með reittar fléttur undan lambúshettunum, úti var tekið að rökkva en inni skein ljósið í margbreytilegri mynd, lítill þriggja ára snáði skreið upp í fangið á mömmu þegar vögguvísan úr Silfurtunglinu ómaði um bókasafnið, „hvert örstutt spor er auðnuspor með þér“ sennilega hefur þeirri vísu sjaldan verið fundin jafn góður staður eins og þarna þar sem hver tónn, hver hljómur sveif angurvært um svæðið og settist að í hugum og hjörtum viðstaddra. Þegar maður gengur um bókasafn virðast kilirnir eitthvað svo dularfullir og þögnin sem varir ýtir undir spennuna um allar þær sögur sem sitja þarna á pappír og bíða þess að mannshugurinn gefi þeim líf. En þarna á þessum tónleikum flutti söngvaskáldið okkur sögurnar með undurfögrum tónum og svo tók hann fram ljóðabók eftir vin sinn Aðalstein Ásberg Sigurðsson og las nokkur kvæði sem áttu erindi bæði við fullorðna og börn.

Það var eitt sem hann Svavar Knútur sagði á þessum tónleikum sem settist að í huga mínum og ég er svo sammála og held að sé svo vanmetin þáttur í mannlífinu, það er þetta með mikilvægi þess að þekkja sögu sína, sögu þjóðarinnar og menningararf. Ég veit að í fyrstu hljómar þetta eins og upphaf að ávarpi forseta Íslands eða jafnvel eins og framboðsræða í forsetakosningum sem ég hef vissulega íhugað en ætla að geyma að sinni en það sem hann Svavar sagði í framhaldinu sem ástæðu fyrir mikilvægi þess að þekkja söguna og menningararfinn og miðla honum áfram er að það dregur úr fordómum gagnvart annari menningu og þar af leiðandi gagnvart fólki af annari menningu. Ég get heilshugar tekið undir þessi rök, stundum hefur mér fundist svona tal miðaldra fólks um menningararfinn og blablablablablabla svolítið uppskrúfað og asnalegt, en þegar ég horfi á það með þessum gleraugum sem söngvaskáldið rétti mér þá er ég algjörlega sannfærð um gildi þess. Já og hvers vegna dregur það úr fordómum og hreinlega rasisma? Jú vegna þess að sá sem þekkir sjálfan sig og hvílir í sjálfum sér, menningu sinni og umhverfi, er öruggur og þarf ekkert að óttast. Og þegar maður er öruggur þá ræðst maður ekki á aðra. Þess vegna eru bókasöfn mjög nauðsynleg að ég tali nú ekki um foreldra sem fara með börn sín á bókasöfn og foreldra sem segja frá gömlu skáldunum og frelsishetjunum og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og kvennabaráttunni og fyrsta kvenforsetanum, foreldra sem fara með kvæði og ljóð og raula þjóðvísur og sálma þó þau kunni ekkert að syngja, eins og mamma mín sem söng alltaf „Sofðu unga ástin mín „ eins og hún væri Janis Joplin á efri árum, en þannig lærði ég líka það ljóð úr leikriti Jóhanns Sigurjónssonar, Fjalla Eyvindi og hef kunnað það síðan. Og svo þurfum við að segja börnunum okkar frá landinu, kenna þeim að þekkja staði og helstu örnefni svo þau tengi sig við náttúruna af því að nöfn eru svo persónuleg og hjálpa okkur að tengja, já líka nöfn á fjöllum, börnin verða líka að þekkja fuglana og jurtirnar, þekkja munin á Gleym mér ei og Sóley, þekkja Æðarblikan og Kolluna, Spóan og Lóuna og þjóðsöngin, „ eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður Guð sinn og deyr“ ekkert af þessu hefur neitt með þjóðernisrembing að gera af því að þjóðernisrembingur kemur til af skorti, andlegri fátækt, öryggisleysi og upplýstur maður er ekki öryggislaus, þvert á móti er hann líklegur til að sigla skipi sínu lengra og nema ný lönd.

Og nú stöndum við frammi fyrir nýju ári og nýjum tækifærum og eflaust eigum við öll eftir að nema ný lönd á þessu ári hvort sem þau eru innra með okkur í sál okkar og tilfinningum eða í umhverfinu hérlendis og erlendis, en hvort heldur sem er þá er mikilvægt að vera öruggur í sjálfum sér þegar nýjir tímar koma, breyttar aðstæður, í sorg jafnt sem gleði. Það er svo merkilegt að sjá hvernig manneskjur takast á við breytingar, þær takast á við breytingar eins og þær hafa forsendur til. Fólk tekst á við sorgina eins og það hefur forsendur til, þess vegna eigum við mis erfitt eða auðvelt með að vinna úr áföllum og sorg, eins er með ástina og ástarsambönd við mætum líka ástinni eins og við höfum forsendur til, þannig að það er mikið í húfi, þess vegna er svo mikilvægt að fara reglulega í gegnum sjálfan sig einfaldlega til að efla sjálfsþekkinguna, vita hver maður er og hvað maður getur. Og það er ekki gert til að vinna stóra sigra á alþjóðavettvangi eða hljóta einhvers konar opinbera viðurkenninginu, verða frægur og vinsæll, heldur til að fara vel með þessa gjöf sem lífið er, sýna því lotningu eins og fjárhirðarnir og vitringarnir sýndu Jesúbarninu, holdgervingi sannleika og réttlætis.

Fortíð, nútíð, framtíð, hin heilaga þrenning tímans verður okkur oft hugleikin um áramót, við höfum tilhneigingu til að stunda sjálfsskoðun á þessum tíma og það er gott, stundum erfitt en samt mjög gott. Margir verða angurværir og jafnvel sorgmæddir á þessum tíma og hafa sínar ástæður fyrir því en hvernig svo sem lífi okkar er háttað þá eru áramót heilsusamleg fyrir sálina, við horfum til baka, við horfum í kringum okkur og við horfum fram. Og þegar við horfum fram þá stöndum við á herðum fortíðarinnar, hún er jarðvegurinn undir fótum okkar og hvert ár er tækifæri til að þétta og styrkja þann jarðveg, fortíðin er ekki bara það sem gerðist í fyrndinni heldur allt sem er liðið, á hverjum degi sköpum við fortíð til að byggja framtíðina á, þess vegna er framtíðin ekki bara óvissan ein heldur er hún það sem við hugsum og gerum í núinu, og jafnvel þó að við vitum ekki hversu langt líf okkar er eða verður hvaða áföllum við munum mæta, hvaða sigrum við munum fagna, hver verður gleði okkar á morgun eða hinn, þá vitum við samt hvaða manneskja við erum í öllu þessu ölduróti ef við vöndum okkur. Og það er það sem skiptir máli, við eigum ekki að kvíða hinu ókomna, eina sem skynsamlegt er að velta sér upp úr er hvort maður er alvöru manneskja eða ekki og um það höfum við svo sannarlega val. Og þó að maður hljóti enga opinbera viðurkenningu á mennsku sinni þá veit Guð hvað í hverjum manni býr og það er nóg. Þess vegna er svo auðvelt að vera í samskiptum við Guð, hann veit um allt það góða sem er fólgið í hjarta þínu og þess vegna máttu alltaf vera þú sjálfur í trúnni og í samskiptum við Guð.

Undanfarin ár hefur verið viss flótti í menningu okkar, ekki bara hinn bókstaflegi flótti þar sem fólk hefur pakkað saman búslóð og hreinlega flutt héðan heldur í sjálfsvitund þjóðarinnar og ég held að það sé þess vegna sem við erum alltaf annað hvort reið eða bitur, samstaðan virðist vera í reiðinni og ég viðurkenni að það umhverfi gerir tíma sem þennan þ.e. áramót alls ekki auðveldari. Ég hugsa oft til kynslóðarinnar sem er að taka út vöxt í þessu andrúmslofti hvernig jarðvegur þeirra er inn í framtíðina, ég held t.d. að reiði okkar sem eldri erum kenni hinum yngri ákveðið miskunnarleysi, það hlýtur að vera mjög þrúgandi að alast upp í samfélagi sem líður engin mistök, nú er ég ekki að tala um afglöp í stjórnun fjármálafyrirtækja eða hegðun sem varðar við lög enda er það annar kapítuli sem ekki er til umfjöllunar hér, heldur er ég að vísa til þessarar undirliggjandi reiði þjóðarinnar sem dregur úr sjálfstrausti vaxandi kynslóðar.

Ég hugsa nefnilega oft til baka og signi mig yfir öllum mistökunum sem ég fékk að gera áður en ég komst sæmilega til manns og ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að læra af þeim. Ég er eiginlega miður mín yfir nákvæmlega þessum afleiðingum hrunsins, að þjóðin skyldi festast þarna í sorgarferlinu, í reiðinni og biturleikanum, ég vildi óska að við værum komin lengra, jafnvel að léttinum yfir því að þessu óeðlilega ástandi góðærisins sé lokið, en léttir er þekkt tilfinning í sorgarferli og snýst þá um að einhverju ástandi er lokið eins og þegar fólk þjáist og breytist vegna alvarlegra sjúkdóma, þá er ekki léttir vegna dauðans heldur líknarinnar sem dauðinn veitti.

Getur verið að við séum enn svona reið af því að sjálfsmyndin er brotin og við vitum ekki hvaða mann þjóðin hefur að geyma? Getur verið að við höfum ekki haft nógu sterkar forsendur til að takast á við sameiginlegt áfall? Vorum við kannski hætt að vanda okkur, af því að menning snýst um að vanda sig eins og Þorsteinn heitinn Gylfason heimspekingur sagði svo fallega.

Ég hugsaði þetta allt meðan ég hlustaði á söngvaskáldið Svavar Knút syngja kvæði Lóu í Silfurtunglinu eftir Halldór Laxnes, „hvert örstutt spor var auðnuspor með þér“ því í þeim texta sameinast jól og áramót, mennska og guðdómur, fortíð, nútíð og framtíð, gleði og sorg, myrkur og ljós en líka eilífðin sjálf.

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér, hvert andartak er tafðir þú hjá mér var sólskinsstund og sæludraumur hár, minn sáttmáli við guð um þúsund ár.

Hvað jafnast á við andardráttinn þinn? Hve öll sú gleði er fyrr naut hugur minn er orðin hljómlaus utangátta og tóm hjá undrinu að heyra þennan róm, hjá undri því, að líta lítinn fót í litlum skóm, og vita að heimsins grjót svo hart og sárt er honum fjarri enn, og heimsins ráð sem brugga vondir menn, já vita eitthvað anda hér á jörð er ofar standi minni þakkargjörð í stundareilífð eina sumarnótt. Ó alheimsljós, ó mynd sem hverfur skjótt

Amen.