Í vikunni kom í Neskirkju hópur grunnskólakennara til að fræðast um biblíumat og það var skemmtilegt að tala við þennan káta hóp um vellyktandi krydd og hráefni Biblíutímans. Í guðspjalli þessa sunnudags er fjallað um brauð lífsins. Og undir áhrifum grunnskólakennara var ég ráðinn í að tala um í prédikun í dag um mat í trú og kirkju og jafnvel gefa ykkur góða uppskrift ósýrðs brauðs. Svo fór ég að skoða betur þennan texta um Jesúbrauðið: „Ég er brauð lífsins“ og ræðan fékk alveg nýjan kúrs því inntakið mótar. Og ræðuefnið í dag verður því ekki brauð heldur fremur líf. En fyrst um sjálfskilning og þar með um þig.
Sjálf og þú Hvernig skilgreinir þú þig? Hvað ertu? Ef þú segir orðin: „Ég er…“ hvað kemur þér í hug. Þú mátt gjarnan nefna nokkur atriði í huganum. Ég er… -
Það er mikilvægt að staldra við og ákvarða sjálfsskilning sinn. Ég þekki fólk sem hefur íhugað gildi sín og unnið vel með þau. Gildi varða djúpið, grundvöll fólks og þau stýra stefnumálum og lífsafstöðu. Margir skilgreina jafnvel markmið sín árlega og hvernig ná megi þeim markmiðum. Stefnumál þarf að endurskoða því lífið flæðir og aðstæður breytast og krefjast nýrrar stefnumörkunar.
Hvað skiptir þig máli? Ertu upptekinn af útliti þínu, aðstöðu þinni, vinnu, heilsu, tengslum eða tengslaleysi, vanlíðan eða fólki? Hvað skiptir þig mestu máli og hver skipta þig máli? Hvaða lífsskoðanir hefur þú? Hver ertu? Og svo máttu æfa þig í hljóði – þar sem þú ert núna, draga fram mikilvægu málin og viðurkenna hvað þú ert: Ég er…. og reyndu að nefna mikilvæg atriði. Og það er allt í lagi að ljúka ekki verkefninu í kirkjunni í dag heldur halda áfram heima.
Brauð fyrir líf Í guðspjallinu er stefið: Ég er… Og Jesús orðar hvað hann er með furðulegri sjálfstjáningu. „Ég er brauð lífisins“ segir hann. Hvað merkir það eiginlega? Við getum bakað brauð eða keypt í búð. En brauð lífsins? Jesús á ekki við franskbrauð eða vínarbrauð. Í búð er ekki brauð lífsins að fá – alla vega ekki í Björnsbakaríi á Fálkagötunni. Hvað meinar Jesús? Er yfirlýsing hans einhvers konar ljóðrænn gjörningur?
Við vitum að Jesús var snjall og sagði ekki svona setningu út í loftið og samhengislaust. Hann talaði alltaf inn í aðstæður, talaði við fólk og með velferð fólks í huga. Tilvera hans var í þágu annarra - í tengslum við lífið og í þágu þess. „Ég er brauð lífsins.“ Það er hjálplegt að vita að þessi brauðyrðing Jesú er ein af sjö „Ég er“ - setningum í Jóhannesarguðspjalli. Í öllum tilvikum smellir hann stórum hugtökum við orðin ég er og úr verður myndhverfing til íhugunar.
Hann segist líka vera vegurinn og ekki ljóst hvernig sú vegagerð er. Jesús segist líka vera sannleikurinn og lífið. Sjálfstjáning Jesú er því sérkennileg og eiginlega útvíkkandi. „Ég er brauð lífisins.“ Þegar hann sagði þessi orð fylgdu Jesú stórir hópar af fólki sem veltu vöngum yfir hvort hann væri nýr þjóðarleiðtogi. Það var alveg sama hvað Jesús sagði eða gerði – hann var ekki bara misskilinn heldur vanskilinn. Brauðyrðing Jesú kom í kjölfar þess að hann brauðfæddi fjölda fólks. Hann var í huga fólks allt í einu orðinn brauðbirgir. Fólk var upptekið af matnum og hlustaði ekki með hjartanu og misskildi því illa. Jú, Jesús vissi, tók alvarlega og talaði um að allir þyrftu brauð - en hann væri þó allt annað en brauðjólasveinn. Hann væri brauð lífsins. Í guðspjallinu segir Jesús margt um sjálfan sig sem allt beinir til grundvallar lífsins og eðlis þess. Þegar orð hans eru skoðuð í samhengi kemur í ljós að Jesús notaði gjarnan tækifæri í samskiptum við fólk til að hvetja það til að sjá lífið í stóru samhengi, guðlegu og trúarlegu.
Þegar fólk bað Jesú um hjálp, aðstoð, skýringu eða stefnu notaði meistarinn tækifærin til að beina sjónum frá hinu smáa til hins stóra, frá hinu hversdagslega til hins mikilvæga, frá hinu yfirborðslega til hins eiginlega. Aðferð hans var sú sama og uppalendur allra alda hafa þekkt og notað, að fara frá hinu þekkta til hins óþekkta, að hjálpa við nám með því að nota það sem við skiljum til að nálgast hið ókunna og illskiljanlega. Jesús tók mið af fólki, aðstæðum og venjulegum málum – líka mat - til að kenna fólki meira um hvað Guð er og hvernig Guð er. Brauðát leiðir t.d. hug að hvernig Guð nærir. Máltíð leiðir huga að eðli Guðs.
Og hvað eigum við svo að gera við þessa Ég-er-speki Jesú? Getur hún orðið þér til hjálpar við að skrifa gildi þín, stefnu þína, móta hver þú ert og til hvers?
Guð er... Í annarri Mósebók segir frá því að Móse var á ferð í eyðimörkinni, sá brennandi runna og fór að honum til að kanna hverju eldurinn sætti. Hann uppgötvaði að þar var heilagur staður því Guð talaði til Móse á þeim stað og bað hann fara með Ísraelsþjóðina burt frá Egyptalandi. En Móse var glöggur og gerði sér grein fyrir að hann myndi hvorki sannfæra heila þjóð um að hverfa frá kjötkötlunum og út í óvissuna né einráðan faraó Egyptalands að leyfa þrælunum að fara. Móse vildi því hafa á hreinu hver þessi guð væri sem hann ætti að kynna sem höfund ómögulegrar hugmyndar - sem var augljóslega Mission impossible. Þá sagði Guð úr runnanum: „Ég er.“ Það sem Móse átti að segja – þegar hann kæmi til Egyptalands - væri að guðinn „Ég er – sendi hann. Heitið, nafnið, Jahve var notað til að tjá þetta “Ég er.”
Jesús þekkti vel þessa sögu. Og hann notaði þessa „Ég er“ -hefð til að setja nefningar um sjálfan sig inn í. Þar með varð til ný guðfræði og opinbert að hann tengdi sig guðssögu Ísraels. Því var tilheyrendum hans ljóst að hann var að guðtengja sig með því að segja: „Ég er brauð.“ Svo voru allar hinar sjálfsskilgreingar Jesú. Ég er vatn lífsins, dyrnar, vegurinn, sannleikurinn, lífið. Það er í þessu samhengi sem við túlkum „Ég er -“ orð Jesú.
Sjálfsskilgreining Jesú er slík að hann túlkar sig sem nánd Guðs í veröldinni - að Guð kemur í honum.
En hver ert þú? Hvernig ertu? Þú getur skilgreint þig í ljósi styrkleika eða veikleika, vona eða aðstæðna. Og þær aðstæður hafa áhrif á hvernig þú nálgast Guð – og líka hvernig Guð nálgast þig. Guð tekur alvarlega raunveruleika fólks, ástand, vonir og þrá. Guð talar ekki eða starfar úr takti við líf fólks og heims, heldur tekur alvarlega raunveru manna og heims. Gagnvart þeim sem er dapur, hugsar myrkar hugsanir og sér ekki út úr hræðilegum aðstæðum segir Jesús Kristur: „Ég er ljós heimsins.“ Við þau sem eru innilokuð, fangelsuð og kraminn segir hann: „Ég er dyrnar.“ Við þau sem eru villt, týnd, vonlaus og í hættu segir hann: „Ég er góði hirðirinn.“ Svo eru þau sem eru deyjandi, sjúk, einmana eða gjaldþrota sem þrá ástarorð. Við þau segir Jesús: „Ég er upprisan og lífið.“
Fjöldi fólks á erfitt með að skilgreina gildi sín, stefnu og möguleika. Við þau segir Jesús: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ - og einnig: „Ég er hinn sanni vínviður.“ Og með öllum þessum sjálfstjáningum höfum við tjáð sjöuna í Jóhannesarguðspjalli - hið sjöfalda „Ég er...“ En svo er áttunda ég er – og það ert þú. Þið passið saman, heyrið saman Guð og þú. Jesús færir þér, tjáir þér, er þér allt sem gerir þér gott.
Þegar þú borðar nýtur þú lífsgæða. Guð hefur skapað lífið og því segir Jesús við þig: „Ég er nærri í fæðu og lífsgæðum.“ Þegar þú vaknar til nýs dags er Guð þér nærri og Jesús segir „ég er dagurinn og vegurinn.“ Þegar þú syngur er Guð söngur lífsins. Guð er alls staðar og er hið innsta inni lífsins og verður ekki stúkaður af aðeins í kirkjuhúsum. Guð forðast ekki myrkur eða angist - eða aflokaðar aðstæður smásmygli og smættunar. Jesús kallar ekki til þín ofan úr skýjunum heldur er hjá þér í raunaðstæðum venjulegs lífs. Hann gefur þér lífið, fæðu, frið, næringu, allt sem þú þarfnast. Svo þegar allt er komið í strand leysir hann þig úr prísund og er þér lífgjafi. Hann er. Vera Jesú, hin guðlega verund, er forsenda, ástæða að heimurinn er til. Þú ert Guði óendanlega mikils virði, þú ert lífsperla sem Guð elskar, verndar og passar upp á.
Hver ertu? Í öllu lífi megum við opna tilveru okkar gagnvart veruleika Jesú sem segir: „Ég er brauð lífsins.“ Guð er hjá þér og heldur áfram að vera þér lífið sjálft. Amen
Textaröð: B Lexía: 2Mós 16.11-18 Drottinn ávarpaði Móse og sagði: „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna. Talaðu til þeirra og segðu: Ísraelsmenn, áður en dimmt er orðið munuð þið fá kjöt til matar og á morgun seðjist þið af brauði. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.“ Um kvöldið komu lynghænsn og þöktu búðirnar en morguninn eftir hafði dögg fallið umhverfis búðirnar. Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. Fyrirmælin, sem Drottinn hefur gefið, eru þessi: Safnið því sem hver þarf til matar, einum gómer á mann og skal hver um sig safna í samræmi við þann fjölda sem býr í tjaldi hans.“ Þetta gerðu Ísraelsmenn og söfnuðu sumir miklu en aðrir litlu. Þegar þeir mældu það í gómermáli gekk ekkert af hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. Sérhver hafði safnað því sem hann þurfti til matar.
Pistill: Fil 2.1-5 Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
Guðspjall: Jóh 6.47-51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“