Ógnvekjandi og yfirþyrmandi

Ógnvekjandi og yfirþyrmandi

Það sem hann skynjaði var í senn ógnvekjandi og yfirþyrmandi. Og sannarlega af þeim toga að orðin þrjóta til að ná utan um það. Já, eilíft líf – eilífðin – er það ekki stærsta spurning sem allar hugsandi verur geta brotið heilann um? Hvernig er að vera takmörkuð í tíma og rúmi í alheimi sem teygir sig svo ógnarlangt í allar áttir?

 

Nýverið tókum við niður verk Huldu Stefánsdóttur hér á Torginu. Hún nefndi sýninguna Jaðarstund og vísar til jónsmessunnar sem var nýliðin þegar við hengdum myndir hennar hér upp. Þær voru skínandi bjartar með ljósum tónum og jafnvel silfruðum rákum, allt féll það vel að sumri og birtu.

 

Skammdegi

 

Nú kveður við annan tón, aðra litatóna. Ragnar Þórisson dregur upp myndir af niðurdregnum verum, jafnvel niðurbrotnum getum við sagt. Það er dimmt yfir þessum persónum. Yfir þeim hvílir drungi og Ragnar er örlátur við gesti sýningarinnar. Hann lætur þeim eftir að túlka og tjá. Myndirnar eru fyrir vikið nafnlausar, án titils. Við getum ef við viljum upphugsað einhver heiti á verkin. Í það minnsta er striginn okkar auður fyrir yfirskrift og þær hugrenningar sem verurnar kalla fram.

 

Sýningin opnar í þessum mánuði sem við getum kallað fyrsta skammdegismánuðinn. Það er enn rökkur þegar við yfirgefum heimili okkar að morgni og höldum til starfa okkar. Og fljótlega eftir að heim er komið er farið að húma að nýju. Þeim fækkar jafnt og þétt birtustundum sólarhringsins.

 

Löng hefð er fyrir því að vinna með þær stemmningar sem myrkrið og kuldinn vekja og túlka þær á myndrænan hátt. Hrekkjarvaka er í fullum undirbúningi og það er eins og fólk á öllum aldri sjái tengslin. Hún er óður til hins óþekkta og hins hættulega – vafalítið andlegur undirbúningur fyrir veturinn, þegar mannslífin voru í mestri hættu. Má ekki skoða dansandi beinagrindur og glottandi grasker sem kokhreysti varnarlausra samfélaga andspænis ógnaröflum myrkurs og betrar?

 

Mér er birtan hugleikin og þar með rökkrið. Sé fyrir mér skammdegið með drunga þess en líka dulúð, þegar ég rýni í þessi verk. Og þá ekki aðeins til möndulhalla jarðar heldur hvernig tilvera okkar og tilvist getur með sama hætti hallað undir flatt. Þær stundir renna upp að við víkjum okkur undan ljósinu og það er eins og Ragnar fangi þau andartök. Við finnum fyrir vanmætti okkar andspænis því sem við fáum ekki ráðið við.

 

Ógnvekjandi og yfirþyrmandi

 

Hallgrímur Helgason skrifaði um verk Ragnars í Skírni árið 2015 og þar lýsir hann myndum á þennan hátt: „Handalaus situr mannskepnan föst á fleti sínum og starir út úr honum eða í gnaupnir sér, niður fyrir sig og virðist hafa uppgötvað eitthvað um sjálfa sig og lífið, eitthvað hræðilegt, eitthvað stórkostlegt, eitthvað sem verður ekki komið í orð, aðeins máluð um það mynd.“

 

Spyrjandinn í guðspjallinu hafði með sama hætti uppgötvað eitthvað um sjálfan sig og lífið. Mögulega hefur svipur hans verið líkur þeim sem við sjáum á myndum Ragnars og Hallgrímur lýsir í pistli sínum. Það sem hann skynjaði var í senn ógnvekjandi og yfirþyrmandi. Og sannarlega af þeim toga að orðin þrjóta til að ná utan um það. Já, eilíft líf – eilífðin – er það ekki stærsta spurning sem allar hugsandi verur geta brotið heilann um? Hvernig er að vera takmörkuð í tíma og rúmi í alheimi sem teygir sig svo ógnarlangt í allar áttir?

 

Þess vegna hrekkur það svo skammt, hinum unga og auðuga manni þótt hann hafi farið eftir einhverju sem jafn afmarkað og þessi tíu boðorð. Að endingu kemur að því að þeim kröfum sem við getum ekki geta uppfyllt. Verður það ekki alltaf svo þegar við tökumst á við eilífðina með okkar tímanlegu aðferðum?

 

Svarið sem Jesús gaf ríka unglingnum kom ekki aðeins við kauninn í honum. Það snertir líka illa á okkur, hverju og einu sem á þetta kann að hlýða. Erum við, frekar en hann, tilbúin að afhenda fátækum allar okkar eignir, varpa frá okkur öryggi, þægindum og velsæld til að höndla hið eilífa hnoss? Er þá eins með okkur farið - eigum við meiri möguleika á að komast inn í himnaríki en úlfaldi í gegnum nálarauga?

 

Súrrealísk samlíking

 

Já, margir hafa reynt að útskýra þessi makalausu samlíkingu. En er þetta ekki kannske listræn túlkun sem reyndar minnir á allt annan stíl en þann sem Ragnar sækir í, nefnilega súrrealismann? Hvað erindi á háfættur úlfaldi í gegnum þessa rauf sem ætluð er fyrir hárfína þræði? Minnir þetta ekki á verk eftir Dali eða Breton sem komu á stefnumóti gerólíkra fyrirbæra á strignum? Og skilaboðin eru þau að við vinnum okkur ekki inn hlutdeild í eilífðinni. Við höndlum ekki hið ótakmarkaða af eigin rammleik. Sú hugsun er absúrd, súrrealísk.

 

„Guði er ekkert um megn“ segir Jesús og þar með verður það ljóst að í þeim efnum játum við takmörk okkar og horfumst um leið í augu við þá staðreynd að góðverk okkar vinnum við ekki í okkar eigin þágu heldur annarra.

 

Kærleikurinn er heldur ekki einkamál kristinna manna, sem betur fer. Allir menn hafa í sér viljann og þörfina til að gera gott. Það er náttúruleg löngun sem við þurfum aðeins að geta virkjað. Þekktasta útlegging Jesú á umhyggju fyrir náunganum er dæmisögan af Miskunnsama Samverjanum. Þar var það heiðinginn sem vann góðverkið en strangtrúaður prestur og levíti brugðust á ögurstundu. Þar talar Kristur aftur til okkar úr óvæntri átt og vegur enn að sjálfsréttlætingu og hræsni þeirra sem þykjast hafa sannleikann sín megin í lífinu.

 

Svipurinn á myndunum hér á Torginu getur í því samhengi verið andartakið þegar hið dauðlega horfist í augu við hlutskipti sitt. Um það fjallar þetta guðspjall og viðleitnin til að vinna sér inn sess í eilífðinni verður svo vonlaus ef menn ætla að gera það í krafti eigin afls.

 

En Guði er ekkert um megn.